Virk þátttaka

Það er lýðræðislegur réttur allra einstaklinga að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem varða líf þeirra og framtíð. Mörg flókin og stór viðfangsefni samtíðarinnar verða aðeins leyst á sameiginlegum samstarfsvettvangi ólíkra þjóða.

Evrópusambandið er samstarfsvettvangur 27 sjálfstæðra Evrópuríkja. Einn aðalkosturinn við ESB er samræming laga og reglna á ýmsum sviðum. Hún leggur meðal annars grunn að frjálsum og opnum markaði. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tryggir okkur Íslendingum margskonar ávinning af þessu samstarfi en við höfum engin áhrif á þróun þess. Við erum skuldbundin til að laga okkur að margháttuðum ákvörðunum ESB án þess að hafa nokkuð um þær að segja. Með aðild yrðum við virkir þátttakendur í mótun pólitískrar og félagslegrar framtíðar Evrópu.

Á Evrópuþinginu sitja nú rúmlega 700 þingmenn. Enginn þeirra kemur frá Íslandi. Við inngöngu fengju Íslendingar 6 fulltrúa á þinginu eða um 1% þingmanna. Hér á landi stæðu rúmlega 50 þúsund manns bakvið hvern þingmann á Evrópuþinginu en í Svíþjóð stendur tæplega hálf milljón manna að baki hverjum Evrópuþingmanni og tæplega milljón í Þýskalandi. Íslendingar fengju fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB og sæti í ráðherraráði þess.

Aukum áhrif okkar

Með inngöngu í ESB hefðu Íslendingar beina aðkomu að setningu fjölmargra laga og reglugerða sem munu hafa áhrif hér á landi um langa framtíð. Innan Evrópusambandsins hafa fulltrúar smáþjóða mjög víða mikil áhrif enda hafa þeir ítrekað gegnt ýmsum mikilvægustu embættum þess. Við inngöngu yrðu Íslendingar helsta fiskveiðiþjóð ESB og við eigum að ætla okkur stórt hlutverk við þróun sjávarútvegsstefnu þess.

Við fögnum aðildarumsókn Íslands í ESB og lítum á hana sem áfanga í að rétta af þann lýðræðishalla sem falist hefur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Sá samningur hefur haft í för með sér margháttaðar framfarir fyrir íslenskt samfélag en það má ekki dragast lengur að við gerumst beinir aðilar í Evrópusamstarfinu og öxlum þá lýðræðislegu ábyrgð og skyldur sem því fylgir.