Í helgarblaði Fréttablaðisins fjallar Klemens Ó. Þrastarson um áhrif ESB-aðildar á íslenskan iðnað, ferðaþjónustu og nýsköpun. Greint er frá afstöðu iðnaðarins til aðildar að ESB.

Þau iðnfyrirtæki sem helst hafa skarað fram úr á undanförnum árum telja inngöngu í ESB forsendu nýsköpunar hérlendis. Fyrirtækin CCP, Marel og Össur styðja eindregið aðild að sambandinu. Marel tekur sterkar til orða og segir aðild “eina af meginforsendum fyrir áframhaldandi stækkun fyrirtækisins á Íslandi”.

Nýleg könnun Norrænu ráðherranefndarinnar sýndi að Ísland hefur dregist aftur úr hinum Norðurlöndunum í nýsköpun. Danmörk, Finnland og Svíþjóð voru í efstu sætunum en EES-ríkin Noregur og Ísland ráku lestina. Innganga í ESB og upptaka evrunar er að mati flestra íslenskra iðnfyrirtækja einn af grunnforsendunum fyrir nýsköpun hér á landi.