kjosturettMiðvikudaginn 17. apríl síðastliðinn opnaði heimasíðan kjosturett.is, en að henni standa þrír ungir drengir, Ásgeir Vísir grafískur hönnuður, Kristján Ingi forritari og Ragnar Þór vefsmiður.

Á síðunni geta kjósendur fundið upplýsingar um stefnu allra þeirra 15 flokka og framboða sem bjóða fram lista til Alþingis í komandi kosningum 27. apríl. Þetta framtak ætti að auðvelda mörgum að kynna sér málefni flokkanna og taka upplýsta ákvörðun áður en gengið verður að kjörborðinu.

Á síðunni er hægt að finna afstöðu flokkanna og framboðanna til Evrópumála, en það ætti að auðvelda Evrópusinnum að gera upp hug sinn með tilliti til þess málaflokks.

Já Ísland fagnar þessu framtaki drengjanna og hvetur kjósendur til þess að kynna sér síðuna. Hér á eftir fer afstaða flokkanna og framboðanna til Evrópumálanna, sem fengin er að láni frá síðunni.

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin vill verja og auka fullveldi landsins með því að standa utan ESB og helst ganga úr EES líka. Fullveldið er skilyrði fyrir að við höfum lýðræði og fyrir því að geta haft samfélagið okkar eftir okkar þörfum, m.a. hvernig við ráðstöfum auðlindum okkar eða stjórnum fjármálakerfinu. Þá mundi ESB-aðild opna flóðgáttir erlendrar fjárfestingar, en hún er ávísun á að verðmæti sem framleidd eru í landinu sogist út úr því í formi arðgreiðslna. Einnig yrði það efnahagslífinu þungbært ef hingað yrði óheftur innflutningur á framleiðsluvörum sem eru framleiddar í landinu, einkum landbúnaðarafurðum.

Björt Framtíð

Löndum góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá opnast leið til gjaldmiðilssamstarfs við Evrópska seðlabankann (ERM II), sem strax getur aukið stöðugleika. Svo getum við tekið upp evru þegar skilyrði skapast til þess. Það er auðvitað ekki töfralausn en þó að öllum líkindum sigurstranglegasta leiðin í átt að efnahagslegum stöðugleika.

Dögun

Við leggjum áherslu á opið og lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni. Ef aðildarviðræðum verður ekki lokið fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár og þjóðin ákveður að hætta aðildarviðræðum í samræmi við 66. grein frumvarps Stjórnlagaráðs, munum við styðja þá niðurstöðu. Að öðrum kosti verði aðildarviðræður við Evrópusambandið kláraðar og niðurstaðan borin undir þjóðaratkvæði.

Flokkur heimilanna

Flokkur heimilanna er andvígur aðild Íslands að ESB. Flokkurinn vill taka til skoðunar aðild Íslands að Schengen samkomulaginu. Flokkurinn er hlynntur aðild að Atlantshafsbandalaginu. Flokkurinn leggur þunga áherslu á viðskiptafrelsi og að Ísland geri fríverslunarsamninga og telur að besti stuðningur við þróunarríki sé að stuðla að breytingum á alþjóðasamningum sem gera þróunarríkjum kleift að eiga frjáls viðskipti á heimsmarkaði, enda verði mannréttindahagsmunir virtir. Koma þarf í veg fyrir að ráðherrar geti samþykkt stríðsyfirlýsingu, slíkt þarf að fara fyrir Alþingi.

Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurnn telur að Íslendingar eigi áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld best tryggt hagsmuni Íslands á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Húmanistaflokkurinn

Við viljum ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í ESB hafa bankarnir og fjármálaöflin öll völd og útilokað væri að hafa sjálfstæði innan þess til að taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að koma á nýju peningakerfi og hindra annað hrun.

Hægri Grænir

Hægri Grænir eru telja hag íslensku þjóðarinnar betur borgið utan Evrópusambandsins og vilja efla fríverslunarsamninga við önnur ríki.

Landsbyggðarflokkurinn

Ekkert svar barst við þessum málaflokki.

Lýðræðisvaktin

Lýðræðisvaktin vill að samningum við Evrópusambandið um aðild Íslands verði lokið. Niðurstöður samnings verði síðan bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, til samþykkis eða synjunar.

Píratar

Píratar standa fyrir gagnsæi og beint lýðræði, því teljum við að allt viðræðuferlið eigi að vera opið og allar upplýsingar eiga að vera uppi á borðum. Almenningur á síðan að fá að taka vel upplýsta ákvörðun í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka að taka afstöðu með eða á móti aðild en aftur á móti eiga þeir að vera undirbúnir undir hvora niðurstöðuna sem er.

Regnboginn

Fullveldi Íslands verði tryggt. Sem alþjóðasinnar höfnum við aðild Íslands að Evrópusambandinu og viljum tafarlaus viðræðuslit og stöðvun á því aðlögunarferli sem nú á sér stað. Við teljum að Ísland eigi í samvinnu við Norðmenn að hefja endurskoðun á EES samningnum. Við teljum viðskiptafrelsi þjóða mikilvægt og viljum stuðla að auknum viðskiptum Íslands við aðrar þjóðir óháð viðskiptablokkum.

Samfylkingin

Ísland á að ganga í ESB og taka upp evru þegar það er tímabært, að því gefnu að þjóðarhagsmunir okkar verði tryggðir í aðildarviðræðunum. Samfylkingin vill flýta viðræðum við Evrópusambandið og leggja aðildarsamning í dóm þjóðarinnar eigi síðar en árið 2015.

Ef Íslendingar samþykktu að ganga í ESB þá væri strax hægt að leggja meiri kraft í afnám gjaldeyrishafta. Þá væri hægt að komast strax í ERM-II-samstarfið á árinu 2016 og þar með gera krónuna stöðugri til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki.

Sjálfstæðisflokkurinn

Hagsmunum Íslands er best borgið utan Evrópusambandsins. Samstarfinu við ESB er best viðhaldið og það eflt á grundvelli EES-samningsins.

  • Aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði hætt og þær ekki hafnar að nýju nema fyrir liggi samþykki meirihluta landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Frjáls viðskipti við önnur lönd tryggð með þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu og með gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki.

Kosningarnar 27. apríl snúast ekki um aðild að Evrópusambandinu heldur uppbyggingu atvinnulífsins, lækkun skatta og um hag heimilanna. Evrópusambandið mun ekki leysa þessi verkefni fyrir okkur. Við þurfum að gera það sjálf.

Viðræðurnar við Evrópusambandið hafa siglt í strand enda hefur ríkisstjórnin haldið þannig á málum að ekki var við öðru að búast. Stjórnarflokkarnir komu í veg fyrir að þjóðin fengi að segja sitt álit áður en lagt var af stað í þessa vegferð. Það er kominn tími til að þjóðin ákveði sjálf hvort veita eigi umboð til viðræðna.

Ríkisstjórnin hefur ekkert pólitískt bakland og ekkert umboð frá þjóðinni í viðræðunum við Evrópusambandið.

Forsenda viðræðna um aðild að Evrópusambandinu er að meirihluti þjóðarinnar veiti þeirri ríkisstjórn sem tekur við stjórnartaumunum, umboð til slíks í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sturla Jónsson

Ekkert svar barst við þessum málaflokki.

Vinstri Græn

Deilur um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa verið fyrirferðarmiklar í þjóðmálaumræðunni um langa hríð. Mikilvægt er að leiða málið til lykta með því að ljúka yfirstandandi aðildarviðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði.

Afstaða Vinstri grænna er þó sú að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandins. Samskipti við sambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála.

Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að ESB réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.