Samþykktir

Samþykktir frá aðalfundi 2. september 2010

1.gr.
Félagið heitir: STERKARA ÍSLAND – þjóð meðal þjóða

2. gr.
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík

3. gr.
Tilgangur félagsins er að vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu með því að stuðla að hagstæðum aðildarsamningi og upplýstri umræðu um aðildina.

4. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að stuðla að fræðslu, kynningu, útgáfu, ráðstefnum og annarri þeirri starfsemi sem er til þess fallin að markmiðin náist.

5. gr.
Félagið er opið þeim sem vilja vinna að markmiðum félagsins. Stjórn samþykkir nýja félagsmenn og heldur skrá yfir félagsmenn. Stjórn félagsins leggur tillögu um félagsgjald fyrir félagsfund.

6. gr.
Félagsmenn geta stofnað með sér undirhópa. Slíkir hópar skulu starfa að sömu markmiðum og aðalfélagið. Önnur félög sem starfa að sömu meginmarkmiðum og STERKARA ÍSLAND geta óskað eftir aðild að félaginu. Stjórn þarf að samþykkja nýja undirhópa og aðild annarra sjálfstæðra félaga.

7. gr.
Stjórn félagsins er í höndum stjórnar og framkvæmdaráðs sem skal skipa til árs í senn á aðalfundi félagsins. Stjórnin skal skipuð a.m.k fimm mönnum. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi. Þá eru kosnir tveir meðstjórnendur og tveir varamenn. Sjálfstæð félög sem eiga aðild að félaginu og hafa fleiri en 50 félagsmenn skipa einn fulltrúa til setu í stjórninni og annan til vara. Framkvæmdaráð er skipað a.m.k. 30 fulltrúum sem kosnir eru á aðalfundi. Þá á stjórn félagsins sæti í framkvæmdaráði. Þá eiga allir undirhópar STERKARA ÍSLANDS rétt á að tilnefna fulltrúa í framkvæmdaráðið.

8. gr.
Formaður boðar fundi í stjórn og framkvæmdaráði eins oft og þurfa þykir. Fundi í framkvæmdaráði skal þó halda eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Framkvæmdaráð mótar stefnu og meginverkefni félagsins að fengnum tillögum stjórnar. Stjórnin fer með daglegan rekstur félagsins og sér um að framfylgja stefnu framkvæmdaráðs. Stjórnin getur ráðið framkvæmdastjóra að félaginu. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnarinnar.Engin laun eða þóknanir eru greidd fyrir setu í stjórn eða framkvæmdaráði félagsins.

9. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Stjórn félagsins heldur aðalfund einu sinni hvert almanaksár, eigi síðar en 1. október, og aðra fundi eftir því sem ástæða er til og skal til þeirra boðað með tryggilegum hætti. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi. Meirihluti atkvæða á fundi ræður úrslitum mála sé annað ekki tekið fram. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

10. gr.
Félagið þiggur fjárframlög og styrki frá einstaklingum, samtökum, stofnunum og fyrirtækjum er vilja veita markmiðum þess brautargengi, en þó aðeins ef þeim fylgja ekki sérstakar kvaðir um ráðstöfun eða nýtingu.

11. gr.
Öllum hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til að sinna tilgangi félagsins skv. 3. og 4. grein.

12. gr.
Ákvörðun um slit félags verður tekin á félagsfundi með einföldum meirihluta og renna hreinar eignir þess til góðgerðarfélaga skv. nánari ákvörðun stjórnar.

Lög þessi voru fyrst samþykkt á stofnfundi félagsins 17. október 2009, breytt á fundi 25. janúar 2010 og loks á fundi 2. september 2010 og öðlast þegar gildi.

Reykjavík, 2. september 2010