Almennur fundur Sjálfstæðra Evrópumanna miðvikudaginn 30. júní 2010 samþykkir eftirfarandi ályktun:

Styrkja þarf pólitískan bakhjarl aðildarumsóknar að Evrópusambandinu

Síðar á þessu ári hefjast formlegar samningaviðræður Íslands við Evrópusambandið um fulla aðild að sambandinu. Mikilvægt er að þjóðin gangi til þeirra viðræðna sem styrkust til þess að tryggja heildarhagsmuni sína. Breið pólitísk samstaða er líklegust til að skila góðri niðurstöðu fyrir Ísland. Þjóðin er nú í alvarlegustu kreppu sem hún hefur lent í á lýðveldistímanum og því skiptir miklu að hún kanni til hlítar allar leiðir sem geta tryggt stöðugleika í framtíðinni.

Því harma Sjálfstæðir Evrópumenn samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál. Hún felur í sér áhrifaleysi flokksins í einhverjum mikilvægustu samningum sem Ísland hefur gengið til á þýðingarmesta tíma samningagerðarinnar. Hún er einnig andstæð þeirri eðlilegu lýðræðiskröfu að fólkið í landinu fái úrslitavald um niðurstöðu málsins.

Aldamótanefnd Sjálfstæðisflokksins varaði á sínum tíma við því „að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna.“ Sjálfstæðir Evrópumenn taka undir þessa skoðun.

Við svo búið er brýnast að styrkja og breikka svo sem verða má pólitískan bakhjarl aðildarumsóknarinnar til sóknar og varnar íslenskum hagsmunum. Fundurinn felur stjórn samtakanna að vinna að því markmiði með öllum þeim málefnalegu ráðum sem best þykja duga meðan samningaviðræður standa. Endanleg afstaða til aðildar verði síðan tekin þegar ljóst verður hvað í mögulegum samningi felst.