Vaxandi stuðningur við aðild 25.11.13
Stuðningur við aðild að Evrópusambandinu hefur vaxið undanfarin misseri. Það er þvert á boðskap ríkisstjórnarinnar sem telur aðild að ESB ekki til hagsbóta fyrir land og lýð.
Könnun Capacent Gallup fyrir Já Ísland var gerð dagana 7. – 19. nóvember 2013.
Spurt var: Ef aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) yrði borin undir þjóðaratkvæði í dag, hvernig telur þú líklegast að þú myndir greiða atkvæði?
Þeir sem segjast myndu örugglega eða sennilega greiða atkvæði með aðild eru tæp 42%, en þeir sem segjast örugglega eða sennilega greiða atkvæði á móti aðild eru rúm 58%. (Það eru 16% sem taka ekki afstöðu). Niðurstaðan sýnir að ekki er orðið ýkja langt á milli fylkinga.
Hitt er þó ekki síður merkilegt að ef niðurstöðurnar eru bornar saman við nákvæmlega sams konar könnun sem gerð var í maí 2013, sama mánuði og ný ríkisstjórn tók við völdum, eða fyrir sex mánuðum kemur í ljós að andstæðingum aðildar hefur fækkað um 10 prósentustig úr 68,4% og fylgjendum að sama skapi um 10 prósentustig úr 31,6% í 41,7%.
Þetta sýnir að ríkisstjórninni hefur ekki tekst að sannfæra landsmenn um að hún sé á réttri leið í Evrópumálum. Þvert á móti fjölgar þeim ört sem eru andvígir stefnu hennar. Þá liggur fyrir að talsverður meirihluti landsmanna vill að aðildarferlið verði klárað og samningur lagður í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn fleiri, eða rúm 80%, vilja að þjóðaratkvæði verði haldið um hvort halda skuli áfram með aðildarviðræður eða ekki, t.d. með næstu sveitarstjórnarkosningum. Ríkisstjórnin lætur þetta sem vind um eyru þjóta – það er ekki skynsamlegt.
Allt ber hér að sama brunni. Ríkisstjórin er að missa tökin í Evrópumálum og gengur alls ekki í takt við þjóðarvilja um framhald málsins.
Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Capacent Gallup er stuðningur við ríkisstjórnina 46,5%