Í morgun, þriðjudaginn 18. desember, fór fram ríkjaráðstefna Íslands og Evrópusambandsins í Brussel, og voru sex kaflar opnaðir til viðbótar í aðildarviðræðum Íslands og ESB. Viðræður eru nú hafnar um 27 af þeim 33 samningsköflum sem fjallað er um.

Á vef aðildarviðræðnanna kemur fram að kaflarnir sem opnaðir voru í morgun fjalla um efnahags- og peningamál, byggðastefnu og samræmingu uppbyggingarsjóða, umhverfismál, utanríkistengls, skattamál og frjálsa vöruflutninga.

Þá lauk viðræðum um samkeppnismál og hefur því 11 samningsköflum verið lokað á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru frá því að efnislegar viðræður hófust.

Í ávarpi sínu í morgun fagnaði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, því að nú væru samningaviðræður hafnar um mikilvæga málaflokka á borð við evrusamstarfið, byggðamálin, fríverslunarsamninga og utanríkisviðskipti, sem allt væru grundvallarhagsmunamál fyrir Íslendinga.

Næsta ríkjaráðstefna fer fram í mars á næsta ári og verður sú fyrsta undir formennsku Íra.

Nánar má lesa um ríkjaráðstefnuna í morgun, samningsafstöðu Íslendinga í ofangreindum málaflokkum og framgang aðildarviðræðnanna hér: http://www.vidraedur.is/annad/frettir/nr/7480