Föstudaginn 11. nóvember, milli klukkan 12 og 13,  stendur Alþjóðamálastofnun fyrir fundi í Odda, í stofu 201 (Háskóla Íslands), með Dr. Peadar Kirby, prófessor í alþjóðastjórnmálum og opinberri stjórnsýslu. Mun Dr. Kirby fjalla um áhrif efnahagskreppunnar á Írlandi á stjórnmálin þar í landi.

Athygli vekur að í lok fundarins verður kynnt  ný skýrsla eftir Baldur Þórhallsson og Peadar Kirby. Í tilkynningu frá Alþjóðamálastofnun segir:

„í skýrslunni, sem kynnt verður í lok fundar, er fjallað um stöðu Írlands og Íslands í efnahagskreppunni. Löndin tvö eru borin saman með hliðsjón af því að Írland er aðili að Evrópusambandinu með Evru sem gjaldmiðil en Ísland er utan sambandsins með eigin gjaldmiðil. Greint er hvaða áhrif þetta hefur haft á umfang efnahagskreppunnar í löndunum og getu ríkjanna til að bregðast við afleiðingum hennar. Notast er við greiningarramma smáríkjafræða um mikilvægi bandalagamyndunar fyrir smáríki. Reynsla Íslands og Írlands í bankakreppunni staðfesta að nokkru leyti staðhæfingar um mikilvægi þess að hafa efnahagslegt og pólítískt skjól þó að í því geti einnig falist umtalsverðar þvinganir. Á sama tíma sýnir rannsóknin að efnahagsstjórn og eftirlit með fjármálastofnunum er grunnforsenda þess að smáríki geti varist efnahagslegum áföllum. Kenningar um mikilvægi skjóls eða bandalagamyndunar fyrir smáríki verða því að taka tillit til innviða ríkja þegar lagt er mat á stöðu þeirra í alþjóðahagkerfinu.“