Í grein dagsins fjallar Ásdís J. Rafnar um aðildarviðræðurnar sem í gangi eru við Evrópusambandið, litla þátttöku ungs fólks og þá umræðu sem í gangi er í kringum aðildarviðræðurnar. Greinina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
Meirihluti þjóðarinnar styður aðildarviðræður við Evrópusambandið að því er fram kemur í skoðanakönnunum. Alþingi Íslendinga tók ákvörðun um að ganga til aðildarviðræðna í þeim tilgangi að fá niðurstöðu um hvort aðild að sambandinu væri okkur hagstæð eða ekki að mati kosningabærra manna. Ég skipa þann hóp fólks í samfélaginu sem gerir kröfu til þess að Íslendingar standi saman að aðildarviðræðunum og vinni af heilindum að sem hagfelldastri niðurstöðu. Þegar hún liggur fyrir skoðum við hvort hag okkar er betur borgið innan bandalagsins eða utan.
Ég ætla að tala við kónginn í Kína
Og kanski við páfann í Róm.
Og hvort sem það verður til falls eða frægðar
Þá fer ég á íslenskum skóm.
Orti Halldór Laxness af bjartsýni og þjóðarstolti.
Öfgamenn til hægri og vinstri vilja hætta aðildarviðræðunum án þess að þeir hinir sömu komi fram með nokkrar trúverðugar eigin hugmyndir um uppbyggingu efnahagslífsins og gjaldmiðilsmálin. Bera við núverandi efnahagsástandi í heiminum og gefa okkur langt nef sem viljum fá niðurstöður í viðræðurnar og taka upplýsta afstöðu til þeirra. EES samningurinn virðist hugnast þeim betur en að menn freisti þess að fá inngöngu í Evrópusambandið og eiga með því möguleika á að hafa einhver áhrif m.a. á þá löggjöf sem við tökum stöðugt upp einhliða á grundvelli EES samningsins.
Það er reyndar athyglisvert að sú löggjöf hefur ekki nokkurn tíma orðið að heitu ágreiningsefni á Alþingi eða á öðrum vettvangi hér á landi. Ekki hefur heldur heyrst af því að stjórnmálamenn hafi beitt sér fyrir því að nýta svigrúm til áhrifa á löggjöfina, sem aðildarþjóðunum er stundum veitt við gildistöku evrópugerða með sérstakri vísan til aðstæðna í heimalandinu. Ályktun mín er sú að íslenskir stjórnmálamenn kynni sér þessa löggjöf að mjög takmörkuðu leyti þegar innleiðing er undirbúin hér á landi. Af hverju er hún ekki áhugaverðari en svo í þeirra augum? Yfirleitt hefur hún víðtæk áhrif á sínu sviði.
Meirihluti þjóðarinnar styður vestræna samvinnu. Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru eðlilegt framhald af því samstarfi og EES samningnum. Íslendingar vilja njóta lífskjara eins og þau gerast best hjá þeim þjóðum sem mynda Evrópusambandið og því fer fjarri að við sættum okkur við einangrun frá þessum ríkjum. Ég sakna unga fólksins í umræðum um aðildarviðræðurnar þegar mið er tekið af þeirri staðreynd að afar fáir eiga sér framtíðarstörf í landbúnaði eða í sjávarútvegi; þeim atvinnugreinum sem harðast berjast gegn viðræðunum.
Frændþjóðir okkar Finnar, Svíar og Danir áttu sína sérhagsmuni þegar þeir áttu í viðræðum við Evrópusambandið. Enga ómerkari hagsmuni en Íslendingar og þessar þrjár þjóðir eru jafnmiklir Finnar, Svíar og Danir eftir að þeir gerðust aðilar og áður. Íslendingar eru jafnmerkileg þjóð og þeir, ekkert merkilegri. Stjórnmálaumræða á Íslandi er hins vegar því miður mun fátæklegri en hjá þessum nágrannaþjóðum okkar, þótt aðildarþjóðir séu. Hér er stöðug og persónuleg síbylja á vettvangi stjórnmálanna, með örfáum undantekningum.
Ég vona að við berum gæfu til þess að eiga farsælar samræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild Íslands og jafnframt til þess á sama tíma að eiga gagnlegar stjórnmálaumræður án hleypidóma um það hvernig við tryggjum börnunum okkar og barnabörnum viðunandi lífskjör í landinu í nánustu framtíð. Uppbyggilegar umræður sem vekja áhuga og baráttuhug hjá þjóðinni.