Umhverfis- og auðlindamál

Evrópusambandið er í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðlegum vettvangi. Það gengur lengst iðnríkja í áætlunum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og hefur forystu í heiminum í áætlunum um notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Unnið er að endurskoðun á sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB til að tryggja sjálfbæra nýtingu. Ísland getur haft jákvæð áhrif á þá endurskoðun sem fullgild aðildarþjóð ESB.

Umhverfismál hafa sameinað ríki Evrópu og með sameiginlegum aðgerðum hefur náðst umtalsverður árangur, m.a. í loftslagsmálum, þökk sé styrk ESB á alþjóðavettvangi. Aukin nýting endurnýjanlegra orkuauðlinda og samdráttur í brennslu jarðefnaeldsneyta er eitt af meginatriðunum loftslagsstefnu sambandsins en þær áherslur samræmast vel íslenskum hagsmunum. Sjóðir innan ESB styðja við umhverfis- og náttúruvernd í sveitum og dreifðum byggðum. Einnig hefur ESB haft forustu um að tryggja þróunarríkjum aðstoð við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Sambandið beitir sér sérstaklega fyrir rétti almennings til þátttöku í ákvörðunum í umhverfismálum, aðgengi almennings að upplýsingum um umhverfismál og að réttarúrræðum í umhverfismálum.

Auðlindir hvers ríkis innan ESB eru á forræði þess sjálfs. Gildir einu hvort um er að ræða námur, vatn, olíu, jarðvarma eða hvað annað sem telst til náttúruauðlinda. Sama mun gilda um Ísland verði það aðili að ESB.
Eina auðlindin sem ESB hefur sett sér sameiginlega nýtingarstefnu um er fiskveiði í lögsögu aðildarríkjanna. Þegar rétturinn til veiða er skoðaður blasir við að Íslendingar fengju einir að stunda veiðar í íslenskri lögsögu vegna grundvallarreglu ESB um sögulega veiðireynslu. Sambandið viðurkennir ekki sögulegan veiðirétt fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur og þess vegna sætu Íslendingar einir að staðbundnum stofnum á Íslandsmiðum.

Samningar um sjávarútveg

Samningar liggja fyrir um skiptingu deilistofna fyrir kvótabundnar tegundir sem við nýtum sameiginlega með þjóðum ESB og þeir samningar yrðu lagðir til grundvallar við aðild. Makrílstofninn er undantekning en um hann verður trúlega
samið á næstunni. Þjóð með eins ríka hagsmuni í sjávarútvegi og Ísland hefur aldrei sótt um aðild að ESB.  Samninganefnd okkar mun leggja ríkja áherslu á að ná fram í aðildarsamningi sérákvæðum sem tryggja óbreytt ákvarðanatökuvald á Íslandsmiðum til frambúðar. Þar skiptir miklu að íslenska fiskveiðilögsagan er eins einangruð frá lögsögu annara ESB ríkja og hugsast getur.

Framtíðarstefna ESB á vettvangi umhverfis- og auðlindamála munu hafa áhrif hér á landi í náinni framtíð. Við höfum þegar tekið upp mikinn hluta af þeim lögum sambandsins sem varða umhverfismál í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og munum gera það áfram, án þess að hafa nokkur áhrif þar á. Á næstu árum verða væntanlega gerðar grundvallarbreytingar á fiskveiðistefnu ESB, enda eru flestir sammála um að hún hafi ekki þjónað þeim tilgang að vernda fiskistofna og auka hagræðingu við veiðar. Með aðild hefðum við tækifæri til að hafa áhrif á þessum vettvangi og miðla af reynslu okkar sem öflugasta fiskveiðiþjóðin innan ESB.