883204_10200800071830224_1343233686_oSjálfstæðir Evrópumenn stóðu fyrir opnum félagsfundi í gær, mánudaginn 4. mars 2013, þar sem efni fundarins var viðbrögð við ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál. Fjölmennt var á fundinum og tóku fjölmargir til máls.

Frummælendur voru þeir Brynjar Níelsson og Vilhjálmur Bjarnason sem báðir eru frambjóðendur flokksins í þingkosningum í vor. Benedikt Jóhannesson formaður setti fundinn og rakti aðdraganda málsins og minnti á að hann hefði í ræðu á landsfundinum lagt til að ályktuninni yrði ekki breytt frá fyrra fundi. Því væri nú öllu á hvolf snúið og þeir sem stóðu að því að rjúfa sáttina sem skapaðist á síðasta landsfundi ynnu nú hörðum höndum að því að endurskrifa söguna.

Vilhjálmur Bjarnason frummælandi talaði næstur og sagði frá því að hann hefði fyrir áratugum heyrt dr. Gylfa Þ. Gíslason tala um að ef til vill væri það nauðsynlegt Íslendingum til þess að halda frelsinu að ganga í raðir Evrópuþjóða í Evrópubandalaginu.

Brynjar Níelsson sagðist ekki vera sannfærður um það að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið, en hann væri hins vegar viss um að ljúka skyldi ferlinu.

Í lok fundarins samþykktu Sjálfstæðir Evrópumenn eftirfarandi ályktun:

Fundur í Sjálfstæðum Evrópumönnum 4. mars 2013 harmar það að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi hafnað málamiðlun í Evrópumálum og vilji hætta viðræðum við Evrópusambandið. Mikilvægt er að þjóðin fái að greiða atkvæði um málið.

Þjóðin sem er í höftum krónunnar, verðbólgu og hárra vaxta má ekki loka leiðum sem geta leitt hana úr ógöngunum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið í fararbroddi þeirra afla á Íslandi sem standa vörð um frjáls viðskipti og vestræna samvinnu. Sjálfstæðir Evrópumenn halda enn í þessi gömlu gildi þó að aðrir telji hagsmunum betur borgið með því að snúa blaðinu við, án þess þó að setja fram neina trúverðuga leið fyrir þjóðina út úr vandanum.

885716_10200800073030254_785908516_o

887066_10200800074670295_950307702_o