Í grein dagsins fjallar Sæmundur E. Þorsteinsson, verkfræðingur, um áhugaverðar merkingar gegn ESB sem hann rakst á, á nokkrum bæjum á landinu, í sumar, og veltir fyrir sér hvað sé að baki þeim, sem og hugmyndum bónda um ESB.

Ég var á ferð um Skagafjörð í sumar, í góðu veðri eins og nú er orðið venja á íslensku sumri. Sveitirnar geisluðu af fergurð og smjör draup af hverju strái. Blómlegar rollur bitu grasið í vegarkantinum og um túnin spígsporuðu búsældarlegar kýr. Stóru hvítu „sykurpúðarnir“ settu líka sitt mark á sveitirnar, eru svolítið notalegir ásýndar, sérstaklega þegar hugurinn hvarflar nokkra áratugi aftur í tímann og maður man eftir heyskapnum sem alltaf þurfti að fara fram í þurrki sem var enn sjaldgæfari í þá daga en nú.

Á nokkrum bæjum gat að líta „sykurpúða“ með áróðri gegn Evrópusambandinu eins og myndin sýnir. Ég fór ekki nægilega víða um landið til að sjá hvort svona „sykurpúðar“ séu úti um allt land en þeir voru mest áberandi í Skagafirði af þeim stöðum sem ég fór um. Ég rannsakaði málið ekki í þaula en giska á að slíkir „sykurpúðar“ hafi verið við færri en helming bæja, kannski 30%.

Svo fór ég að velta fyrir mér hvaða þankagangur væri að baki hjá þeim bændum sem hafa fyrir því að „fegra“ „sykurpúðana“ sína með þessum hætti. Líklega er það sá sami og knýr einhverja ríka menn í þéttbýlinu til þess að kaupa pláss á flettiskiltum fyrir sams konar boðskap. Það er a.m.k. ljóst að hér fara valdastéttir landsins, sem hafa bolmagn til slíkra útgjalda.

En hver er boðskapurinn? Á þessu stigi málsins felst hann væntanlega í því að nú skuli hætta samningum um aðild Íslands að ESB. Þar með væri brotinn sá réttur þjóðarinnar að fá að taka afstöðu til samnings um eitt stærsta hagsmunamál sitt. Rétt kjörið Alþingi tók ákvörðun árið 2009 um að hefja samningaviðræðurnar. Þeir flokkar sem höfðu lýst því yfir fyrir kosningar að hefja skyldi slíkt ferli höfðu meirihluta á þinginu. Umboð Alþingis var því ótvírætt og það sætir furðu að jafnvel formenn stjórnmálaflokka  tönnlist í sífellu á því að umboðið skorti. Í raun er ákvörðun um að hefja samningaferli heldur lítilvæg við hlið margra annarra ákvarðana. Hún kostar t.d. aðeins brot af því sem búvörusamningurinn kostar, en hann var undirritaður fyrir fáum dögum í kyrrþey og kostar okkur skattgreiðendur litla 18 milljarða króna. Stóra ákvörðunin verður tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu og felst í því að ganga í ESB eða ekki.

Ég hvet bændur landsins til þess að hugsa málið í þaula. Aðild að ESB er líkleg til þess að bæta hag almennings á Íslandi til muna, þess sama almennings og er megin viðskiptavinur landbúnaðarins. Betri hagur almennings skilar sér einnig til bænda. Samkeppni þarf ekki að þýða verri hag framleiðenda, oft eflir hún þá og bætir hag þeirra. Þetta gæti hæglega gerst með íslenskan landbúnað sem auk þess fengi aðgang að risamarkaði með ESB aðild. Á Íslandi er á sumum sviðum hægt að komast af með vistvænni búskap en í heitari löndum. Víða er eftirspurn eftir afurðum úr vistvænu umhverfi.

Bændur ættu ekki að falla í sama pyttinn og forvarar þeirra í símamálinu árið 1905, en þá riðu bændur til Reykjavíkur til þess að mótmæla ritsímanum, sem síðar reyndist stórkostlegt framfaraspor fyrir þjóðina. Þetta voru einkum bændur úr nágrannasveitum Reykjavíkur og af Suðurlandi, ásamt öðrum stjórnarandstæðingum. Ástæða mótmælanna var ekki  sú að menn væru á móti framförunum, heldur létu þeir nota sig í pólitískum hráskinnaleik þess tíma. Ég skora á bændur landsins að endurtaka ekki þann leik.