Frá því Ísland varð sjálfstætt ríki hefur því í öllum aðalatriðum vegnað vel og komist í hóp þeirra ríkja heimsins þar sem lífskjör eru einna best. Þetta hefur að hluta tekist vegna eigin rammleiks og þrautsegju en ekki síður vegna ytri aðstæðna, ekki síst á alþjóðavettvangi, sem sköpuðu þjóðinni afar hagstæð skilyrði.

Vogarafl
Lega landsins varð að gríðarlegu vogarafli í samskiptum okkar til austurs og vesturs. Síðari heimsstyrjöldin leiddi í ljós hernaðarlegt mikilvægi landsins í styrjöldinni sjálfri og síðan í eftirleik styrjaldarinnar, kalda stríðinu, allt til brotthvarfs Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli.

Þetta vogarafl nýttum við okkur óspart í uppbyggingunni eftir stríð, t.d. í tengslum við Marshall-aðstoðina, síðan í tengslum við alls kyns viðskipti, bæði til austurs og vesturs, loftferðasamninga og ekki síst beittum við því í tengslum við útfærslu landhelginnar. Þetta varð allt undirstaða fyrir aukna velsæld og síðar framþróun og umbreytingu í atvinnulífinu.

Nýr kraftur
Umbreyting atvinnulífsins seig hægt af stað með aðild Íslands að EFTA 1970 og fríverslunarsamningunum við ESB 1972. Þeir samningar opnuðu samkeppni í iðnaði og þó hún væri erfið í fyrstu varð hún forsenda þess að hér hefur smá saman orðið til þróttmikill iðnaður. Aðild Íslands að EES-samningnum 1994 opnaði fyrir samkeppni á öðrum sviðum atvinnulífsins, nema landbúnaði og sjávarútvegi, auk þess að veita Íslandi aðgang að margvíslegu samstarfi á fjölmörgum sviðum, t.d. vísinda og mennta. Aðildin að EES hleypti enn nýjum krafti í atvinnulífið og þjóðlífið allt.

Breyttar aðstæður
Þróun alþjóðamála hefur leitt til þess að vogaraflið sem við höfðum vegna legu Íslands er horfið. Nú erum við vegin og metin af eigin verðleikum. Við verðum að spila sem best úr þeim spilum sem við höfum á hendi, þau eru vissulega allgóð og þar leynast inn á milli hin þokkalegustu trompspil.

Efnahagshremmingar þær sem hafa gengið yfir heimsbyggðina og ekki síst skekið Ísland sýna svart á hvítu hve háðar þjóðirnar eru hver annarri. Margs konar önnur verkefni krefjast samvinnu og nægir þar að nefna umhverfismál og nýtingu auðlinda. Þá er býsna nærtækt að benda á eldgosið í Eyjafjallajökli og víðtækar afleiðingar þess á fjölmargar þjóðir.

Hreyfiaflið
Ísland er Evrópuland. Það er því nærtækast að leitað sé eftir samvinnu við Evrópuþjóðir. Ísland hefur gert það með góðum árangri á liðnum áratugum. Við eigum að halda áfram á sömu braut og ganga í Evrópusambandið. Þar getum við beitt okkur á þeim sviðum sem varða okkur mestu og jafnframt miðlað til annarra þar sem við stöndum vel að vígi. Samtímis njótum við styrks af samvinnunni og skjóls af sameiginlegu afli tæplega 30 Evrópuríkja.

Evrópusambandið er hreyfiafl Evrópu og við erum undir áhrifasvæði þess og örlög okkar fara óhjákvæmilega saman. Ísland á að taka fullan þátt í að móta eigin framtíð.

Ég vil sterkara Ísland, Ísland sem er þjóð meðal þjóða – þess vegna er ég Evrópusinni.

Jón Steindór Valdimarsson. Birtist fyrst sem grein í Morgunblaðinu 23. apríl 2010 undir fyrirsögninni: Sterkara Ísland – þjóð meðal þjóða