17. júní notum við til að gleðjast yfir því að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð. Vissulega er mikilvægt  að geta með sanni sagt að Ísland sé þjóð meðal þjóða sem getur átt samskipti við aðrar þjóðir á þeim grundvelli.

Sjálfstæði og fullveldi þýðir hins vegar ekki að þar með sé hægt að ráða eigin örlögum í einu og öllu – því fer fjærri. Þjóðir heimsins verða sífellt háðari hver annarri og verða að ráða sameiginlega fram úr margvíslegum málum. Þar ríður á að geta sýnt sveigjanleika og hæfileika til málamiðlana til þess að ná settu marki. Til þess verður að deila valdi og áhrifum.

Það er því gleðiefni að allt útlit er fyrir að einmitt þennan dag skuli 27 aðrar sjálfstæðar og fullvalda þjóðir bjóða Ísland velkomið til samningaviðræðna um að gerast aðili að nánasta og víðtækasta samstarfi sem þjóðir eiga með sér.

Það er ekki lítil viðurkenning fyrir land eins og Ísland.

17. júní mun verða haldinn hátíðlegur á Íslandi um ókomna tíð. Það mun ekki breytast við aðild Íslands að Evrópusambandinu.