Þýðir ekki að byggja dreifbýlisstefnu á matvælaframleiðslu 04.07.12

 

“Það þýðir ekki lengur að byggja upp dreifbýlisstefnu á matvælaframleiðslu,” segir dr. Björn Sigurbjörnsson, erfðafræðingur og fyrrverandi  forstjóri hjá Matvæla-  og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna og ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu í samtali um íslenskan landbúnað og Evrópusambandið.

Hann segist vera hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu, en því aðeins að góðir samningar náist í viðræðunum sem nú standa yfir.

“Ég vil ekki ganga inn í Evrópusambandið nema við fáum góðan samning sem tryggir okkur óbreytt eða betri lífskjör,” segir Björn, “en ég ber mikið traust til samningamannanna, Stefáns Hauks Jóhannessonar og Sigurgeirs Þorgeirssonar, fyrir hönd landbúnaðarins. Ég treysti Sigurgeiri vel fyrir því að sjá til þess að okkar landbúnaði verði ekki refsað fyrir það að við búum við mesta dreifbýli í Evrópu og erfiðustu veðráttuna.

Ég hef enga trú á að ESB hafi hag af því að eyðileggja lífsafkomu okkar með einhverjum afarkostum gagnvart okkar grundvallarhagsmunamálum. Evrópusambandið hefur aldrei séð sér neinn hag í því að ógna grundvallarhagsmunum þjóða í aðildarsamningum.

Ef ESB gerir það endar það með því að sambandið þarf að greiða með þessum þjóðum, samanber það sem hefur gerst í Grikklandi. Grikkir voru ekki látnir róa heldur tóku ríki ESB á sig miklar skuldbindingar þeirra vegna. Það eru fleiri þjóðir Evrópu í vandræðum; Ítalir, Portúgalar og Spánverjar en aldrei hefur verið rætt um að ESB sleppi af þeim takinu. Sambandið er bakhjarl í þeirra erfiðleikum.

Við erum Evrópumenn

Björn segir að Íslendingar þurfi að gera upp við sig með hvaða þjóðasamtökum eða einstaka þjóðum þeir vilji starfa og horfa í til lengri tíma. “Þjóðir þyrpast í samtök og samstarf og við þurfum að svara því með hverjum við viljum helst starfa óháð því hvernig aðildarviðræðum reiðir af að þessu sinni.”

Erfitt sé að taka mark á hugmyndum um samstarf við Kanadamenn, Rússa og jafnvel Kínverja en versta kostinn telur hann  vera að  að halla sér að Norðmönnum. “Þeir hafa aldrei gert neitt fyrir okkur,” segir Björn.

Um Kanada, þar sem hann þekkir vel til eftir fimm ára búsetu, segist hann aldrei hafa skynjað mikinn áhuga þaðan á Íslandi. Reynsla Nýfundnalands bendi ekki til þess að Íslendingar geti vænst góðra kjara hjá Kanadamönnum. Nýfundnaland var sjálfstætt ríki sem átti gjöfulustu þorskveiðimið heimsins en varð gjaldþrota, afsalaði sér sjálfstæði og varð hluti af Kanada árið 1949 eftir að þorskstofninn hrundi.

Svæðið hefur aldrei náð sér aftur á strik, segir Björn, enda fékk það engan stuðning frá alríkisstjórninni í Kanada til þess að byggja sig upp á forsendum eigin styrks og sérstöðu.

Hann telur þess vegna að samstarf við Evrópusambandið sé raunhæfasti kosturinn og í samræmi við þá hefð að Íslendingar séu þátttakendur í samstarfi vestrænna þjóða.  Auk þess sé óvíst um framtíð EES-samningsins.

Ég er hræddur um að ef við göngum ekki í Evrópusambandið muni Evrópska efnahagssvæðið flosna upp,” segir Björn. “Evrópusambandið muni gera sérstakan samning við Norðmenn en ég efast um að þeir telji það borga sig að halda úti þessu mikla batteríi fyrir smáríki eins og Ísland og Lichtenstein.”

“Við erum Evrópumenn og ég skil ekki þessa umræðu um að tengjast öðrum þjóðum en þeim sem eru í ESB – en mér finnst hins vegar engin ástæða til þess að ganga inn í Evrópusambandið nema við  náum góðum samningi sem verndar okkar hagsmuni og tryggir okkur óbreytt eða betri kjör.”

Björn var yfirmaður hjá tveimur alþjóðastofnunum S.Þ. um langt árabil og nálgast umræðuna um alþjóðamál meðal annars með reynslu sína af þátttöku í alþjóðasamskiptum og viðræðum á vegum landbúnaðarráðuneytisins tengdum  alþjóðaviðskiptum og tollamálum innan Alþjóðaviðskiptastofnununnar, WTO í farteskinu. Eins og kunnugt er hafa tilraunir til þess að ná slíkum samningum um alþjóðaviðskipti staðið yfir um langt árabil.

Hann segir að það sem valdi því að ekki hefur náðst samkomulag um alþjóðaviðskipti innan WTO sé að tvær blokkir þjóða hafi andstæða sýn á það hversu mikið sé leyfilegt að styðja við landbúnað.  Bandaríkin, Kanada, Brasilía, Ástralía og fleiri þjóðir sem flytja út búvörur, leggja áherslu á að aflétta styrkjum og tollvernd. Hinumegin við borðið eru Íslendingar og fleiri þjóðir  sem leggja áherslu á að landbúnaður er fjölbreyttur atvinnuvegur þeirra sem búa í dreifbýli og vilja svigrúm til þess að styðja við eigin landbúnað og búsetu í dreifbýli. Forystuaflið í þeim hópi þjóða er Evrópusambandið.

Stöndum vel að vígi

“Við stöndum vel að vígi gagnvart Evrópusambandinu hvað varðar stuðning við landbúnað og dreifbýli. Meginsjónarmiðin þar eru þau sömu og hjá okkur. Ísland er dreifbýlasta ríki álfunnar, langt frá erlendum mörkuðum og við þurfum að flytja öll okkar aðföng og allan okkar útflutning langar leiðir með skipum og flugvélum.  Veðráttan hér er erfiðari en annars staðar í Evrópu. Við búum við erfið skilyrði til ræktunar þeirra nytjajurta sem þurfa að þroska fræ . Vegna þess er erfitt að rækta kornfóður en gott að rækta gras á Íslandi. Vegna hinna löngu sumardaga á Íslandi, er nánast jafngott að rækta hér næringarmikið gras og sunnar í álfunni, því að birtan bætir upp lágan hita á sumrin”.

“Styrkjakerfi ESB byggist upp á að styðja við búsetu og fjölbreytta starfsemi í dreifbýli fremur en framleiðslumagn í landbúnaði.   ESB breytti stefnu sinni, hætti að styrkja framleiðsluna og fór að styðja við fólk sem vill búa utan við þéttbýliskjarna. Sambandið leggur höfuðáherslu á eflingu og velferð dreifbýlis í ríkjum sambandsins og tekur það markmið fram yfir stuðning við framleiðslumagn í einstökum  búgreinum. Þetta kom fyrst fram í þróun blómlegra byggða í Alpafjöllunum og öðrum fjallabyggðum á ESB-svæðinu, þar sem skilyrði til búvöruframleiðslu eru fremur bágborin.”

“Í stað framleiðslutengdra styrkja, eins og  hérlendis, er lögð áhersla á að efla búsetu í dreifbýli, vernda  umhverfi í sveitum, styðja við aðgæslu og vandvirkni í notkun áburðar og eiturefna. Þá er áhersla lögð á ræktun skóglendis, verndun votlendis, bætta meðferð búfjár og velferð þess. Mikil áhersla er lögð á menningarstarfsemi til sveita og eflingu félagslífs og upplýsingatækni, nýtingu endurnýjanlegrar orku og stuðning við nýliðun í landbúnaði.

Áhersla á byggðasjónarmið og mannlíf í dreifbýli hefur leitt til þess að ESB hefur lagt niður framleiðslutengdu styrkina til landbúnaðar, Mér sýnist á þessu að ESB vilji stuðla að því að land sé í byggð óháð því hvort þar er framleidd búvara og íbúar í dreifbýli geti stundað hvers konar aðra atvinnu sem hægt er að lifa á, s.s. ferðamennsku, úrvinnslu hráefna, heimilisiðnað og sölu varnings frá býli o.fl.

Ýmis sérákvæði gætu komið íslenskum landbúnaði til góða. Svæði norðan sextugustu og annarrar breiddargráðu eru skilgreind sem harðbýl svæði og því er Finnum og Svíum heimilt að styrkja búskap á slíkum landssvæðum sérstaklega.  Ísland allt er norðan sextugustu og annarrar breiddargráðu. Þá eru önnur svæði styrkt sérstaklega sem liggja langt frá innri mörkuðum Evrópu eða búa við erfið náttúruleg skilyrði til búskapar. Dæmi um þau eru Azoreyjar. Þannig má koma í veg fyrir að erfið búskaparskilyrði minnki samkeppnishæfni og raski búsetu í dreifbýli. Ísland er jafnvel verr sett en Azoreyjar í þessu tilliti. Stuðningskerfi ESB virðist því vel henta íslenskum búskaparháttum, samhliða verndun náttúrunnar.

Þar sem eitt aðaleinkenni samstarfs ESB-ríkjanna er frjáls verslun á innri mörkuðum þeirra, myndi tollvernd búvara falla niður hér sem gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir sumar búgreinar. “

Tollamúr handa einum kalkúnabónda

Gagnvart einstökum búgreinum horfa málin svona við komi til inngöngu í Evrópusambandið, að mati Björns:

“Mér sýnist að innganga Íslands í ESB gæti leitt til þess að sauðfjárrækt og nautgriparækt, ásamt ferðaþjónustu, skógrækt, ræktun ýmissa garðávaxta og ýmisleg önnur starfsemi, gætu haldið áfram að dafna og skapa þeim sem þessar greinar stunda viðunandi framfærslu. Á hinn bóginn gæti aðild leitt til þess að okkar eini kalkúnabóndi, okkar fáu svínabændur og  kjúklinga- og eggjaframleiðendur gætu lent í erfiðri samkeppni þar sem framleiðsla þeirra, a.m.k. enn sem komið er, byggist að mestu á innflutningi fóðurs sem ræktað er á erlendu akurlendi.

Ég hef minni áhyggjur af sauðfjárbændum en auðvitað verða þeir eins og aðrir bændur að hagræða hvort sem við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Það þýðir ekki að hugsa málin þannig að fólk geti verið með 2-300 kindur og lifað af því einu,” segir hann. “Ég er ekki að segja að meðalbúið eigi að hafa 1000 ær enda erum við aðeins með um 450.000 vetrarfóðraðar ær í landinu núna, þannig að búin væru þá ekki nema um 450 talsins. En flestir sauðfjárbændur munu áfram þurfa að hafa aðgang að aukagetu eða aukabúgrein til að geta framfleytt sér.

Varðandi kúabú hefur vantað nægilega skýra stefnu hér á landi af hvaða stærð þau eiga að vera?  Það hafa orðið miklar breytingar vegna mjaltaþjóna og lausagöngufjósa. Það þarf miklu minna vinnuafl í kúabúskapnum en áður. Ef við værum hér með kúakyn, sem framleiddi álíka mikið og til dæmis Holstein kýr og 100 kýr í fjósi sem algengt er í Norður Evrópu, þyrfti ekki nema um 100 kúabændur til þess að anna allri innanlandsþörf fyrir mjólk. Þá er annaðhvort hægt að hafa einn kúabónda í hverjum dal eða firði eða fela bændum í fáeinum sveitum austan fjalls að sjá um að framleiða alla mjólk fyrir höfuðborgarsvæðið. Svo þyrfti kannski tíu kúabú á Norðurlandi og eitt á Vestfjörðum og líklega gæti Egilsstaðabúið eitt séð um framleiðsluna fyrir Austurland.” Mjaltaþjónar eru hálfgerð ógn við dreifbýlið!

Hvað varðar hvíta kjötið verður annað uppi á teningnum: “Ég veit ekki hvaða framtíð verksmiðjubúskapur á fyrir sér yfirleitt,” segir Björn. “Það eru komnar upp alls konar hreyfingar sem berjast á móti honum.  Þetta eru kjötverksmiðjur, sem framleiða nær allt kjöt úr innfluttu fóðri hér á landi. Það þarf að flytja inn tugi kílóa af fóðri fyrir hvert kíló af kjöti sem framleiðslan skilar.  Ég held að það sé betra að flytja inn kjöt en allt þetta fóður. Þar fyrir utan er þetta ekki dreifbýlisstarfsemi eins og sést á því að flest fyrirtækin í þessari framleiðslu eru staðsett í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Það er farið að votta fyrir áhuga hjá alifugla og svínabændum að nota og jafnvel rækta sjálfir kornið í dýrin og er sú þróun mjög jákvæð.

Niðurstaðan er sú  að það þýðir ekki lengur að byggja upp dreifbýlisstefnu á matvælaframleiðslunni einni og sér. Við getum ekki bara horft til skamms tíma, það þarf að horfast í augu við breytta tíma á komandi árum og miða stefnuna við það að styðja við fjölbreytta starfsemi og þjónustu í sveitum þannig að fólk eigi áfram val um það að búa utan við þéttbýliskjarna.“

Úr blaðinu Sveitin sem Sterkara Ísland gaf út í maí og fjallar um íslenskan landbúnað og Evrópusambandið.

Byggðastefna Evrópusambandsins: Tækifæri fyrir byggðalög 17.02.12

vally

Í grein dagsins fjallar Valborg Warén, stjórnmálafræðingur, um byggðastefnu Evrópusambandsins, hvernig hún virkar og hvernig hún kæmi sér fyrir íslenskar byggðir, gangi Ísland í Evrópusambandið. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan. Umræðan um Evrópusambandið hefur að miklu leyti snúist um áhrif inngöngu á landbúnaðinn, sjávarútveginn og stöðu fullveldis hér á landi. Hinsvegar…


- Lesa meira

Mun ESB-aðild verða banabiti íslensks landbúnaðar? 28.11.11

378744_10150413590749890_152804904889_8118722_1613635544_n

Þriðjudaginn 29. nóvember stendur Evrópuvakt Samfylkingarinnar fyrir hádegisfundi um Evrópusambandsaðild og íslenskan landbúnað. Frummælandi á fundinum er Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Fundurinn verður sem fyrr haldinn á Kaffi Sólon (efri hæð) í Bankastræti frá kl. 12.00 til 13.00 og er öllum opinn. Fundarmenn eru hvattir til að taka þátt og…


- Lesa meira

Smábátaeigendur vilja ganga í Evrópusambandið 14.09.11

fiskur

Stjórn Eldingar, félags smábátaeigenda við Ísafjarðardjúp vill ganga í Evrópusambandið.  Sigurður K. Hálfdánarson, formaður Eldingar, segist vonast eftir því að Evrópusambandið hafi betri skilning á málefnum landsbyggðarinnar en ríkisstjórn Íslands og Hafrannsóknarstofnun sem að hans sögn vinna gegn landsbyggðinni, og því sé hagi smábátaeigenda betur borgið inni í Evrópusambandinu. Stjórn Eldingar mun leggja fram tilllögu…


- Lesa meira

Sóknarfæri íslensks landbúnaðar og ESB aðild 05.03.11

Þröstur Haraldsson Sagði upp vegna samstarfsörðugleika við útgefandann

Þröstur Haraldsson, blaðamaður og fv. ritstjóri Bændablaðsins, skrifaði áhugaverða grein í Fréttablaðið um þau fjölmörgu tækifæri sem aðild að ESB hefði í för með sér fyrir íslenskan landbúnað. Hann gagnrýnir m.a. forystumenn bænda fyrir að forðast að ræða jákvæð áhrif aðildar og segir hana hafa tekið nánast trúarlega afstöðu í málinu.- Lesa meira

ESB og hagsmunir Eyjafjarðar 22.02.11

jon_thorvaldur_hreidarsson

Norðurland í ESB og hvaða gjaldmiðil ættu Norðlendingar að nota eru viðfangsefni þeirra Önnu Margrétar og Jóns Þorvaldar á fundi í Deiglunni á Akureyri.- Lesa meira

Aðild að ESB eflir nýsköpun og hinar dreifðu byggðir 04.02.11

Reykjavik

Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands í aðildarviðræðunum, telur hinar skapandi greinar atvinnulífsins muni njóta góðs að aðild Íslands að ESB. Þetta kom fram á kynningarfundi sem haldin var í utanríkisráðuneytinu með ýmsum fulltrúum hinna skapandi greina en þeir eru, meðal annars, listamenn og útgefendur.- Lesa meira

Hvað getum við lært af Finnum? 29.01.11

Inga Dís Richter

„Hvað getur Ísland lært af reynslu Finna í byggðaþróun innan ESB?“ er titill á fyrirlestri sem Inga Dís Richter, MA í alþjóðasamskiptum frá HÍ, styrkþegi úr styrktarsjóði AMS og SI í Evrópufræðum, heldur í Háskóla Íslands 4. febrúar kl. 12.00.- Lesa meira

Sjávarútvegsstefna ESB og aðildarumsókn Íslands 25.01.11

Reykjavik

Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur og verkefnastjóri hjá Matís á Vestfjörðum, telur að hægt sé að semja um sjávarútvegsmál við ESB, sem er forsenda inngöngu í sambandið. Ekki komi til greina að fórna hagkvæmum sjávarútveg þjóðarinnar á altari inngöngu, enda mikilvægi hans fyrir íslenskt hagkerfi óumdeilt.- Lesa meira