Carl B. Hamilton, formaður Evrópunefndar sænska þingsins, segir í viðtali við Fréttablaðið að Íslendingar eigi að líta á aðild að ESB með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar í huga. Hamilton sat í saminganefnd Svía á sínum tíma og fullyrðir að aðstaða Íslands yrði mun betri innan en utan ESB. Hann segir EES-samninginn afar vafasamann hafi fólk áhyggjur af fullveldisafsali. Svíar, ólíkt Íslendingum og Norðmönnun, hafa getað haft áhrif á gang mála síðan þeir gengu inn 1995.

„Evrópusambandsaðildin er ekki lengur rædd á fullveldisnótum. Þetta er vel skilgreint hvað eru innanríkisákvarðanir og hvað heyrir til ESB, sérstaklega eftir að Lissabonsáttmálinn var samþykktur. Í prinsippinu þarf þjóð að gefa eftir hluta fullveldisins en getur í staðinn haft áhrif á aðrar þjóðir á öðrum sviðum. Það þýðir fyrir litlar þjóðir eins og Svíþjóð og Ísland að þær geta varið sig.“

Byggt á viðtali Klemens Ólafs Þrastarsonar sem birtist í Fréttablaðinu 29. mars