Föstudaginn 29. janúar opnar félagið STERKARA ÍSLAND – þjóð meðal þjóða, formlega þennan vef. Vefurinn er vettvangur fyrir skoðana- og upplýsingaskipti þeirra sem vilja vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar verður fjallað um öll málefni sem tengjast aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Með vefnum og samskiptum þar getur fólk hvaðan sem er af landinu verið virkt í starfinu.

Af þessu tilefni verður opið hús á skrifstofu félagsins í Skipholti 50a, 2. hæð, í Reykjavík milli klukkan 17 og 19.

STERKARA ÍSLAND – þjóð meðal þjóða er félagsskapur fólks sem vill vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu með því að stuðla að hagstæðum aðildarsamningi og upplýstri umræðu um aðildina. Félagið er öllum opið sem styðja þessi markmið.

Félagsskapurinn á rætur að rekja til áskorunar sem sett var fram á vordögum 2009 undir kjörorðinu VIÐ ERUM SAMMÁLA. Þar voru íslensk stjórnvöld hvött til að sækja um aðild að Evrópusambandinu strax að loknum Alþingiskosningum. Um 15.000 manns rituðu undir þessa áskorun á vefsíðunni sammala.is en sem kunnugt er sótti Ísland um aðild að sambandinu skömmu síðar. Kjarni þess hóps sem stóð að baki sammala.is hefur nú stofnað STERKARA ÍSLAND – þjóð meðal þjóða.

Stofnfélagar eru orðnir rúmlega eitt hundrað, en stofnfélagaskrá verður opin fram til 1. febrúar nk.

„Við eigum það öll sammerkt að vera þeirrar skoðunar að Ísland eigi að taka þátt í samfélagi þjóða innan ESB. Það geri Ísland sterkara og framtíð þess farsælli. Rökin fyrir því eru eins mismunandi og við erum mörg. Þar talar hver fyrir sig,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, einn úr þeim stóra hópi sem hefur komið að undirbúningi STERKARA ÍSLANDS.