Auðlindir ESB ríkja eru eign ríkjanna sjálfra og lúta reglum sem þau setja sjálf. Á þessu leikur enginn vafi.

Ef við göngum í Evrópusambandið munum við sjálf ráða nýtingu á vatni, jarðvarma, námum og öðrum náttúruauðlindum, líka á olíu ef hún finnst.

Fiskurinn í sjónum umhverfis Ísland er ein mikilvægasta auðlind okkar Íslendinga. ESB hefur sett sér sameiginlega sjávarútvegsstefnu til að stýra nýtingu á fiskistofnum aðildarríkjanna.

Við munum semja við ESB um hvernig verði tryggt að við Íslendingar njótum afraksturs og arðs af fiskimiðum okkar.

Í ljósi núgildandi reglna og fyrirhugaðra breytinga á sjávarútvegsstefnu ESB er engin ástæða til að ætla annað en að við náum samningi sem tryggir hagsmuni okkar til frambúðar.

Niðurstaðan í sjávarútvegsmálum skiptir miklu um heildarniðurstöðuna. Það vita báðir samningsaðilar mæta vel.