THorgerdur-katrin2Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins.

Í tillögunni segir:

„Alþingi ályktar að samhliða alþingiskosningum 27. apríl 2013, þó aldrei síðar en samhliða sveitarstjórnarkosningum árið 2014, fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort haldið skuli áfram aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Svohljóðandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

„Vilt þú að Ísland haldi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að aðildarsamningur verði borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Í greinagerð sem fylgir tillögunni segir meðal annars:

„Innan allra stjórnmálaflokka eru skiptar skoðanir um umsóknarferlið. Það hefur sést á yfirstandandi kjörtímabili þegar stjórnarflokkarnir hafa ekki verið samstíga í málinu. Því er eðlilegt að þjóðin ákveði framhaldið í þessu mikilsverða máli og útrými óvissu í stað þess að stjórnmálaflokkarnir semji um það sín á milli í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar. Með þessum hætti væri einnig tryggt að stjórnmálaflokkarnir hefðu meiri tíma til að útskýra vel helstu baráttumál sín í alþingiskosningunum í apríl 2013 og útfærslur þeirra. Evrópumálin væru með þessum hætti tekin út fyrir sviga þannig að kjósendur fengju raunverulegt vald yfir framhaldi málsins. Þá geta kjósendur krafið forustu flokkanna um skýr svör í öðrum mikilvægum málum sem þannig fengju aukið vægi.“