Ég þarf að gera játningu.

Ég játa að ég hef ánetjast þeirri hugmynd að Evrópuþjóðir eigi samleið.

Ég játa að ég hef ánetjast og er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að Evrópusambandið sé í heildina tekið afl til framfara og til þess fallið að stuðla að friði og mannréttindum í heiminum.
Það er ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk en hefur þó náð meiri og merkari árangri á skömmum tíma en nokkurt annað ríkjasamstarf.

Ég játa að ég hef ánetjast þeirri hugmynd að skynsamlegt sé fyrir Ísland að setjast að borði með 27 (bráðum 28) öðrum Evrópuþjóðum sem hafa sameinast um að verja sameiginleg grunngildi.

Ég játa að hafa ánetjast þeirri skoðun að efla fullveldi Íslands með því að stíga skrefið frá aðild að EES samningnum til fullrar aðildar að Evrópusambandinu.

Ég játa að telja að krónan sé ekki góður gjaldmiðill fyrir Íslendinga og fyrirtæki framtíðarinnar.
Þar sé betri kostur að taka upp evru í fyllingu tímans.

Ég játa að vera viss um að hag almennings sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan.

Ég játa að vera þeirrar skoðunar að hægt sé að stunda landbúnað, útgerð og fiskvinnslu á Íslandi eftir aðild að Evrópusambandinu.

Ég játa að ég hef ánetjast þrátt fyrir að enginn beri á mig perlur og eldvatn.

Ég játa að ég hef ánetjast þrátt fyrir að leiðast stutt ferðalög og langir fundir í útlöndum.

Ég játa að hafa kynnt mér þessi mál vel og átt samræður við fullt af starfsfólki hjá mörgum stofnunum Evrópsambands og þingmenn á Evrópuþinginu.

Ég játa að ég hef ánetjast eigin skoðunum og skammast mín ekki agnarögn fyrir það.

Ég játa að bera hag Íslands fyrir brjósti og vilja þess vegna ganga í Evrópusambandið á grundvelli góðs aðildarsamnings.

Ég játa að geta ekki annað.

Jón Steindór Valdimarsson
Höfundur er lögfræðingur og styður Já Ísland