Benedikt Jóhannesson ritar pistil á vef útgáfufyrirtækisins Heims. Hann hefst svona: „Ég sé að Ögmundi líst ekki á það ef Ísland er í aðlögun að ES. Jón Bjarnasyni líst ekki á það heldur og Mogginn hræðir okkur með því á hverjum degi. Ég man hins vegar eftir því að Davíð Oddsson fræddi okkur á því á sínum tíma að ein reglugerð eða lagasetning hefði komi frá Evrópusambandinu á dag allt frá því að við gengum í Evrópska efnahagssvæðið. Ég reikna með því að það hafi haldið áfram og hafi ekki verið bundið við stjórnartíð Davíðs.

Enginn spyr um það í hverju aðlögunin er fólgin. Ég sá að Ásmundur Einar Daðason sagði það í sjónvarpinu um daginn að mestur hluti af þessari aðlögun væri ágætur. En hann vildi ekki hrinda breytingunum í framkvæmd vegna þess að þær kæmu frá Evrópu. Hann sjálfur mun hafa lagt til að Íslendingar tækju upp fríverslun við Bandaríkin.″

Benedikt heldur áfram:

„Á sínum tíma var annar vinstri maður, Halldór Laxness, óhræddur við að Íslendingar löguðu sig að ákveðnum siðum útlendinga. Hann vildi sem sé að þeir tækju upp á því að þvo sér og bursta tennurnar. Sem betur fer löguðum við okkur flest að þessum evrópsku siðum áður en Ásmundur Einar komst á þing.″

Pistil Benedikts má lesa í heild hér.

Benedikt Jóhannesson er formaður Sjálfstæðra Evrópumanna og situr í stjórn Sterkara Íslands.