Öflugt atvinnulíf

Eitt af markmiðum Evrópusambandsins er að byggja upp fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf í aðildarlöndunum, þar sem sjálfbærni og félagslegt réttlæti eru lögð til grundvallar.  Lögð er áhersla á frjáls viðskipti á innri markaði ESB, menntun, nýsköpun og rannsóknir, sem og stuðning við þróunarríki. Innganga ESB hefur hleypt auknu lífi í milliríkjaviðskipti í nýjum aðildarlöndum og aukið erlendar fjárfestingar. Sameiginleg mynt og samræmd peningamálastefna hefur það markmið að auka stöðugleika á Evrusvæðinu og jafna aðstæður milli einstakra landa, óháð stærð þeirra og efnahag.  

Um langt skeið hefur íslenska krónan ógnað efnahagslegu sjálfstæði okkar sem hér búum. Opið hagkerfi með lítinn gjaldmiðil er auðveldur skotspónn erlendra og innlendra spákaupmanna. Á árunum fyrir hrun var krónan lengst af of hátt skráð. Hún vann gegn hagsmunum útflutningsgreina sem veiktust og söfnuðu skuldum. Nú er krónan svo lágt skráð að ungt fólk á erfitt með að sækja nám erlendis og innfluttar vörur hafa hækkað mikið í verði frá því sem áður var. Ferðalög til útlanda eru orðin forréttindi þeirra efnameiri. Laun á Íslandi eru ekki lengur samkeppnishæf við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.

Stöðugt efnahagsumhverfi og trú viðskiptalanda á Íslandi eru forsendur þess að þjóðin geti byggt upp fjölbreytt atvinnulíf sem er fært um að selja verðmætar vörur og þjónustu úr landi. Á næstu árum þarf að skapa að jafnaði þrjú þúsund ný störf árlega fyrir þær kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi. Ljóst er að þessi störf verða ekki til í sjávarútvegi eða landbúnaði, enda þótt afnám tolla milli Íslands og ESB-ríkja á landbúnaðar- og sjávarafurðum geti skapað þessum atvinnugreinum aukin tækifæri til útflutnings og fullvinnslu.  

Sveiflur í íslensku efnhagslífi  á undanförnum áratugum hafa gert það að verkum að öll áætlunargerð hefur nánast verið marklaus. Mikilvægt er að breyting verði hér á. Með upptöku evru í stað krónu verður rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja stöðugra en áður og ólíklegra verður að efnahagssamdráttur leiði til gjaldeyriskreppu, verðbólgu og himinhárra vaxta, eins og raunin hefur orðið hvað eftir annað í fortíðinni.

Horft til framtíðar

Í sérhverju hagkerfi eru rannsóknir og þróun mikilvægir málaflokkar. ESB hefur á undanförnum árum varið vaxandi hlutfalli þjóðarframleiðslu landanna í rannsóknir og þróun. Sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu hafa Íslendingar haft aðgang að rannsókna- og menntaáætlunum ESB en engin áhrif á mótun þeirra. Með fullri aðild verður gagnger breytingar þar á. Þátttaka á þessum vettvangi er lykill að því að efla nýsköpun hér á landi og skapa störf sem samræmast þeirri menntun sem yngri kynslóðir Íslendinga  eru að afla sér.

Evrópusambandið er langmikilvægasta markaðssvæðið fyrir útflutning á vörum og þjónustu frá Íslandi. Hvort sem okkar líkar betur eða verr er íslenskt atvinnulíf háð þeirri þróun sem á sér stað innan ESB. Ef við höfum huga á að taka þátt í þeirri þróun, styrkja rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja og auka stöðugleika í íslensku efnahagslífi er aðildin að ESB rökréttur valkostur.