Í grein dagsins sem Árni Snævarr ritar frá Brussel, veltir hann því fyrir sér, eins og þungaviktarmenn í Brussel, hvort Evrópusamabandið sé á leið til helvítis, og þá hugmynd  til þess að bjarga Evrunni sem kallast „tveggja hraða Evrópa“, og bók Jean-Claude Piris, um þá hugmynd. Hér að neðan má lesa greinina.

Er Evrópusambandið á leið til helvítis? Þetta er ekki lengur bara spurning sem varpað er fram á vefsíðum ritglaðra öldunga á Íslandi sem orna sér við hlýjar minningar af þjóðernishyggju æskuáranna, heldur spurning sem spurt er af fullri alvöru af þungaviktarmönnum í Brussel.

Fáir hafa þó enn orðið til þess að fara rækilega ofan í saumana á þeim hugmyndum sem einna líklegastar eru til þess að bjarga Evrunni og eru leynt og ljóst til umræðu á meðal leiðtoga Evrópusambandsins en það er „tveggja hraða Evrópa.“

Jean-Claude Piris lét nýlega af störfum sem yfirmaður lagadeildar ráðherraráðs sambandsins og hefur sem slíkur lagt gjörva hönd á að finna lausnir eða að minnsta að kosti að sníða pólitískum lausnum innan sambandsins lagalegan búning. Piris er raunar einn af tengdasonum Íslands; kvæntur íslenskri konu og Íslendingum haukur í horni í viðræðum við Evrópusambandið.

Piris kynnti á dögunum bók sína the Future of Europe – towards a two speed-EU? á opnum fundi í Brussel.  Í hnotskurn telur Piris að vanda Evrunnar megi að verulegu leyti rekja til fæðingargalla. Á sama tíma og ríkin sameinuðust um mynt, hafi heildarútgjöld ríkjanna og efnahagsstefna verið í áfram höndum aðildarríkjanna. Þarna á milli hafi skapast mikil togstreita; ekki síst eftir að Þjóðverjar – af öllum! – urðu fyrstir til að rjúfa svokölluð Maastricht-viðmið um hámarks fjárlagahalla. Aðrir sigldu svo í kjölfarið og sumir slepptu sköpunargleðinni lausri á bókhaldið.

Piris fer í saumana á fjórum möguleikum til að sporna við þróuninni og viðurkennir að engin þeirra sé nein töfralaus.Hann segir hreint út að Lissabon-sáttmálinn hafi ekki aðlagað sambandið að fjölgun í 27 aðildarríkja. Hann telur engan pólitískan vilja vera fyrir enn einni sáttmálagerð.   Í stuttu máli leggur hann til að kjarni aðildarríkjanna skipi sér í framvarðasveit “avant-garde” en taki eftir sem áður þátt í starfi og verði bundinn af ákvörðunum allra 27 á öðrum sviðum. Kjarninn yrði skipaður Evru-ríkjunum sautján en hin aðildarríkin tíu myndu sigla síðar í kjölfarið. Piris bendir á að með þessu sé verið að viðurkenna í orði það sem þegar sé orðið á borði og má í því sambandi nefna neitunarvaldið sem Bretar beittu í desember síðastliðnum á leiðtogafundi ESB.

Til að leiðrétta jafnt og þétt það “ójafnvægi” sem dregur úr styrk og skilvirkni sambandsins leggur Piris til eftirfarandi:

  • Aukna samræmingu peningamála- og efnahagsstefnu kjarnaríkjanna.
  • Að auka hreyfanleika ESB þegna með því að tryggja að þeir geti flutt með sér pólítisk- og félagsleg réttindi og leysa vandkvæði fjölskyldulöggjafar þvert á landamæri.
  • Að draga úr mismun í skattlagningu og félagsmálapólitík innri markaðarins.
  • Full þátttaka allra í sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu.
  • Síðast en ekki síst skal þessum ákvörðunum fylgt eftir með aðgerðum til að þær öðlist pólítiskt og lýðræðislegt lögmæti með því að auka áhrif þjóðþinga

Piris hefur bersýnilega lítið álit á Evrópuþinginu og telur að framkvæmdastjórnin hafi farið mjög halloka í þeim breytingum sem gerðar hafa verið í kjölfar fjölgunar aðildarríkja. Telur hann að fækka beri framkvæmdastjórunum með þeim afleiðingum að hvert ríki hafi ekki lengur einn fulltrúa í stjórninni. Færði hann sannfærandi rök fyrir því að með fækkun myndi staða framkvæmdastjórnarinnar styrkjast.

Auk Piris skeggræddu  Jean Quatremer blaðamaður Libération í Frakklandi og Charles Grant frá Centre for European Reform og danski diplómatinn Poul Skytte Christoffersen.

Allir viðurkenndir þeir að Evrópusambandið gæti liðast í sundur verði ekki að gert. Quatremer gekk svo langt að líkja ástandinu við aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar að því leyti að allir gerðu sér grein fyrir í hvað stefndi en fengju ekki rönd við reist.

Piris vísaði því á bug að myndun framvarðasveitar væri ávísun á fyrsta flokks ESB ríki og annars flokks. Hann taldi enn fráleitara að með þessu væri stefna kjarnaríkjanna tekin á Evrópskt sambandsíki. Enginn vilji væri til þess á meðal aðildarríkjanna. Sarkozy, forseti Frakkklands væri enginn federalisti og heldur ekki núverandi ráðamenn Þýskalands.

Bent var á, að almenningsálitið í Þýskalandi væri í uppnámi yfir því að borga skuldir “óreiðumanna” við Miðjarðarhafið en raunveruleikinn væri sá að væri þýska markið tekið upp að nýju myndi gengi þess hækka upp úr öllu valdi og greiða þýskum útflutningi þungt högg. Slíkt gæti útflutningsríki ekki leyft sér. Þjóðverjar kynnu því að taka framvarða-hugmyndinni tveimur höndum af nauðsyn en ekki hugsjón.

Áhyggjur voru látnar í ljós á fundinum af örlögum smáríkja. Piris minnti á að´það væri ekkert nýtt að þau ættu undir högg að sækja í samskiptum við stórveldi álfunnar en Poul Skytte sagði árangur Dana tala sínu máli um styrk þeirra innan sambandsins. Piris sagði að efling framkvæmdastjórnarinnar myndi koma smáríkjunum til góða; hún hefði reynst þeim öflugt skjól.

Charles Grant, fyrrverandi blaðamaður á Economist og nú forstjóri European Reform Center, sagðist sannfærður um að Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna yrði senn formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra og kæmi Bretlandi út úr Evrópusambandinu á innan við tíu árum; hugsanlega liði það undir lok fyrir þann tíma.

Sá sem þessar línur ritar uppskar lófatak á velsóttum fundinum með því einu að segjast vera frá Íslandi þegar ég bar upp spurningu um hvort tveggja hraða Evrópa væri ávísun á Evrópu “a la carte” þar sem ríki gætu sneitt hjá réttum sem þau girntust ekki; en íslenska diplómata dreymdi blauta drauma um slíkt.

Nei sagði Piris, undanþágur eru eingöngu tímabundnar. Ósagt skal látið hvort Piris gleymdi undanþágum Dana sem Poul Skytte gerði að umtalsefni og hafði allt á hornum sér. “Það er ómögulegt að losna við udanþágur. Það er aldrei rétti tíminn til að losa sig við þær,” sagði danski diplómatinn sem verið hefur í Brussel í ýmsum störfum; jafnt fyrir Dani sem Evrópusambandið sjálft í tvo áratugi.

Piris sagði hreint út á fundinum í Brussel að bókin væri neyðarkall. Einstök Evrópuríki muni þurfa meir á aðstoð Evrópusambandsins að halds í framtíðinni en nokkru sinni því Evrópuríki standi höllum fæti af ýmsum ástæðum, bæði vegna smæðar sinnar hvort heldur sem er mælt í íbúafjölda, ferkílómetrum eða auðlindum. Færri börn fæðist á meðan langlífi ykist en á sama tíma stæði mannkyn allt frammi fyrir vandamálum sem einstök ríki (allra síst smá) gætu illa staðist snúning: hnattvæðingu (les: uppgangur Kína og Indlands), loftslagsbreytingum, náttúruspjöllum og orkuskorti að ógleymdri  efnahags- og fjármálakreppunni.

Athygli vekur í allri þessari umræðu hversu mikil svartsýni ríkir á framtíð Evrópusambandsins og þá einkum og sér í lagi í hve litlum metum leiðtogar þess eru;  “pólítískir dvergar”; var viðkvæði frummælenda jafnt sem fundarmanna.  Flestir virðast sammála um að evran hafi verið hrákasmíð þar sem menn misstu sjónar á takmarkinu í málamiðlunum og miðjumoði.Ótti við “federalisma” sé fásinna enda hvarfli slíkt varla að nokkrum manni í Frakklandi sem þó sé sakað um að vera drifkrafturinn í samrunaþróun.

“Stjórnmálamenn í Frakklandi eru í raun sveitamenn og þekkja lítið annað en Signubakka og nærsveitir og eru einstaklega fákunnandi um Evrópumál”, sagði Jean Quatremer. “Sarkozy vill auðvitað að Frakklandi drottni yfir Evrópu en hvorki hann né landið hefur nokkra burði til þess”.

Niðurstaða Piris og viðmælenda hans er því að líklegasta niðurstaðan sé sú að annað hvort fjari Evrópusambandið út sem öflug pólitísk eining, mynduð verði framvarðasveit Evruríkja og hinum boðið að fylgja í humátt á eftir. Bretar eru þar helstir og eru í þeirri undarlegu stöðu að þurfa að ákveða hvort þeir vilji vera í ytra byrði ESB, eins konar nýju EFTA og hafi þá lítið sem ekkert að segja um ákvarðanir í mikilvægum málum sem þá snerta. Kannast einhver “hlustandi”  á eyju í Norðvestur-Atlantshafi við slíkt áhrifaleysi?