Freyja SteingrímsdóttirFreyja Steingrímsdóttir, varaformaður Ungra Evrópusinna, skrifar grein í Fréttablaðið í dag, miðvikudaginn 10. apríl, um gjaldmiðilsmál.

Freyja segir meðal annars:

„Hvers vegna ekki að taka upp Disney-dollarann? Já, ég held að gjaldmiðillinn sem notaður er í Disney-landi í Bandaríkjunum yrði jafnvel heppilegri gjaldmiðill en íslenska krónan. Það nota fleiri Disney dollarann daglega en íslensku krónuna og hann felur í sér meiri stöðugleika! Hvern langar ekki í gjaldmiðil sem skartar Mikka mús og setur traust sitt á súkkulaði? Ég bara spyr.

Margir gera sér ekki alveg grein fyrir því hversu hjákátlegt það er að 300.000 manna þjóð notist við eigin gjaldmiðil. Trúverðugleiki krónunnar er enginn.

Það er ekkert að krónunni – við þurfum bara stöðuga hagstjórn! Segja sumir. Því miður sýnir sagan okkur annað. Ef skoðað er hvernig íslensku krónunni hefur vegnað gagnvart þeirri dönsku frá aðskilnaði þeirra árið 1920 fær maður sjokk. Þá var ein íslensk króna jafngild einni danskri. Í dag þarf 2.200 upphaflegar íslenskar krónur til að kaupa eina danska (því tvö núll voru tekin aftan af íslensku krónunni á 9. áratugnum).

Þótt ég elski súkkulaði og fyndist ægilega skemmtilegt að taka upp Disney-dollarann, þá er það ekki raunhæfur möguleiki. Það er ekki heldur raunhæfur möguleiki að taka upp Bandaríkjadalinn, kanadísku lúnuna – eða halda í íslensku krónuna.

Eini raunhæfi möguleikinn er upptaka evrunnar. Sama þó að á evrusvæðinu hafi ekki verið eintómt gaman og kandífloss síðustu ár, frekar en á öðrum efnahagssvæðum. Að fá að búa við gjaldgengan, stöðugan gjaldmiðil er ein allra mikilvægasta búbót sem virðulegt löggjafarþing okkar gæti komið í kring á næstu árum.“

Greinina má lesa í heild sinni hér.