Ungir bændur, dyggilega studdir af formanni Heimssýnar, ákváðu í dag að reyna sitt besta til að koma umræðu um Evrópusambandið niður í dýpsta forarpytt. Þegar ekki er hægt að halda uppi umræðu sem byggir á rökum er illt í efni. Þegar fallið í gryfju bulls og hræðsluáróðurs í stað raka veltir maður því fyrir sér hvort eigi  yfir höfuð að taka þátt í slíkri dellu. En lygarnar gera það að verkum að einhverju verður að svara.

Ungir bændur vilja ekki í ESB, því þeir óttast að Evrópusambandið taki upp herskyldu sem skyldi Íslendinga í Evrópuherinn. Þessa hugmynd fá þeir með því að afbaka hugmyndir um þróun sameiginlegu varnarstefnu bandalagsins, en þar má finna hugmyndina um sameiginlegt „hraðlið“ eða Rapid Response Force.

Það fyrsta í bullinu er auðvitað að það sé einhver hugmynd uppi um herskyldu allra Evrópuþjóða. Allar Evrópuþjóðir, utan Íslands, hafa her, en hver þjóð er sjálfvalda um það hvort hún hafi herskyldu og það er jafn líklegt og að Ísland verði stórútflytjandi á bönunum og að þær samþykki allar að taka upp herskyldu, hvað þá sameiginlega herskyldu. Flestir hermenn ESB-ríkjanna eru atvinnuhermenn, en hafa ekki verið skyldaðir til þátttöku.

Annað í bullinu er svo hugmyndin um sameiginlegan evrópskan her. Hér verð ég aftur að vísa til samlíkingarinnar um Ísland sem bananaútflytjanda.

Það vill svo til að hugmyndin um sameiginlegt hraðlið er alls ekki ný. Innan NATO hefur nefninlega verið stofnsett NATO Response Force (NRF), sem byggir á sömu hugmynd. Ísland er stofnaðili þess varnarbandalags og þar er fullur skilningur á því að Ísland sé herlaust lið og mun sem slíkt ekki taka þátt í starfi NRF. Það hefur því aldrei verið gerð krafa um að Ísland hafi herlið eða sendi mannafla í NRF-þjálfun.

Það vill einnig svo til öll ríki ESB, utan Kýpur, eru í NATO eða tengt NATO í gegn um Samstarf í þágu friðar (PfP). Það eru því engar líkur á því að það sé ekki skilningur innan ESB á sérstöðu Íslands hvað varðar herleysið.

Ný ríki ESB, sem flest eru austur-evrópsk, hafa samtímis stefnt að því að ganga í ESB og NATO, því þannig telja þau að öryggi og framtíð ríkjanna sé best tryggð, hvort sem er á sviði efnahagsmála, geó-pólitísks styrkleika eða varnarmála. Innan nýframlagðra hugmynda að nýrri grunnstefnu NATO er lagt til nánara samstarf við ESB og ekki ólíklegt að þróunin innan NATO verði sú að ESB ríkin muni tala þar í auknum mæli sameiginlegri röddu.

Í því samhengi þarf að líta til sameignlegrar varnarstefnu ESB, varnarstefnu ríkja sem eiga þegar í sameiginlegu varnarsamstarfi innan NATO. Það vill svo til að innan NATO hafa öll bandalagsríkin samþykkt sameiginlega grunnvarnarstefnu, sem birtist í „Strategic Concept“. Hvur svo sem sameignleg varnarstefna ESB verður, þá er ljóst að Ísland hefur og mun samþykkja hana, því slík stefna mun aldrei brjóta í bága við þá sameiginlegu varnarstefnu sem Ísland hefur nú þegar samþykkt innan varnarbandalagsins NATO – þess bandalags þar sem raunverulegt varnarsamstarf mun eiga sér stað.

Ef ég væri í sama forarpytti og Ungir bændur, þá biði ég nú áhyggjufull eftir því að fá herkvaðningarbréfið frá NATO um að mín væri þörf í Afganistan eða Írak. Nú, ekki nema Ungir bændur séu líka á leið úr NATO.

Svanborg Sigmarsdóttir.