Ekki skyndilausn 09.12.11

Í Fréttatímanum í dag, þann 9. desember, birtist grein eftir Berg Ebba Benediktsson, lögfræðing, þar sem hann fjallar um tilgang ESB, að tryggja frið í Evrópu, sem og að tryggja efnahagslegt samræmæi og stöðugleika. Einnig fjallar Bergur Ebbi um valkosti Íslendinga í gjaldeyrismálum. Hér að neðan má lesa greinina í heild sinni.

Eftir fall krónunnar 2008 mældist mikill stuðningur við evrópusambandsaðild Íslands. Stór hluti fylgisins byggðist á lítt ígrunduðum hugmyndum um að við gætum kastað krónunni og tekið upp evruna og með því værum við laus við verðtryggingu, háa vexti og óstöðugleika í eitt skipti fyrir öll. Þessi skoðun heyrist enn, og vissulega er sannleikskorn í henni og að auki ástríðufullur neisti – með því að losa okkur við krónuna myndi hagstjórn landsins að stórum hluta færast úr höndum fyrrverandi pólitíkusa í Seðlabankanum og yfir til stofnana með meiri þekkingu á efnahagsmálum og skýrari langtímamarkmið. Það er eitthvað sem við getum vissulega stefnt að.

En afnám krónunnar er ekki nema lítill angi í þeirri vegferð að ganga í Evrópusambandið. Það myndi ekki einu sinni vera á dagskrá til að byrja með enda er myntbandalagið býsna róttækt samstarf sem við vitum ekki hvernig mun þróast næstu árin. Ég held að við ættum frekar að líta til grundvallarmarkmiða Evrópusambandsins og sjá hvar við Íslendingar stöndum varðandi gildin sem þar eru boðuð.

Það má segja að tilgangur ESB sé tvíþættur. Að tryggja frið í Evrópu og að tryggja efnahagslegt samræmi og stöðugleika. Fyrra markmiðið hefur náðst. Það hefur ríkt friður milli Evrópusambandsríkja og ýmis deilumál verið leyst á vettvangi Evrópusambandsins sem að öðrum kosti hefðu getað kostað milliríkjadeilur. Þetta þýðir samt ekki að markmiðið hafi náðst í eitt skipti fyrir öll, því fer fjarri, enda er varðveisla friðar sífelld áskorun allra aðildarríkja.

Það markmið að tryggja efnahagslegt samræmi og stöðugleika er einnig verkefni sem er í stöðugri þróun. Í upphafi lét ESB sér nægja að koma á svokölluðum innri markaði, og tók það áratugi, og oft var á brattann að sækja enda þurftu aðildaþjóðir að fórna eigin löggjöf fyrir samræmingar-tilskipanir. Það regluverk sem þurfti að fjúka setti efnahag sumra þessara ríkja  tímabundið úr skorðum. Þrátt fyrir þessar tímabundnu fórnir er efnahagslegur ávinningur innri markaðarins staðreynd að eins miklu leyti og hin huglæga hagfræði getur mælt það. Leiðin var löng, undanþágurnar og málamiðlanirnar margar, en innri markaður Evrópusambandsins er staðreynd sem jafnvel við Íslendingar erum löngu orðnir háðir með aðild okkar að EES. Það er allavega ekki hægt að mótmæla þeirri staðreynd að afnám innri markaðar ESB myndi valda efnahagslegum óstöðugleika í Evrópu um ófyrirséða framtíð, og hér er ég að stíga býsna varlega til jarðar.

Valkostir Íslendinga hvað varðar gjaldeyrismál eru margskonar ef við göngum í Evróusambandið. Við getum hinsvegar ekki viðhaldið gjaldeyrishöftum og einangrað landið eins og nú er gert. Með tíð og tíma – og ég leyfi mér að gera langtímaspár því ég er ungur maður – tel ég hins vegar nokkuð víst að þrátt fyrir skakkaföll undanfarinna ára muni alþjóðleg viðskipti og efnahagsleg samvinna halda áfram að aukast. Samstarf á borð við myntbandalag Evrópu, sem felur í sér nokkurskonar samtryggingu fyrir stórt hagkerfi, er framtíðin og Íslendingar munu ekki halda krónunni sinni. Að því leyti segi ég að ef við göngum ekki í Evrópusambandið þá verður hrun krónunnar 2008 því miður ekki það síðasta sem við upplifum.

Ég þoli ekki skyndilausnir. Ég vil að við hugsum langt fram í tímann. Þeir sem vilja ganga í Evrópusambandið nú til að bæta fyrir það sem gerðist á Íslandi 2002-2008 eru á villigötum. Það sem gerðist er búið og gert. Nú þurfum við að leita leiða til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig. Núna er tíminn til þess en ekki eftir tíu eða tuttugu ár. Grundvallarmarkmið Evrópusambandsins eru í samræmi við þá framtíð sem við óskum okkur enda lúta þau að friði og efnahagslegum stöðugleika. Þetta eru ekki æsispennandi markmið og þess vegna eru þau góð.

 

Njörður segir JÁ 22.08.11

njörður2

Ég styð aðild Íslands að Evrópusambandinu meðal annars vegna þess að við erum norræn evrópsk þjóð og eigum heima í samfélagi Evrópuþjóða sem starfa saman af gagnkvæmri virðingu. Evrópusambandið snýst ekki eingöngu um fjármál og myntbandalag. Til þess var stofnað af friðarhugsjón, til þess að binda enda á sundrungu og styrjaldir í álfunni.- Lesa meira

ESB fyrst og fremst bandalag friðar og frelsis 06.03.11

Uffe-Ellemann-Jensen

„Ég vona að vinir mínir á Íslandi taki umræðuna um sjálfstæði, og víkist ekki undan því, og reyni að sjá hvað skiptir máli; hvað tapast og hver ávinningurinn er,“ segir Uffe Ellemann-Jensen. „Kannski fæst meira út úr því að vera í samstarfi og gangast undir lög og reglur samstarfsins heldur en að standa fyrir utan og vera þá kanski einn og yfirgefinn þegar syrtir í álinn.“- Lesa meira

Er eitthvað á Evrópusambandinu að græða? 07.11.10

Benedikt Jóhannesson

Margir virðast vissir um að Evrópusambandið sé mjög nálægt Víti. Eini bærinn á milli sambandsins og eilífrar þjáningar sé Sovétríkin og það kot er löngu farið í eyði. Jafnframt sést það oft á prenti að fylgismenn inngöngu Íslands telji að þar með leysist öll vandamál Íslendinga. Þetta hef ég hins vegar ekki heyrt nokkurn Evrópusinna segja.- Lesa meira

Er ESB friðarbandalag eða hernaðarbandalag? 11.10.10

ESB friður

Anna Pála Sverrisdóttir lögfræðingur og Halla Gunnarsdóttir aðstoðarmaður dómsmálaráðherra svara spurningunni um hvort ESB sé stærsta friðarbandalagið eða hernaðarbandalag á fundi Evrópuvaktar Samfylkingarinnar.- Lesa meira

Herþjónusta Íslendinga í ESB? 10.09.10

herskylda

Ungir bændur óttast að börnin þeirra þurfi að ganga í einhvern Evrópuher. Um það birta þeir ógnvænlegar auglýsingar. Þórir Stephensen hrekur þennan málflutning í grein um málið.- Lesa meira

ESB: hernaðar- eða mannúðarsamband? 14.07.10

sema-erla-serdar

Ég get ómögulega skilið hvers vegna andstæðingar Evrópusambandsins og aðildar Íslands að því eyða öllu sínu púðri í hræðsluáróður sem á sér engar stoðir í veruleikanum, hræðsluáróður um hernaðarbandalag sem við nánari athugun virðist stjórnast af mannúðarsjónarmiðum eins og þróunaraðstoð og lýðræðisumbótum í heiminum, í stað þess að fjalla um þau málefni Evrópusambandsins sem í raun skipta okkur máli og eru sönn.- Lesa meira

Hvað varð um vestræna samvinnu? 07.07.10

Baldur Þórhallsson

„Þjóðir Evrópu hafa ákveðið að ESB gegni lykilhlutverki í að tryggja öryggi borgaranna með friðsamlegri samvinnu sín á milli án hernaðaruppbyggingar. Þannig hefur það orðið hlutskipti ESB að vera helsti vettvangur samvinnu Evrópuþjóða gegn ógnum samtímans eins og hryðjuverkum og umhverfisvá“ ritar Baldur Þórhallsson í Fréttablaðið.- Lesa meira

Til hamingju með Evrópudaginn 09.05.10

gudbjorn gudbjornsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, órólegur og sjálfstæður Evrópumaður, bloggar á Eyjunni í tilefni Evrópudagsins þann 9. maí. Þar segir hann m.a: Að mínu mati er nefnilega eitthvað til sem heitir að vera íbúi í Evrópu og það eru til samevrópsk einkenni.- Lesa meira