Það er fróðlegt að fylgjast með því hve héruð og sveitarfélög í nyrstu héruðum Finnlands, Svíþjóðar og Noregs standa þétt saman við að gæta hagsmuna sinna gagnvart Evrópusambandinu.  Öll hafa þau rekið skrifstofur í Brussel undanfarin ár og saman kalla þau sig „Hinar dreifðu byggðir norðursins“. En þau vinna einnig sitt í hvoru lagi að eigin hagsmunum.  Í dag áttu t.d. fulltrúar „Hinna dreifðu byggða norðursins“ fund með fulltrúum byggðadeildar ESB þar sem þau kynntu forgangsmál og áherslur sínar til framtíðar.  Þetta er formlegt innlegg þeirra í væntanlega svæðastefnu Evrópusambandsins fyrir tímabilið 2014 – 2020.

Fundurinn í dag er hluti af hinu lýðræðislega ferli sem á sér stað í kringum endurskoðun á svæðastefnu Evrópusambandsins. Öllum héruðum eða svæðum er gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri bæði á fundum með embættismönnum í Brussel og heima í héraði.  Ferlið er langt og á stundum þunglamalegt en það skilar sér í stefnumörkun og úthlutun fjár sem flestir geta sætt sig við að lokum.

Fáum blandast hugur um að svæðastefna Evrópusambandsins hefur haft jákvæð áhrif í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins.  Við Íslendingar höfum einnig notið góðs af henni í gegnum Norðurslóðaáætlunina en með aðild að Evrópusambandinu opnast miklu fleiri möguleikar til þátttöku í svæðastarfi sambandsins.  Og þar skiptir margháttað samstarf og tengslanet, hugmyndir og lausnir ekki síður máli en hugsanlegir styrkir.

Þess má til gamans geta að alls eru starfræktar á milli 300 og 400 héraðaskrifstofur í Brussel sem hafa það hlutverk að koma á samstarfsverkefnum, sækja styrki í sjóði og áætlanir ESB, koma þekkingu á framfæri og svo mætti lengi telja.  Þess verður vonandi ekki langt að bíða að íslensk landshlutasamtök sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélög, háskólar o.fl. taki höndum saman um að opna skrifstofu í Brussel og verða þar með virkir þátttakendur í frjóu og öflugu samstarfi evrópskra héraða.

Anna Margrét Guðjónsdóttir