Jafnrétti og velferð

Jafnrétti og velferð hafa orðið sífellt mikilvægari þættir í stefnu Evrópusambandsins, allt frá því að ákvæði um sömu laun karla og kvenna fyrir samskonar vinnu voru sett í Rómarsáttmálann árið 1957.  Eftir inngöngu Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands hafa þessi mál og þau lífsgildi sem einkenna samfélög okkar Norðurlandaþjóðanna átt sér enn öflugri málsvara á vettvangi ESB en áður. Til grundvallar liggja hugsjónir um réttlátt og fjölskylduvænt samfélag þar sem réttindi almennings og minnihlutahópa eru virt.

Mörg stór framfaraskref sem tekin hafa verið í löggjöf á vettvangi félagsmála hér á landi má rekja til aðildar okkar Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er engin tilviljun að samtök launafólks hér á landi hafa talað fyrir Evrópusambandsaðild. En betur má ef duga skal. Íslensk heimili hafa gengið í gegnum eldraun undanfarin misseri. Hér varð tvöfalt hrun, bankakerfis og gjaldmiðils. Síðan íslenska krónan hrundi hefur kaupmáttur dregist verulega saman, verð á innfluttum vörum hefur hækkað mikið og fjöldi heimila er í skuldafjötrum. 

Aðild að ESB og upptaka evrunnar mun að öllum líkindum lækka bæði vexti og matvælaverð hér á landi verulega. Stökkbreytingar á skuldum heimilanna vegna falls krónunnar yrðu úr sögunni og einstaklingar gætu gert raunhæfar fjárhagsáætlanir fyrir heimilsreksturinn. Með lægri vöxtum og minni sveiflum á verðlagi fengju heimilin í raun aukinn kaupmátt.

Jöfn tækifæri

Jafnrétti kynjanna er eitt af grunngildum ESB. Meðal markmiða þess er að vinna að jöfnum tækifærum kvenna og karla á vinnumarkaði. Allar tillögur að nýrri löggjöf ESB fara í jafnréttismat áður en þær eru lagðar fram. Þá leggur sambandið mikla áherslu á baráttuna gegn mansali en það er gott dæmi um málefni sem ekki verður leyst öðruvísi en með samstarfi margra ríkja.

Við Íslendingar stöndum framarlega í jafnréttismálum á alþjóðavísu en okkar bíða þó enn mörg óleyst verkefni á sviði vinnuréttar, jafnréttis og velferðarmála.  ESB er góður bandamaður á þeirri vegferð. Við Íslendingar eigum að láta til okkar taka á þeim vettvangi og leggja okkar að mörkum við að móta Evrópu framtíðarinnar.