Í grein dagsins fjallar Valborg Ösp Á. Warén um það hvernig það sé að koma út úr ESB skápnum, hvers vegna hún sé evrópusinni og óskina um málefnalegri umræðu um Evrópusambandið. Greinina er hægt að lesa hér að neðan.

Það liggur við að það sé erfiðara að játa fyrir sér og öðrum að maður sé Evrópusambandssinni heldur en að játa að maður sé samkynhneigður. Trúið mér, ég hef gert bæði. Þegar ég kom út úr skápnum, þá voru lang flestir styðjandi og jákvæðir, ég fékk klapp á bakið og nokkra þumla upp. Þegar ég hins vegar viðurkenni fyrir fólki að mér finnist Evrópusambandið áhugaverður kostur fyrir Ísland, þá fæ ég skrítið augnaráð, er næstum því skömmuð og hef meira að segja verið kölluð landráðskona, svo þið getið ímyndað ykkur hversu skemmtileg sum fjölskylduboðin geta verið.

Það eru örfáir sem hafa fyrir því að spyrja af hverju ég sé Evrópusinni. Flestir fara strax í að demba yfir mann órökstuddum fullyrðingum, til dæmis um fullveldisafsal, dauða landbúnaðarins, alla útlendingana sem munu stela fisknum okkar og svo er ég alltaf spurð hvort ég vilji virkilega senda son minn í Evrópusambandsherinn.

Nei takk, ég hef engan áhuga á því, enda er ekki til neinn Evrópusambandsher. Landbúnaðinn, sjávarútveginn og auðlindirnar á auðvitað að ræða en í stað þess að koma með staðreyndir um landbúnaðar- eða sjávarútvegsstefnu ESB eða hvernig þetta er allt saman með auðlindirnar, langar mig að segja frá því afhverju mér finnst Evrópusambandið áhugavert.

Tilhugsunin um að geta farið út í búð og ekki koma með tárin í augunum þaðan út vegna þess hversu fáránlega hátt vöruverð er hér á Íslandi, heillar mig mjög, og hey, mýtan um að við munum ekki geta keypt Cheerios eða Coco Puffs með aðild að ESB er ekki sönn! Fagleg stjórnsýsla er eitthvað sem Íslandi vantar, meira að segja vantar mjög mikið. Þó að evran sé ekki að fá góða umfjöllun einmitt núna þá er krónan okkar litlu betri. Hún er núna ennþá á gjörgæslu með „overdose“ af gjaldeyrishöftum í æð til ársins 2015, hið minnsta.

Evrópusambandið hefur staðið í mikilli mannréttinda- og jafnréttisbaráttu, til dæmis í fyrrum ríkjum kommúnismans og hefur það skilað góðum árangri. Þessi barátta heldur áfram og er mikilvægt að taka þátt í henni. Mest af öllu finnst mér þó mikilvægt að við Íslendingar fáum tækifæri til þess að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun á málefnum sem varða okkur nú þegar. Oft koma þau rök upp að með inngöngu missum við fullveldið. En hversu fullvalda er sú þjóð sem tekur við reglugerðum og löggjöfum án þess að fá að taka þátt í mótun þeirra? Það er hlutskipti okkar Íslendinga í dag út af EES samningnum.

Að endingu vil ég endilega hvetja alla til þess að kynna sér málið. Að mínu mati hefur umræðan einkennst af miklum þjóðernishroka, „við erum betri en þið og gerum allt betra“ stílinn hefur verið ráðandi, en er ekki kominn tími til að hætta að láta eins og Bjartur í Sumarhúsum og reyna að hefja umræðuna upp á málefnalegra plan? Ekki nenna allir að fletta í þykkum doðröntum til þess að leita af upplýsingum, en þá bara hægt að googla eða kíkja til dæmis  á evropuvefur.is, þar sem hinum margvíslegu spurningum um ESB og aðildarferlið er svarað bæði frá nei og já hliðunum á málefnalegan hátt.