Friður og fullveldi

Eitt höfuðmarkmið Evrópsambandsins er að tryggja frið í álfunni og velferð borgaranna. Til þess er m.a. lögð áhersla á að styrkja efnahag hinna fátækari svæða og landa. Íslendingar eru í hópi ríkustu þjóða. Við getum lagt okkar af mörkum en okkur ber einnig að nýta fullveldi Íslands þjóðinni til framdráttar og láta rödd okkar heyrast á þeim vettvangi þar sem fjallað er um þau málefni er varða framtíðina mestu.

ESB er grundvallað á virðingu fyrir mannlegri reisn, frelsi,  jafnrétti, lögum og mannréttindum, þar með talið réttindum minnihlutahópa. Þessi gildi eru ekki bara sameiginleg aðildarríkjunum heldur í samræmi við þá ríku lýðræðishefð sem þróast hefur í Evrópu á undanförnum öldum og er meðal annars grundvöllur íslensks samfélags. 

Þau rök heyrast stundum að aðild að ESB jafngildi afsali fullveldisins. Staðreyndin er sú að fullveldi þjóðar  takmarkast af margvíslegum þáttum, svo sem fullveldi annarra þjóða, efnahagslegum þáttum, viðskiptalegum hagsmunum, alþjóðasamningum á margvíslegum sviðum og margvíslegu svæðisbundnu samstarfi og alþjóðasamstarfi. Í þessu samhengi er augljóst að fullveldi merkir ekki og geta ætíð gert það sem manni sýnist. Raunverulegt fullveldi fæst með því að deila því með öðrum þjóðum til að ná sameiginlegum markmiðum.

Öflug byggðastefna

ESB leggur mikla áherslu á byggðaþróun og markvissa aðstoð við að byggja upp atvinnulíf og skapa ný tækifæri í dreifðari byggðum sambandsins. Það mun gagnast íslenskum byggðum. Aðhald og festa eykst í íslenskri byggðastefnu og gerir hana markvissari. Með Lissabonsáttmálanum fær rödd sveitarstjórna aukið vægi og nálægðarreglan er tryggð í sessi. Samstarf íslenskra sveitarfélaga  við sveitarfélög í Evrópu mun aukast og það skilar sér í aukinni þekkingu og vandaðri vinnubrögðum. Strjálbýl svæði norðarlega í álfunni njóta sérstaks forgangs með greiðari aðgangi að byggða- og uppbyggingarsjóðum ESB.