Bakkabræður í ríkisstjórn

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


Þórir Stephensen

Íslenskur sagnaarfur á ekki margar þekktari eða skemmtilegri sögupersónur en þá Gísla, Eirík og Helga, bræðurna á Bakka í Svarfaðardal. Þeir voru svo skemmtilega vitgrannir, að þeir hafa orðið aðhlátursefni margra kynslóða.

Eitt fáránlegasta uppátæki þeirra var, er þeir reistu sér baðstofu og höfðu hana gluggalausa til þess að hún yrði hlýrri á vetrum. En þá vantaði birtuna í bæinn. Til að bæta úr því, ákváðu þeir að bera myrkrið út og sólskinið inn í trogum. Þrátt fyrir dugnað þeirra við trogaburðinn, hafði ekkert birt í bænum þegar leið á daginn. Þeir sáu ekki handa sinna skil frekar en áður.

Ég get ekki að því gert, að mér finnst sumt í gerðum núverandi ríkisstjórnar minna mig á baðstofubygginguna á Bakka. Einkum á það við um utanríkis- og fjármál. Meðan meirihluti þjóðarinnar vill láta á það reyna, hvort við náum hugsanlega viðunandi samningum við Evrópusambandið um samstíga framfarir, þá hamast Bakkabræður ríkisstjórnarinnar, þeir Sigmundur Davíð, Bjarni og Gunnar Bragi við að reyna að loka okkur inni í gluggalausu húsi. Við megum ekki sjá hvað aðrir gera best. Hugarfar frelsis og framfara á helst ekki að finna sér neinar glufur inn í samfélag okkar.

Okkur á að nægja það sem þeir eru að bera okkur í sínum forneskjulegu trogum og reynist árangurslítið, af því að þeir virðast ekki, frekar en Bakkabræðurnir fyrir norðan, hafa þá andlegu hæfileika sem þarf til að leysa vandamálin þannig, að samfélag okkar njóti birtu þeirra framfara sem öðrum hafa reynst vel.

Flestir sæmilega skynsamir menn sjá hvert svona innilokunarstefna leiðir okkur. Því þarf ekki að orðlengja þetta. En þótt við vitum, að Evrópusambandsaðild leysi ekki öll okkar vandamál, þá er sterk von við hana bundin, einkum í utanríkis- og fjármálum og því lýk ég þessari grein með hvatningarorðum sr. Matthíasar. Takið þau til ykkar hver og einn, Sigmundur Davíð, Bjarni og Gunnar Bragi:

Opnaðu bæinn, inn með sól!
Öllu gefur hún líf og skjól,
Vekur blómin og gyllir grein,
gerir hvern dropa eðalstein.
Opnaðu bæinn.

Höfundur: Þórir Stephensen
Greinin birtist í  Fréttablaðinu þann 15. maí 2014

Austurvöllur: Stefán Jón Hafstein

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


stefan-jon-hafsteinGóðir Íslendingar

Hér eru lokaorðin í sjálfsprottinni fundaröð og undirskriftasöfnun sem hófst fyrir nokkrum vikum.

Tilgangurinn með samverustundum hér á Austurvelli var frómur.
 Við viljum styðja og styrkja ráðamenn sem þjóðin kaus til valda fyrir ári.

Hjálpa þeim að standa við orð sín.

53. 555 undirskriftir segja meira en nokkur orð.

Á þessum fundum á Austurvelli, þar sem Jón Sigurðsson stendur eins og ávallt og horfir ögn svipþungur á Alþingi, hefur margt gott verið sagt.
 Fínar ræður fluttar og litlu við að bæta. 
Enn eru Íslendingar orðsins menn og vilja ná sínu fram með friði.

Við komum hingað til að eiga orðastað við ráðamenn, og orðin sem mér eru minniststæðust frá þessum fundum og segja í raun allt sem þarf eru þessi, orð skáldsins Sigurðar Pálssonar:

Loforð er loforð er loforð.

Erindi okkar hingað er að styðja og styrkja ráðamenn í því að halda orð sín.

Við munum þeirra eigin orð. Við höfum rifjað upp þessi loforð, þau hafa flogið eins og tilvitnanir úr Hávamálum og verið dregin upp úr geymsluhólfum nútímatækni og hafin til lofts eins og íslenskur fáni sem blaktir við hún. 
Við þau er engu að bæta.

Fimm ráðherrar Sjálfstæðisflokksins söguðu fyrir ári með ítarlegum útskýringum: Það verður þjóðaratkvæðagreiðsla.
 Formaður þeirra bætti um betur: Við þetta verður staðið.
 Og forsætisráðherra sagði sjálfur: Auðvitað verður þjóðaratkvæðagreiðsla.

Og skáldið sagði: Loforð er loforð er loforð.

Á þessum vikum hafa ýmis orð farið á flakk. Tekið á sig torkennilegar myndir.
 Loforð breyst í óorð.
 Óorð eins og þau sem koma óorði á þá sem þau nota, óorð sem eru óímunnberanleg og óskiljanleg, orð eins og ómöguleiki.

Hafa menn ekki lesið Einar Ben?

Vilji er allt sem þarf?

Hafa menn ekki lesið Hannes Hafstein?

Orð orðinnantóm

fylla storð

fölskum róm

Já, loforð er loforð er loforð.

Og góðu ráðamenn:

Mannorð er mannorð er mannorð.

Þess vegna bjóðum við fram aðstoð okkar. Svo ráðamenn fái staðið við eigin orð, þau sem þeir báru fram hátt og snjallt og kváðu fast að:

Það verður þjóðaratkvæðagreiðsla.
 Án aðkomu fólksins verða engin viðræðuslit við Evrópusambandið.

Við viljum ekki að ríkisstjórn Íslands verði lifandi forsendubrestur – í veiku lýðræði þar sem loforð og mannorð eiga að mynda það traust sem samfélagið allt byggir á.

Því eins og skáldin hefðu getað sagt – og við gerum öll:

Lýðræði er lýðræði er lýðræði.

Lifið heil.

Upptaka af ræðu Stefáns Jóns Hafstein.

Austurvöllur: Svanur Kristjánsson

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


svanur_kristjansson

Draumurinn um lýðveldi

17. júní 1944 var ekki dagur sólar og sumarhita á Þingvöllum.

Nei þvert á móti. Það rigndi, rigndi og rigndi allan daginn.

Þar að auki var hvassviðri og rok.

Um 25.000 manns – 20% Íslendinga -höfðu safnast saman utandyra til hátíðarhalda í þeirri bjartsýni og von – sem löngum hefur verið okkar gæfa.

Jafnvel hamslaus rigningin 17. júní 1944 hafði sína kosti að því er sagt var um þennan dag – því eins og sr. Sigurbjörn Einarsson benti á – þá ilmar birkið aldrei betur en eftir rigningu.

Fólkið á Þingvöllum fékk því ilm bjarkarinnar í morgungjöf þegar upp rann – bjartur og fagur – 18. júní 1944, fyrsti dagur eftir stofnun hins nýja lýðveldis .

Þannig var öllu snúið til betri vegar því að í huga þjóðarinnar var sólskin.

Í hjörtum fólksins var von.

Langþráður draumar þjóðarinnar um eigið lýðveldi var loksins að rætast.

Í þjóðaratkvæðagreiðslum höfðu Íslendingar kveðið upp sinn endanlega úrskurð.

Verið var að framfylgja vilja þjóðarinnar um nýtt lýðveldi og nýja stjórnarskrá.

Lýðveldisstjórnarskráin er merkileg, afar merkileg.

Í aðdraganda stofnunar lýðveldisins urðu mjög harðar deilur um hvers konar lýðveldi ætti að stofna, hvers konar lýðræði ætti að vera í hinu nýja Íslandi. Valdakarlarnir höfðu áformað að alvald Alþingis og ríkisstjórnar yrði tryggt með nýrri stjórnarskrá.

Alþingismenn treystu einungis sjálfum sér til að velja forseta Íslands.

Þeir treystu ekki þjóðinni til að kjósa forseta landsins.

Að þeirra mati áttu síðan Alþingismenn einir að hafa skilyrðislaust vald yfir forseta lýðveldisins og geta vikið honum frá völdum – hvenær sem þeim þóknaðist –af hvaða tilefni sem væri.

Alþingismenn gætu þannig umsvifalaust vikið þeim forseta frá völdum – sem vísaði til þjóðarinnar lagafrumvarpi sem Alþingi hefði samþykkt.

Forseti Íslands átti semsagt að vera undirgefinn þjónn Alþingis.

Áform ráðamanna um alvald – sér til handa- náðu ekki fram að ganga.

Í hörðum deilum og átökum í aðdraganda lýðveldisstofnunar bar þjóðarviljinn sigurorð af þingviljanum.

Fólkið vann en ráðastéttin tapaði.

Með stjórnarskrá lýðveldisins ætlaði nefnilega íslenska þjóðin að skapa skilyrði fyrir nýsköpun lýðræðis.

Forseti lýðveldisins skyldi valin af þjóðinni, kjörinn í beinni kosningu með landið allt sem eitt kjördæmi og öll atkvæði jafngild.

Forsetinn hefur sjálfstætt umboð frá þjóðinni, til hennar sækir hann sitt umboð – ekki til Alþingis, ekki til ríkisstjórnar.

Á þessum tíma var forseti Íslands eini forsetinn í lýðræðisríki – ég endurtek eini forsetinn í lýðræðisríki – sem kjörinn var beinni kosningu af þjóðinni.

Með þjóðkjöri forsetans kviknaði einnig til lífs stjórnarskrárvarin og sjálfstæður réttur forseta Íslands.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins hefur forseti Íslands skilyrðislausan rétt til að staðfesta ekki lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.

Slík frumvörp eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef að ágreiningur er á milli þings og þjóðar í mikilvægum málum skal þjóðin ráða.

Það er hin íslenska leið til lýðræðis.

Hin íslenska leið til lýðræðis er skráð skýrum stöfum í stjórnarskrá lýðveldisins.

Á árunum eftir lýðveldisstofnun var mikill og djúpstæður ágreiningur á milli meirihluta ráðahópsins annars vegar og þorra þjóðarinnar hins vegar. Ágreiningsmálin voru tvö:

Fyrra ágreiningsmálið milli þjóðarinnar og ráðamanna var að þjóðin vildi viðhalda hlutleysi Íslands.

Þjóðin vildi halda í heiðri yfirlýsingu sína frá 1918 um að Ísland skyldi vera ævarandi hlutlaust land.

Enginn her ætti að vera í landinu, ekki innlendur her – hvað þá heldur erlendur her.

Margir ráðamenn vildu hins vegar að Íslendingar gerðust sérstök bandalagsþjóð Bandaríkjanna og að bandarískum stjórnvöldum yrði leyft að hafa herstöð á Íslandi – jafnvel þó að heimsstyrjöldinni væri lokið.

Seinna ágreiningsmálið á milli þjóðarinnar og ráðahópsins var að þjóðin vildi að staðið væri við fyrirheit stjórnarskrárinnar um virkan fullveldisrétt þjóðarinnar.

Þjóðin vildi að haldnar yrðu þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál. Ráðamenn vildu hins vegar alvald stjórnmálaflokka, Alþingis og ríkisstjórnar.

Íslenska ráðastéttin sætti sig semsagt ekki við ósigur sinn við gerð stjórnarskrá lýðveldisins.

Í hugarheimi íslenskra ráðamanna fyrr og nú eru réttlátar leikreglur stjórnmálanna nefnilega bara tvær:

Regla nr. 1. hljóðar þannig: Ef þjóðin er sammála ríkisstjórninni þá á ríkisstjórnin að ráða.

Regla nr. 2. hljóðar þannig: Ef þjóðin er ósammála ríkisstjórninni þá á ríkisstjórnin að ráða.

Í október 1946 unnu íslenskir valdakarlar sigur – ef sigur skyldi kalla.

Þeir neituðu að halda þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykktu síðan þingsályktunartillögu sem heimilaði bandaríska herstöð í landinu.

Þar með var stefnunni um ævarandi hlutleysi Íslands hafnað í reynd.

Þjóðin fékk ekki að ákvarða framtíð sína sjálf eins og lofað hafði verið 17. júní 1944.

Um þessa atburði sagði Halldór Kiljan Laxness: „Hin frjóa gleði yfir því að vera sjálfstætt fólk hefur verið frá okkur tekin.“

Það reyndust – því miður – vera orð að sönnu.

Á 70 ára afmælisári íslenska lýðveldisins eru við hér á Austurvelli og ætlum enn og aftur að koma vitinu fyrir íslenska ráðamenn – og ekki veitir af.

Íslenskir ráðamenn reyna – enn og aftur – að taka frá okkur réttinn til að ákvarða sjálf okkar eigin framtíð.

Ráðamenn virðast nánast staðráðnir í að segja sig úr lögum við siðað samfélag.

Í siðuðu samfélagi svíkur fólk nefnilega ekki loforð sín.

Í þetta sinn mun íslenska þjóðin hins vegar sigra en ráðamennirnir munu hörfa.

Við vitum öll að án endurreisnar lýðveldisins verður annað Hrun.

Við vitum einnig að gott samfélag byggir á sameiginlegum draumum um betri framtíð – rétt eins og lýðveldið frá 17. Júní 1944 var byggt á draumum fólksins um nýsköpun lýðræðis.

Ég enduróma því raddir fólksins í landinu þegar ég segi hátt og skýrt:

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem enginn gengur svangur til hvílu.

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem fólkið í sjávarbyggðum landsins þarf ekki að óttast morgundaginn, þarf ekki að óttast að lénsherrarnir ákveði að svipta fólk atvinnu sinni og eignum.

Í því lýðveldi ákvarða lénsherrar ekki hvar á landinu fólk á sitt heimili og lífsviðurværi.

Í því lýðveldi eru engir hreppaflutningar á fólki.

Í því lýðveldi eru reyndar engir lénsherrar og undirsátar þeirra, heldur einungis jafningjar og samborgarar.

Í því lýðveldi er flóttafólk og hælisleitendur ekki lítilvirt og niðurlægt af valdhöfum.

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem fólkið í landinu á sjálfstæðan rétt á að taka ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu en þarf ekki að treysta á geðþóttaákvarðanir ráðamanna.

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem ríkir trúnaðarsamband á milli ráðamanna og fólksins í landinu.

Um lýðveldi þar sem orð skulu standa!

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem ráðamenn hunsa ekki niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjan samfélagssáttmála og nýja stjórnarskrá.

Því við skulum muna að draumar eru ekki lúxus. Eins og þjóðskáldið Hannes Pétursson segir: „Við stóðumst ekki án drauma – neinn dag til kvölds …“

Munum öll. Ekkert lýðveldi fær staðist án drauma fólksins um lýðræði, réttlæti, frelsi og jafnrétti.

Munum öll. Okkur Íslendingum er það lífsnauðsynlegt að endurheimta þá frjóu gleði að eiga samfélag hvort við annað.

Munum öll. Sem þjóð er okkur Íslendingum það lífsnauðsynlegt að endurheimta sameiginlegan draum okkar, að endurheimta drauminn frá 17. júní 1944 um lýðveldi sem við eigum öll saman.

Lýðveldið er okkar dýrmætasta og viðkvæmasta þjóðareign.

Við skulum gæta vel fjöreggsins sem okkur er sameiginlega trúað fyrir.

Upptaka af ræðu Svans Kristjánssonar.

 

Austurvöllur: Katrín Fjeldsted

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


Katrin_fjeldstedORÐ SKULU STANDA

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er eitt af stærstu pólitísku málum síðustu áratuga. Áhugi almennings á umræðunni fer vaxandi og fólk vill vita meira um hvað málið snýst. Evrópusambandið er nefnilega komið á dagskrá.

Ekki kusum við um það hvernig að umsókninni var staðið í júlí 2009, rétt er það. Við Íslendingar höfðum skömmu áður lent í mestu erfiðleikum og niðurlægingu seinni ára, hruninu mikla. Nú er sú umsókn komin á spjöld sögunnar, er staðreynd, þetta er búið og gert.

Einhliða ákvörðun um um að draga til baka svo mikilvæga umsókn má kalla misvitra atlögu að almenningi hér á landi og ber vott um að gjá sé enn milli þings og þjóðar.

Það liggur fyrir sá vilji kjósenda að láta ljúka viðræðum Íslands við ESB og yfir 50þús manns hafa undirritað áskorun þess efnis. Almenningur sér að Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og ASÍ eru sammála, aðilar vinnumarkaðarins eru sammála……óvenjulegt kannski, en segir sína sögu. Og eru þá stjórnvöld að leggja við hlustir? “Leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi og tortryggni”…..eins og segir í samstarfssamningi stjórnarflokkanna? Nú gefst einmitt kjörið tækifæri til þess. Sá samtakamáttur verður hins vegar ekki virkjaður nema stjórnvöld taki höndum saman við aðila vinnumarkaðarins og almenning í landinu. Við erum ekki alþingi götunnar heldur venjulegir kjósendur sem höfum myndað okkur ákveðna skoðun og látum hana í ljós saman: Við viljum þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðnanna í samræmi við almenna skynsemi og gefin kosingaloforð.

ORÐ SKULU STANDA

Í vinnu stjórnlagaráðs að gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir lýðveldið Ísland voru lagðar línur um aukin áhrif almennings á ákvarðanir stjórnvalda. Það að koma saman hér á Austurvelli laugardag eftir laugardag og krefjast þjóðaratkvæðis um hvort draga eigi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka er algjörlega í anda þeirrar vinnu sem lögð var í endurskoðun á stjórnarskránni. Stjórnvöld gátu ekki klárað það mál, því miður. Traust almennings til þingsins beið hnekki og ekki í sjónmáli að það batni, því miður.

Hér á landi hafa endalausar deilur einkennt síðustu ár. Þeim þarf að linna. Við verðum að komast að samkomulagi um framtíðina, um stjórnarskrá, um umhverfismál, um það líf sem við viljum eiga hér saman. Hvort við göngum í ESB eða ekki, hvort við tökum upp evru eða ekki. Um þau kjör og valkosti sem börnum okkar og barnabörnum bjóðast í námi og starfi. Við viljum allavega auka efnahagslegan stöðugleika, bæta lífskjör, lækka vexti.

Meirihluti landsmanna á að ráða því hvort við göngum í ESB, ekki meirihluti þingsins nema kosningar snúist beint um það mál og vilji kjósenda hafi þannig komið fram. Svo er ekki nú. Í kosningunum í fyrra ætluðu flokkarnir helst ekki að láta kjósa um Evrópumál, ekki setja þau á oddinn en svo fór samt að frambjóðendur urðu að svara spurningum um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Yfirlýsingar gefnar þá fóru ekkert á milli mála. Sjálfstæðismenn gáfu það út að kosið yrði um framhaldið. Þeir komast ekki frá því með sóma að svíkja það.

ORÐ SKULU STANDA

Í vinnu stjórnalagaráðs að nýrri stjórnarskrá voru lögð drög að leikreglum þar sem aðkoma almennings er tryggð á mun réttlátari hátt er nú er. Þar kemur fram viðurkenning á því að fólk eigi að geta haft áhrif á gang mála í þjóðfélaginu. Upplýstur almenningur á Íslandi vill ekki lengur láta deila og drottna heldur kynnir sér málin, tekur afstöðu og heldur stjórnvöldum við efnið svo þau stefni málefnum ekki í rangan farveg.

Þingsályktun um að draga aðildarumsókn Íslendinga til Evrópusambandsins til baka finnst mér misráðin og að hún hljóti að hafa verið gerð af fljótfærni. Ef ekki, var hún þá kannski einhvers konar yfirlýsing til þjóðarinnar um að ríkisstjórnin hafi kjark og þor í erfiðri stöðu? En staðan er alls ekkert erfið, þar liggur misskilningurinn. Og þetta er ekki einkamál stjórnmálaflokkanna heldur mál allrar þjóðarinnar. Það er alveg óhætt að treysta þjóðinni. Vönduð upplýsingagjöf til okkar, vönduð vinnubrögð valinkunnra sæmdarmanna við samningaborðið, þannig á að vinna þetta. Einhliða misráðin ákvörðun þingsins hugnast okkur ekki. Hver sem afstaða okkar er til endanlegrar aðildar kann að vera viljum við fá að láta skoðun okkar í ljós um stöðuna nú.

Það fyrirfinnast samt jákvæðar afleiðingar þessarrar þingsályktunar. Fleiri og fleiri kynna sér málið og taka afstöðu með okkur sem viljum að þjóðin hafi meira um mál af þessari stærðargráðu að segja en stjórnmálamenn vilja leyfa.

Fyrir ári síðan voru haldnar þingkosingar og þá lyftist brúnin á mörgum kjósandanum, því fyrirheit stjórnmálaflokkanna gáfu til kynna að birt gæti til í þjóðfélaginu þótt stjórnarskrármálinu væri klúðrað illilega undir lok síðasta kjörtímabils. Meðal annars var því lofað fyrir kosningar af Sjálfstæðismönnum að kosið yrði á kjörtímabilinu um það hvort halda ætti viðræðum við Evrópusambandið áfram. Jafnvel við fyrsta tækifæri. Þingsályktunartillaga sú sem lögð var fram á þinginu gengur beint gegn því loforði.

ORÐ SKULU STANDA

Hér á Íslandi er upp á svo margt að bjóða. Falleg náttúra, gott fólk. Hver og einn á að geta unað svo glaður við sitt, en til þess þarf samvinnu, traust. Samstarf og samvinnu, traust.

Ég var í pólitík meira og minna frá 1982 til 2007 en ekki lengur. Sit á friðarstóli eins og það er kallað og er að sinna öðrum verkefnum. Ég get bara ekki orða bundist við aðstæður sem þessar og hvet þingmenn til að hafa að leiðarljósi það að leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi og tortryggni.

Það er mun meira gaman saman og þjóðinni til heilla.

Ég vil hvetja til vitrænnar umræðu um Evrópusambandsaðild. Já eða nei, þjóðin á að ráða því. Það er engin ástæða til að draga umsóknina til baka þótt núverandi stjórnarmeirihluti hafi ekki áhuga á henni. Oft þarf að gera fleira en gott þykir.

Best væri að halda viðræðum áfram, fá niðurstöðu í þau atriði sem skipta okkur mestu og kjósa síðan um samningsdrögin.

Loksins eru málefni Evrópusambandsins komið á dagskrá í umræðunni hér á landi og kominn tími til.

Upptaka af ræðu Katrínar Fjeldsted.

Austurvöllur: Hallgrímur Helgason

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


hallgrimur_helgason

Ég veit ekki hvort er verra, harkan og hraðinn í upphafi málsins, eða hægagangur síðustu vikna. Þessi ríkisstjórn virðist ekki geta gert neitt almennilega. Hún getur ekki einu sinni svikið almennilega. Í staðinn fyrir að stjórnin standi við svik sín og taki þau alla leið höfum við fengið loðmullulegt tal og en óljósari loforð, sem enn auðveldara er að svíkja síðar meir.

Það er eiginlega bara eitt verra en vera svikinn. Og það er að vera svikinn um svikin.

En samkvæmt síðustu fréttum á þó að keyra málið í gegn, þrátt fyrir mótmæli, þrátt fyrir 53 þúsund undirskriftir, þrátt fyrir kosningaloforðin fyrir síðustu kosningar. Maður verður að geta skipt um skoðun ef forsendur breytast, sagði Illugi menntamálaráðherra. Má það þá ekki gilda fyrir þjóðina líka? Má þjóðin ekki líka skipta um skoðun eins og ráðherrarnir? Hún hefur þegar gert það. Forsendur breyttust og ríkisstjórnin hefur ekki lengur meirihluta landsmanna á bakvið sig. Með óbilgirni hafa þau reytt af sér fylgið og fjaðrirnar og nú vill fólk fá að kjósa. Ef ekki til alþingis þá allavega um þetta mál. En nei. Pólitískur ómöguleiki heitir það þá.

En var ekki sama staða uppi á liðnu kjörtímabili? Undirskriftir knúðu fram þjóðaratkvæði og fólkið kaus gegn stefnu ríkisstjórnar. Hvar var ómöguleikinn þá? Og hvað gerði sú stjórn? Hún fór að vilja fólksins og breytti um stefnu. Hverjir voru þá fremstir í flokki að knýja fram þjóðaratkvæði? Þeir sömu og segja nú að 53 þúsund undirskriftir breyti engu.

Maður getur ekki verið lýðræðissinni stundum og stundum ekki. Maður getur ekki bara verið lýðræðissinni á fjögurra ára fresti. Að vera lýðræðissinni er fullt starf. Maður verður að vera það alla daga ársins, öll ár, líka hlaupár, og á bakvakt, á kvöldin og um helgar. Að vera lýðræðissinni er dáldið eins og að vera í björgunarsveit. Björgunarsveitarmenn gera ekki upp á milli slysa. „Nei, mér líst nú ekki á að bjarga þessum. Ég er nú ekki sammála honum í pólitík. Eigum við ekki bara að leyfa honum að vera þarna ofan í sprungunni?“

Lýðræði snýst um val. En að vera lýðræðissinni býður ekki upp á neitt val. Maður getur ekki valið hvaða kosningum maður hlýðir.

Að vera lýðræðissinni er eins og að vera í björgunarsveit. Og hér stöndum við í enn einu útkallinu. Því slysin gerast enn. Eitt gerðist síðasta vor og annað í vetur. Og slys er alltaf slys, jafnvel þótt það sé sett í nefnd á vegum Birgis Ármanssonar. Hér þarf heila Landsbjörg til.

Það átti enginn von á því að þessi stjórn myndi halda ESB-viðræðum áfram. En það átti heldur enginn von á því að hún myndi slíta þeim. Það átti enginn von á því að hún myndi reyna að skemma. Eyðileggja það starf sem unnið var og spilla fyrir möguleikum næstu kynslóðar. Það kom á óvart, en átti samt ekki að koma okkur á óvart.

Utanríkisráðherra var búinn að segja okkur að hann sæti stundum leynifundi í LÍÚ. Forsætisráðherra var búinn að flytja lögheimili sitt í norð- austurkjördæmi, höfuðvígi LÍÚ. Fjármálaráðherra var búinn að segja okkur að hann snæddi stundum á Holtinu í boði LÍÚ, með sjálfum ritstjóra LÍÚ-andans, eða „Ljúgandans“. Sjávarútvegsráðherra gerði það að sínu fyrsta verki að lækka veiðigjöldin á LÍÚ. Og menntamálaráðherra, innanríkisráðherra og iðnaðarráðherra vissu að þau urðu að svíkja kosningaloforðin svo þau gætu sagt: „Jú. Ég held ég hafi nú alveg stuðning Davíðs Oddssonar.“ Því án hans fengju þau ekki lengur greinarnar sínar birtar í Ljúgandanum.

Hér situr ríkisstjórn LÍÚ og LÍÚ vill ekki í Evrópusambandið, því innan þess verður flóknara fyrir LÍÚ að reka sína eigin ríkisstjórn og stjórna landinu og miðunum. Það hlálegasta við það allt er þó sú staðreynd að stærstu fyrirtækin innan LÍÚ gera þegar upp í evrum, og Samherji stundar umdeildar veiðar við Afríku í boði ESB. Því getum við með góðu sagt að LÍÚ sé þegar gengið í ESB og vilji vera þar áfram, svo lengi sem þjóðin stendur utan ESB. Þeir vilja þiggja kostina en hafna göllunum.

Ég verð eiginlega að endurtaka þetta: Fyrirtækin sem gera upp í evrum, sem njóta góðs af evrunni og ESB, berjast hatrammlega gegn inngöngu Íslands í ESB. Hér gildir gamla góða prinsipplausa hagsmunafrekjan: Ég vil ekkert með þig hafa, en láttu mig samt hafa þarna styrkinn sem þú varst að tala um!

Stundum líður manni eins og maður sé persóna í sögulegri skáldsögu sem er skrifuð til að varpa ljósi á fáránleika fortíðar: Hvernig þjóðin var föst í vistarbandi og einokunarverslun, kúguð af erlendum smákóngum. Stundum líður manni eins og maður sé fastur í fáránlegri fortíð hér og nú, lítilþægur þegn í kvótalénsveldi þar sem kóngarnir eiga ekki bara auðlindina og arðinn af henni, heldur megi þeir einnig hámarka gróðann í gjaldmiðli sem bannaður skal almenningi um ár og aldur. Það má ekki einu sinni kanna málið.

Og Guðlaugur Þór segir: „Við verðum að fara að ræða málið efnislega.“ Er það ekki dáldið seint þegar verið er að slíta því?

Og Gunnar Bragi segir… Já, hvað sagði hann eiginlega? Ég bara skildi það ekki. Ég bara beið eftir því að þulurinn segði: „Við biðjumst velvirðingar á því að texta vantaði við þessa frétt.“

En saman kyrja þau öllum stundum sí og æ: „Við teljum hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins.“ Þetta er viðlagið þeirra, lokapunkturinn í hverju viðtali. „Við teljum hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins.“

Þá neyðumst við til að segja á móti: „Við teljum hagsmunum Íslands best borgið utan kjörtímabilsins.“

Það getur vel verið að hið fyrra sé rétt og hið síðara rangt, en það getur líka vel verið að hið fyrra sé rangt og hið síðara rétt. Eina leiðin til að fá úr því skorið er sú að halda viðræðunum áfram og meta stöðuna að þeim loknum.

Þess vegna viljum við fá að kjósa!

Upptaka af ræðu Hallgríms Helgasonar.

 

Undirskriftir afhentar 2. maí kl. 13

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


althingishusid

Föstudaginn 2. maí kl. 13 verður Alþingi afhent áskorun frá 53.555 kosningabæru fólki.
Fyrir hönd Alþingis taka við áskoruninni forseti Alþingis ásamt formönnum þingflokka.

Stutt athöfn verður í Skála, sem er anddyri að Alþingishúsinu.
Undirskriftirnar afhenda nokkrir fulltrúar sem tóku virkan þátt í söfnuninni.

Fjölmiðlum hefur verið boðið að vera viðstaddir.

Um áskorunina og undirskriftasöfnunina
Þann 21. febrúar 2014 lagði utanríkisráðherra fram á Alþingi þingsályktunartillögu á þingskjali nr. 635 um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, 340. mál.

Óhætt er að segja að tillagan hafi vakið hörð viðbrögð og mörgum þótt vinnubrögðin í hæsta máta sérkennileg í ljósi yfirlýsinga fyrir og eftir kosningar um meðferð aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Já Ísland ákvað að bregðast við með því að hleypa af stað undirskriftasöfnun til þess að krefjast þess að þingsályktunartillagan yrði lögð til hliðar og að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Undirskriftasöfnunin hófst að kvöldi sunnudagsins 23. febrúar og lauk sunnudaginn 27. apríl eftir páska. Söfnunin stóð því samtals í 63 daga og er beint til 63 þingmanna.

Áskorunin er þessi:

 Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt:


Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?

Áskorunin var birt á vefsetrinu www.þjóð.is með þessum formála:

Spurningin um aðild að Evrópusambandinu er stærri og mikilvægari en svo að einstakir stjórnmálaflokkar eða ríkisstjórnir eigi að ráða svarinu.

Alþingi ber að sýna þjóðinni þá virðingu að leggja framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins í dóm allra Íslendinga.

Þess vegna er hafin undirskriftasöfnun hér þar sem skorað er á Alþingi að leita þjóðarviljans.

Alþingismenn starfa í umboði okkar. Látum þá vita hvað við viljum og skrifum undir.

Undir sjálfa áskorunina gafst gestum síðunnar kostur á að skrá sig. Þar varð að skrá nafn og kennitölu. Viðkomandi varð að vera fullra 18 ára á undirskriftardegi. Fólk gat valið nafnleynd ef það óskaði og einnig gafst kostur á að senda inn skilaboð til þingmanna.

Undirskriftum var einnig safnað með hefðbundnum hætti með því að gefa fólki kost á að skrifa undir lista. Undirskriftum var einkum safnað á höfuðborgarsvæðinu með þeim hætti.

Til þess að tryggja eins og kostur er að söfnunin yrði áreiðanleg voru þessar ráðstafanir gerðar.

  • Á síðunni var unnt að kanna hvort kennitala væri skráð. Ef viðkomandi taldi að kennitala væri ranglega skráð gat hann sent inn athugasemd og var kennitalan fjarlægð í framhaldi af því.
  • Eftir að söfnuninni lauk voru allar kennitölur og nöfn keyrð saman við þjóðskrá af fyrirtækinu Ferli ehf. skv. sérstökum samningi við Þjóðskrá.

Einungis þær undirskriftir sem stóðust framangreint voru teknar gildar og reyndust þær vera 53.555, sem er um 22,1% kosningabærra manna.

Ábyrgðarmaður söfnunarinnar er Jón Steindór Valdimarsson formaður samtakanna Já Ísland, en stjórn þeirra ákvað að hrinda henni af stað.

3. maí – samstöðufundur á Austurvelli

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


austurvollur

Sjöundi samstöðufundurinn með góðri dagskrá verður laugardaginn 3. apríl kl. 15 – 16.

Daginn áður verða undirskriftir afhentar forseta Alþingis og formönnum þingflokkanna.
Þeim 53.555 undirskriftum verður að fylgja eftir með kröftugum fundi sem verður vonandi sá síðasti til að fylgja þessu máli eftir, a.m.k. í þessari lotu því við komum aftur ef þess þarf!

Dropinn holar steininn.

Eins og fyrri laugardaga verða tónlistaratriði og góðir ræðumenn.

* Hjalti í Múgsefjun hitar upp.
* Fundur settur.
* Hallgrímur Helgason, rithöfundur
* Katrín Fjeldsted, læknir og fyrrverandi alþingismaður og borgarfulltrúi
* Tónlist: Hallveig Rúnarsdóttir, sönkona og Guðrún Dalía Salómonsdóttir, píanóleikari
* Svanur Kristjánsson, stjórnmálafræðiprófessor
* Stefán Jón Hafstein, starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar
* Ályktun borin undir fundinn
* Fundi slitið

Mikilvægt er að allir mæti sem geta og láti sem flesta vita.

Facebook atburðurinn er hér.

Já – ég vil kjósa, undirskriftasöfnun að ljúka

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


austurvollur

Undirskriftasöfnunin á www.þjóð.is, sem hófst kl. 22 sunnudaginn 23. febrúar, lýkur sunnudaginn 27. apríl kl. 22.

Söfnunin hefur þá staðið í rétta 63 sólarhringa – einn fyrir hvern þingmann á Alþingi en þangað er áskorun söfnunarinnar beint.

Fleiri hafi ekki skrifað undir áskorun til Alþingis í 40 ár.

Stefnt er að því að afhenda alþingismönnum undirskriftalistana um komandi mánaðamót, en fyrst þarf að ganga frá nafnalistum, keyra saman við þjóðskrá og búa til prentunar.

Nánari grein verður gerð fyrir stað og stund afhendingarinnar þegar nær dregur.

Rétt er að minna alla þá sem enn eiga eftir að skrifa undir að grípa tækifærið meðan það gefst en áskorunin er svohljóðand:

Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt:

Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?

Hér er hægt að skrifa undir.

Austurvöllur: Jón Svavar Jósefsson og Guðrún Dalía Salómonsdóttir flytja Nirfillinn

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


jon_josef_Á fundum okkar á Austurvelli hafa margir tónlistarmenn lagt baráttunni lið.

Laugardaginn 5. apríl fluttu þau Jón Jósef Svavarsson, baritón og Guðrún Dalía Salómonsdóttir, píanóleikari lag eftir Karl Ottó Runólfsson við ljóð Davíðs Stefánssonar – Nirfillinn.

Upptaka af flutningi Jóns Jósefs og Guðrúnar Dalíu.


Austurvöllur: Einar Kárason

Staðsetning

, .
október 16, 2019
kl. til .


einar_karasonEinar Kárason, rithöfundur flutti ræðu á Austurvelli og talaði blaðalaust.

Hér er upptaka af ræðu Einars.