Á vef utanríkisráðuneytis kemur fram að í dag, þann 12. desember, fór þriðja ríkjaráðstefna Íslands og Evrópusambandsins fram í Brussel. Þar var fjallað um fimm samningskafla og lauk viðræðum um fjóra þeirra. Um er að ræða kafla 6, um félagarétt, kafla 20, um atvinnu- og iðnstefnu, kafla 21 um samevrópskt net, kafla 23 um réttarvörslu og grundvallarréttindi og kafla 22, um framlagsmál.

Einnig kemur fram að frá því að efnislegar viðræður hófust í júní hafa 11 af þeim 33 samningsköflum sem viðræðurnar snúast um verið opnaðir og er viðræðum lokið um 8 þeirra eða um fjórðung.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra , sat fundinn fyrir hönd Íslands og sagði meðal annars að „nú væri í fyrsta sinn fjallað um kafla sem ekki er hluti af EES. Það er kafli 23 um réttarvörslu og grundvallarréttindi en þeim kafla var lokað samdægurs endu eru lög á Íslandi sambærileg regluverki ESB. Það helgast meðal annars af aðild Íslands að Mannréttindasáttmála Evrópu og öðrum alþjóðlegum sáttmálum. Utanríkisráðherra sagði baráttuna fyrir mannréttindum vera forgangsmál og þar ætti Ísland sannarlega samleið með ESB.“

Þá sagði utanríkisráðherra einnig að „það væri óábyrgt af Íslandi að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið núna og myndi skaða orðspor landsins langt út fyrir Evrópu“

Næsta ríkjaráðstefna er ráðgerð í Brussel í mars á næsta ári en Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands mun sækja hana fyrir Íslands hönd.

Nánar um ríkjaráðstefnuna hér: http://esb.utn.is/hlidarval/frettir/nr/6839

Ávarp utanríkisráðherra, á ensku, er hægt að lesa hér: http://esb.utn.is/media/esb/raedur/Statement-Foreign-Minister-of-Iceland-Accession-Conference–12-DEC-2011.pdf