Ísland í Evrópu

 

 

Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er hafin fyrir alvöru. Við höfum verið aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá því 1994 og njótum þegar margra þeirra kosta sem felast í aðild en um leið höfum við kynnst ókostum þess að vera ekki fullgildir þátttakendur í Evrópusamstarfinu. Innan fárra missera gefst okkur kostur á að greiða atkvæði um aðildarsamning. Niðurstaðan mun annars vegar ráðast af því hvað í þeim samningi stendur og hins vegar því hversu vel þjóðin er að sér um Evrópusambandið, eðli þess, markmið og starfshætti.

Eitt af höfuðmarkmiðum ESB hefur frá upphafi verið að tryggja frið í álfunni eftir hinn mannskæða harmleik síðari heimsstyrjaldarinnar. Jafnframt hefur verið lögð mikil áhersla á að skapa öflugt atvinnulíf, standa vörð um jafnrétti og velferð og auka efnahagslegan stöðugleika Evrópuríkja. Á síðustu áratugum hafa neikvæð áhrif hnattvæðingar og aðkallandi verkefni í umhverfismálum ýtt undir enn frekara samstarf enda í mörgum tilvikum um að ræða viðfangsefni sem eru einstökum þjóðum ofviða.

Við Íslendingar erum og verðum Evrópuþjóð. Meðal grunngilda Evrópusambandsins eru friður, frelsi, mannréttindi, jafnrétti og umhverfisvernd. Flest þessara gilda þykir okkur Íslendingum svo sjálfsögð að ekki þurfi að hafa af þeim neinar áhyggjur. Með fullri aðild að ESB lýstum við yfir vilja okkar til að taka þátt í því að vernda þessi gildi, ekki bara hér á landi heldur í Evrópu allri og jafnframt sem fulltrúar álfunnar á alþjóðavettvangi.

Dýrkeypt reynsla okkar Íslendinga undanfarin ár hefur afhjúpað veikleika þess að standa utan Evrópusambandsins og Evrópska myntbandalagsins. Hrun krónunnar varð til þess að stór hluti íslenskra fjölskyldna er í skuldafjötrum. Ungt fólk sem vill koma sér þaki yfir höfuðið horfir fram á að borga margfalda vexti á við jafnaldra sína í nágrannalöndunum. Hrikalegt gjaldþrot íslensku bankanna og margháttaðar afleiðingar þess valda því að þjóðin hefur glatað því trausti sem hún naut á alþjóðavettvangi. Við verðum endurvinna þetta traust. Aðild að ESB er yfirlýsing um að Íslendingar ætli að temja sér þann aga sem þarf til þess að missa ekki tök á hagstjórninni enn á ný, að við viljum vera þjóð meðal þjóða.

Nokkrar góðar ástæður fyrir því að segja já við aðild Íslands að Evrópusambandinu:

Já fyrir efnahag Íslands

Já fyrir landsbyggðina

Já fyrir jafnrétti kynjanna

Já fyrir heimilin

Já fyrir fyrirtækin

Já fyrir landbúnað og sjávarútveg

Já fyrir lýðræðið og fullveldið

Já fyrir menningu og listir

Já fyrir námsmenn

Já fyrir umhverfið

Taktu þátt í umræðunni

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er og verður umdeilt mál og ekki er ólíklegt að umræðan verði tilfinningaþrungin og einkennist af upphrópunum. Staðreyndin er þó sú að enginn getur vitað með vissu fyrirfram hvaða áhrif það hefur að ganga inn í sambandið eða standa utan þess. Mikilvægt er að Íslendingar geti rætt þetta mál með opnum huga og metið kosti og galla fullrar aðildar með heildarhagsmuni komandi kynslóða í huga, í stað þess að einblína á tímabundna sérhagsmuni.

Við í Já Íslandi teljum að fullveldi og framtíð þjóðarinnar sé best borgið með virkri þátttöku í samstarfi 27 annarra Evrópuþjóða. Taktu þátt í umræðunni með okkur.