Já, aðild ríkja að ESB auðveldar viðskipti við ríki utan sambandsins. Fernt skiptir hér mestu.

Í fyrsta lagi hefur þátttaka í sameiginlegum markaði ESB jákvæð áhrif á undirbúning og aðlögun að samkeppni á alþjóðamörkuðum. Viðskipti eru að öðru jöfnu auðveldari innan svæða sem lúta sömu reglum en milli svæða þar sem reglur eru ekki þær sömu. Þau öðlast reynslu og þekkingu í því að takast á við aukna samkeppni. Fyrirtækin eru því betur í stakk búin að hasla sér völl utan sambandsins og selja vöru sína og þjónustu á fjarlægum mörkuðum.

Í öðru lagi veitir aðild að Evrópusambandinu aðgengi að fjölda viðskiptasamninga og fríverslunarsamninga við ríki utan sambandsins. ESB er í miklu betri samningsstöðu en einstök ríki sambandsins að ná góðum viðskiptasamningum. Þannig hefur sambandinu bæði tekist að bæta kjör neytenda og möguleika fyrirtækja að sækja á ný mið.

Í þriðja lagi öðlast aðildarríki aukið traust og trúverðurleika með þátttöku í ESB þar sem sömu lög og reglur gilda um öll viðskipti. Ríki utan sambandsins vita að hverju þau ganga og eru mun líklegri til að þekkja þann lagaramma sem þeim ber að starfa eftir innan ríkja sambandsins en í ríkjum Evrópu sem standa utan ESB.

Í fjórða lagi gefst ríkjum ESB kostur á því að taka upp Evru eða tengja gjaldmiðill sinn við hana sem hefur í för með sér stöðugra gengi, lægri vexti, bætt viðskiptakjör og aukin viðskipti við ríki innan sem utan sambandsins.

[pullquote]Ef Ísland gengur í ESB munu öll viðskipti og atvinnustarfsemi lúta sömu reglum og tíðkast á 500 milljóna manna markaði[/pullquote]Loks má ekki gleyma því að ef Ísland gengur í ESB munu öll viðskipti og atvinnustarfsemi lúta sömu reglum og tíðkast á 500 milljóna manna markaði. Það mun gera Ísland að vænlegri stað fyrir erlenda fjárfesta. Þá er hægt að einbeita sér að því að kynna kosti landsins og sérstöðu sem veitir samkeppnislegt forskot.

Þetta svar og fjölmörg önnur er að finna á vefsvæðinu kannski.is sem er upplýsingaveita um umsókn Íslands að ESB. Markmið vefsins er að auðvelda fólki að taka upplýsta afstöðu til aðildar og er lögð áhersla á að vefurinn sé óháður og hlutlaus vettvangur til að miðla upplýsingum um kosti og galla aðildar. Öllum er frjálst að senda inn spurningar á  www.kannski.is.