evropustofaÁ vef Evrópustofu segir:

Lise Rye, sérfræðingur í evrópskri samtímasögu, fjallar um orsakir andstöðu almennings í Noregi við aðild að Evrópusambandinu á opnum fundi á Hótel KEA, Akureyri, miðvikudaginn 20. mars kl. 12:00-13:30. Rye sat einnig nefnd um kosti og galla EES samningsins fyrir Noreg, en niðurstöður hennar vöktu töluverða athygli bæði í Noregi og á Íslandi.


Fundurinn er hluti af fundarröð sem Norræna upplýsingaskrifstofan, Norræna félagið og Evrópustofa standa fyrir í samstarfi við sendiráð hinna norrænu landa og fjallað er um mál sem hafa verið ofarlega á baugi í Evrópuumræðunni.

„Tilgangurinn með fundaröðinni er að varpa ljósi á reynslu Norðurlandanna af Evrópusamstarfi og miðla þeirri þekkingu til almennings,“ segir Bryndís Nielsen, framkvæmdastýra Evrópustofu.

Lise Rye er sérfræðingur í evrópskri samtímasögu við rannsóknarstofnun um sögu og sígild fræði við Norska Tækniháskólann (Norges teknisk-naturvitenskaplige universitet – NTNU). Auk þess að fjalla um orsakir andstöðu almennings í Noregi við aðild að ESB mun Rye fjalla um hvaða þýðingu það hefur fyrir Noreg að standa fyrir utan ESB, hvert framlag allra Norðurlandanna til ESB gæti verið sem og hver áhrif frá ESB til Norðurlandanna gætu verið.