Í grein dagsins fjallar Gísli Baldvinsson um andstæðinga aðildar Íslands að ESB, um málflutning þeirra og rangfærslur, eins og til dæmis þegar rætt er um fullveldi. Einning fjallar Gísli um þann „meirihluta“ sem ekki vill klára aðildarviðræðurnar heldur hætta þeim. Hér fyrir neðan má lesa greinina í heild sinni.

Það hefur stundum verið all erfitt að eiga í viðræðum við andstæðinga ESB aðildar. Vettvangurinn er Evrópuvaktin en þar inni má sjá aragrúa af rangfærslum og hálfsannleik. Vaktina standa Styrmir Gunnarsson og Ragnar Arnalds. Það nýjasta frá Styrmi Gunnarssyni er þetta:

Línur í stjórnmálum hafa breyst. Þeir menn sem ég var ósammála fyrir 60 árum á ég samleið með í dag.

Ég nefni Ragnar Arnalds og Guðna Ágústsson sem dæmi. Ég get ekki séð að ég geti ekki verið í sama stjórnmálaflokki og þeir.

Þetta eru þessar tvær hliðar á Styrmi sem ég á erfitt með að skilja. Hann viðrar víðsýnar og lýðræðislegar skoðanir í mörgum málum. Talar fyrir beinu lýðræði. En eru þeir Rangar og Guðni dæmi um slíkt? Hafa þeir staðið í stafni víðsýnis og heildarhagsmuna? Ég held ekki. Styrmir er einnig spurður um afstöðuna til ESB aðildar. Hann svarar:

Málið er einfalt. Ísland á að vera fullvalda ríki og gerir það með því að standa utan ESB.

En eru málin svona einföld? Er Styrmir, talsmaður beins lýðræðis, einnig sá Styrmir sem vill ekki að þjóðin kjósi um ESB samning?

Talað um fullveldi. Þó vissulega sé fullveldi fallegt orð og frelsi dýrmætt, getum við fullyrt að efnahagslegt fullveldi okkar sé tryggt? Felst fullveldi okkar í því að ákveða veiðikvóta flökkustofna? Felst fullveldi okkar í því hverjum við hleypum til landsins? Felst fullveldi okkar í því að ákveða sjálf magn á útblæstri og umhverfi?

Er það þannig í blokk að hver og einn íbúi ákveður þrif og umgengni, og mætir ekki á húsfund?

Er slíkur frjáls og engum háður?

Andstæðingar aðildar að ESB fara oft mikinn í fullveldistali. Þeir sem lengst ganga lita orðræðu sína ansi mikið af þjóðernisrembingi. Ræðum þetta frekar á þeim nótum að við viljum vera í samfélagi þjóða. Enginn er eyland. Þrjúhundruð þúsund manna þjóð getur ekki haldið fullveldi sínu nema í samvinnu við aðra. Ekkert frekar en nágranni þinn.

Annar vefur er tengdur Evrópuvaktinni en það er skynsemi.is Þar eru kjósendur hvattir til að skrifa undir hvatningu til Alþingis um það að hætta aðildarviðræðum. Þeir segja:

Við skorum á Alþingi að leggja aðildarumsókn að Evrópusambandinu til hliðar vegna þess að:

Evrópusambandið hefur breyst frá því Alþingi samþykkti umsóknina og óvissa ríkir um framtíð þess og myntbandalagsins.

Aðildarferlið er kostnaðarsamt og dreifir athygli stjórnsýslunnar frá mun brýnni viðfangsefnum.

Skoðanakannanir sýna yfirgnæfandi og vaxandi andstöðu landsmanna við aðild.

Því fyrr sem Alþingi leggur þessa umsókn til hliðar því betra. Það útilokar ekki að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið síðar, þegar aðstæður og vilji þjóðarinnar bjóða upp á það.

En er þetta svo? Er einhver óvissa sem breytir sjálfum aðildarviðræðunum? Breytist eitthvað hjá íslensku hagkerfi þó sitthvað gangi á í Evrópu? Göngum við sjálfvirkt í myntbandalag? Er kosið um evruna?

Nei.

Hvað segja skoðanakannanir? Hvar er þessi „meirihluti“?

Ekki hérna!

Meirihluti landsmanna, tveir af hverjum þremur, vill ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og kjósa í kjölfarið um inngöngu samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Rúm 63 prósent vilja ljúka viðræðum meðan tæp 37 prósent vilja ljúka viðræðum núna og draga umsókn Íslands til baka.

Kemur þetta í ljós í nýrri skoðanakönnun sem Fréttablaðið og Stöð 2 létu gera en eins og fram hefur komið stendur nú yfir undirskriftasöfnun af hálfu samtakanna Skynsemi sem vilja slíta viðræðum nú þegar.

Alls eru 63,4 prósent þeirra sem afstöðu tóku ósammála því mati og vilja klára viðræðurnar og að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfarið. 36,6 prósent vilja draga aðildarumsóknina til baka. Hefur dregið lítillega úr stuðningi við að ljúka viðræðum en í janúar á þessu ári vildu 65,4 prósent ljúka viðræðum og kjósa.

Maður spyr sig hvort hægt sé að eiga orðastað við slíka. Enda sýnist mér að einungis örlítið brot kjósenda skrifi sig á „skynsemina“ sem boðuð er.