Í Speglinum þann 2. janúar síðastliðinn fjallaði Arthúr Björgvin Bollason um efnahagshorfur í Þýskalandi fyrir árið 2012 sem virðast vera nokkuð góðar, sem og þá staðreynd að Þjóðverjar eru almennt sannfærðir um ágæti evrunnar. Var þetta  í tilefni af áramótaávarpi Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Í erindi sínu benti Arthúr á að „árið 2011 var gjöfult ár og gott fyrir þýskt efnahgslíf. Hagvöxtur var um 4 af hundraði, útflutningurinn mikill og atvinnuástandið með albesta móti. Að meðaltali var atvinnleysi tæplega 7 prósent á liðnu ári, sem er þó nokkur minnkun frá árinu 2010. Það var því ekkert undrunarefni að Angela Merkel Þýskalandskanslari skyldi vera þokkalega bjartsýn í áramótaávarpi sínu á gamlársdag. Merkel vék í tölu sinni sérataklega að því að nú eru liðin 10 ár frá því að Þjóðverjar, sem og íbúar 11 annarra Evrópulanda, gátu í fyrsta sinn tekið evrur út úr hraðbönkum í heimalöndum sínum. Og Merkel tók það skýrt fram að þrátt fyrir að ýmsar blikur væru á lofti í Evrulöndunum, sem nú eru alls 17, væri engin ástæða til að efast um ágæti evrunnar sem gjaldmiðils.“

Arthúr benti einnig á að í ávarpi sínu hafi Merkel sagt að evran hafi gert hversdagslífið í Evrulöndunum þægilegra og forðaði bæði Þjóðverjum sem og öðrum Evrulöndum frá því að kreppan sem reið yfir Evrópu árið 2008 léki efnahag þessara ríkja enn verr en ella. Þá bætti hann við að „þetta sjónarmið, að evran hafi bjargað umræddum ríkjum frá því að stóriskellur gengi jafn nærri þjóðum álfunnar og hann gerði á krónulandinu okkar er almenn skoðun þeirra sem vela um þessi mál í Þýskalandi.“

Arthúr sagði einnig að þrátt fyrir að evran hafi ekki notið mikilla vinsælda hjá þýskum almenningi í upphafi hafi mönnum orðið ljóst með tímanum að þessi nýji gjaldmiðill hafði mikla kosti í för með sér, bæði fyrir hina ferðaglöðu Þjóðverja sem losnuðu við hvimleit gjaldeyrisskipti hvert sem þeir fóru, sem og fyrir útflutningsviðskipti þessa mikla útflutningslands sem nú gat reitt sig á staðfestu evrunnar.

Loks benti Arthúr á í erindi sínu að þrátt fyrir að Merkel hafi ekki verið að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem nú steðja að efnahag sumra Evrópusambandsríkja hafi hún bent á að forsendur þess að ríki vinni sig út úr kreppunni séu samstaða og hinn sameiginlegi gjaldmiðill evran. Þá vitnaði Arthús í þau orð Merkels að Evrópusambandið er ekki bara sameiginlegur gjaldmiðill heldur annað og miklu meira:

„Það [Evrópusambandið] var frá upphafi vináttu og friðarbandalag sem átti að tryggja öryggi og samstöðu Evrópuríkja eftir að þau höfðu borist á banaspjótum í hildarleik tveggja heimstyrjalda. Þannig er kjarni evrópuhugsjónarinnar í rótina ekki efnahagslegur eins og mönnum hættir til að trúa heldur tekur hann mið af öðrum og mikilvægari verðmunum en þeim sem hægt er að troða í peningabuddur.“

Hér er hægt að hlusta á erindi Arthúrs í Speglinum: http://www.ruv.is/sarpurinn/spegillinn/02012012