Leiðara dagsins hjá Já Ísland skrifar Einar Páll Svavarsson, stjórnmálafræðingur, um hin svokölluðu Ólafslög sem gengu í gildi árið 1979 og lögleiddu verðtrygginguna. Þá fjallar Einar Páll um þau alvarlegu áhrif sem þau hafa haft á almenning og heimilin í landinu, og nauðsyn þess að stjórnmálamenn geri stjórn efnahagsmála og aga í ríkisfjármálum að forgangsatriði. Einn valkostur í þeirri viðleitni sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Leiðarann má lesa í heild sinni hér að neðan.

Þeir græða sem skulda

Á árunum fyrir 1979 þegar hin svokölluðu Ólafslög gengu í gildi og lögleiddu verðtrygginguna með því að verðtryggja fjárskuldbindingar var umræðan almennt úthverf miðað við umræðu dagsins í dag.  Þá snérist umræðan um tap og skaða sparifjáreigenda og fjármagnseigenda en ekki auknar byrðar skuldara.  Á þeim tíma var umræðan öll á þann veg að þeir sem skulduðu væru alltaf að græða. Ein besta leiðin fyrir einstaklinga til að græða á þeim tíma var að skulda. Meira að segja var þetta svo hagstætt fyrir skuldara að margir sem keyptu fasteignir á árunum 1960 til 1979 borguðu aldrei nema hluta af kaupverðinu. Hið sama átti við um þá sem fengu lán í atvinnustarfsemi eða námslán. Í þá daga þótti alls ekki óskynsamlegt að taka 110%  lán til nokkurra ára, enda gulltryggt að aðeins þyrfti að greiða hluta lánanna til baka. Restina át verðbólgan, oft með ógnahraða. Vandamálið við að fá að taka þátt í þessari þversagnakenndu gróðaleið á þeim tíma með hressilegum og arðvænlegum hætti var að aðgangur að lánsfé var ákaflega takmarkaður, a.m.k. ef lánin voru til nokkurra ára. Slíkur aðgangur var oftar en ekki háður margflóknum spillingarreglum sem tengdust bæði stjórnmálum og forsvarsmönnum banka. Banka sem flestir voru ríkisbankar. Almenningur þurfti þess vegna yfirleitt að sætta sig við víxla, eða skammtímalán. Þegar Ólafslög gegnu í gildi breyttist þetta allt.

Þeir tapa sem skulda

Umræðan um verðtryggingu og afnám verðtryggingar í dag er að því leyti svipuð og áratuginn fyrir setningu Ólafslaga að hún snýst aðallega um afleiðingar en ekki kjarna málsins.  Alveg öfugt við umræðuna þá snýst umræðan í dag um gróða og ávinning sparifjáreigenda og fjármagnseigenda og auknar byrðar og tap skuldara.  Eftir setningu Ólafslaga hætti verðbólgan að éta upp höfuðstól lána en verðtryggingin byrjaði að éta upp eignina sem lánað var fyrir, a.m.k. framan af tímabilinu. Þ.e.a.s. þann hluta sem var umfram veðsetningu til tryggingar láninu. Verðtryggingin byrjaði þannig strax að éta upp höfuðstólinn sem fólk setti í húsnæði eða fyrirtæki, og flytja þá eign yfir til sparifjáreigenda og fjármagnseigenda með sjálfvirkum hætti, enda verðbólgan alltaf á sínum stað. Þeir sem entust út lánstímann og fengu að lokum eignina í sínar hendur, borguðu hins vegar margfalt meira fyrir lánið en ætla mátti út frá lánasamningum í upphafi og margfalt meira en fólk í öðrum löndum. Þannig byrjaði verðtryggingin fyrir tilstuðlan ákvæða Ólafslaga að afhenda sparifjáreigendum og fjármagnseigendum eignarhluti í stað þess að greiða þeim eingöngu eðlilega vexti af lánum.

Hugmyndin á bakvið lán er nefnilega sú að leggja grunn að eignarmyndun þess sem tekur lánið en ekki eignamyndun þess sem veitir lánið. Ávöxtun lánveitanda á eingöngu að felast í þeim vaxtakjörum sem aðilar verða sammála um.  Vextirnir eru tekjur lánveitanda rétt eins og álagning myndar t.d. tekjur verslana.  Eftir setningu Ólafslaga hefur það hins vegarverið nokkuð öruggt á Íslandi að sparifjáreigendur og fjármagnseigendur fá alltaf fyrirhafnalausa eignamyndun í skjóli langvarandi verðbólgu sem á rætur í úrræða- og agaleysi stjórnmálamanna gagnvart stjórn efnahagsmála.

T.d. ef ung hjón leggja nokkurra ára sparnað við upphaf sambúðar í íbúð, er sá hluti meira og minna kominn í eigu lánveitanda innan örfárra ára. Ef þau missa getuna til að klára kaupin og greiða lánið á lánstímanum fá þau aldrei höfuðstólinn til baka. Ef þau endast út lánstímann þurfa þau að greiða verulegar fjárhæðir umfram lánasamninginn, nefnilega verðbótaþáttinn, til að fá eignina til baka.  Þetta hafa margir kallað eignaupptöku og hefur verið áberandi séreinkenni á íslenskum efnahagsmálum um margra áratuga skeið. Ólafslögin voru þannig pólitíska ákvörðunin um að taka á afleiðingum en forðast að taka á vandanum sjálfum. Ákvörðun um að taka ekki á verðbólgunni en snúa sér alltaf að vandanum sem verðbólgan skapaði. Pólitísk ákvörðun sem framkallaði margs konar erfiðleika og skapaði lífskjör, skilyrði og félagsleg vandamál sem einkenndust af fjölskyldum sem „þræluðu myrkrana á milli“ en „náðu aldrei endum saman“ og eignuðust aldrei neitt. Lífskjör sem í marga áratugi hafa einkennst af fjölskyldum sem þrátt fyrir mikla vinnu lifðu megnið af starfsævinni bitin af sök í haugum vanskilatilkynninga, lögfræðihótana og oftar en ekki gjaldþrotameðferð.

Fyrst á röngunni svo á réttunni

Setning Ólafslaga og innleiðing verðtryggingar var þannig eins og viðbrögð einstaklings sem gengur um fjöll í miklum kulda á peysunni einni saman og ákveður að besta úrræðið til að verjast kuldanum sé að snúa peysunni á rönguna. Núna hefur hann gengið nokkuð lengi og nokkuð langt á röngunni og kuldinn hefur í sjálfu sér ekkert lagast og stormarnir verið margir og ekki minni. Umræðan í dag hjá mörgum stjórnmálamönnum einkennist samt sem áður af sama úrræðaleysi og þeirra sem settu og samþykktu Ólafslög nema núna virðist úrræðið vera að snúa peysunni aftur á réttunna með einhverjum óskilgreindum hætti. Þetta er að verða einhvers konar „tjú tjú trallla la“ grínstef við háalvarlega pólitíska umræðu sem snertir líf, kjör og tilveru fjölmargra almennra borgara, fjölmargra fjölskyldna, afkomu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og almennt flestra sem búa á Íslandi. Grínstef sem hefur gengið til margra áratuga en er alveg að hætta að vera skemmtilegt eða fyndið, fáir geta dansað með, mörgum er mjög kalt og margir sjá framá að verða úti.

Langlíf þverpólitísk samstaða um uppgjöf

Með Ólafslögum lýstu íslenskir stjórnmálamenn því yfir árið 1979 að þeir hefðu ekki getu, kunnáttu, aga, þrek eða vilja til að takast á við efnahagsstjórn eða stjórn peningamála. Með Ólafslögum settu þeir á sjálfstýringu efnahags- og peningamála með því að leiðrétta stöðugt efnahagsstjórnunarkompásinn með lánskjaravísitölu, neysluvöruvísitölu, byggingarvísitölu eða öðrum vísitölum sem Hagstofan setti saman. Leiðrétting sem hafði það markmið að sækja fjármuni í vasa almennings og rýra eignir almennra borgara í hvert skipti sem efnahagsstjórnin mistókst, sem var alltaf. Um þessa sjálfstýringu og þetta úrræðaleysi hefur verið grunsamlega víðtæk þverpólitísk samstaða meðal stjórnmálamanna um margra áratuga skeið. Það mætti eiginlega lýsa þessari samstöðu best með slagorðinu „alltaf gera ekki neitt“.

Stundum fyrir kosningar náðu stjórnmálamenn allra flokka áttum þegar verðbólgan hljóp á tveggja stafa prósentutölu og lýstu því yfir alveg svellkaldir og eiginlega reiðir að einmitt þá, í aðdraganda kosninga, væri mikilvægt að ráðast gegn „rótum verðbólgunnar“ eins og það hét í hátíðarræðum stjórnmálamanna í þá daga. Í dag er verið að segja nákvæmlega það sama í aðdraganda kosninga þegar einhver frambjóðandi hnyklar brýrnar og segir að það verði „að afnema verðtrygginguna“. Flestir stjórnmálamenn og ríkisstjórnir sem hafa stjórnað landinu eftir 1979 hafa fallið í þá gryfju að láta Ólafslögin stjórna megin þáttum efnahags- og peningamála fyrir sig með einum eða öðrum hætti með aðstoð gjaldmiðils sem gerir fátt annað en að rýrna og falla. Blæbrigðin hafa verið mörg og heita ýmsum virðulegum nöfnum í kennslubókum, skýrslum og greinum um hagfræði, eins og t.d. „fljótandi gengi“, „fastgengisstefna“ eða “verðbólgumarkmið“.

Tilfellið er að frá lýðveldisstofnun hefur ekki komið fram stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur sem hefur haft hughrekki eða framsýni til að takast á við „rót verðbólgunnar“ né að koma með raunhæfar tillögur sem duga til að „afnema verðtrygginguna“ varanlega til frambúðar. Flestar tillögur þeirra og úrræði eru hagfræðilegt skítamix.  Með Ólafslögum settu stjórnmálamennirnir á sjálfstýringu efnahagsmála sem hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir heimilin í landinu í marga áratugi, bæði fyrir og eftir hrun. Sjálfstýring sem þó virðist mjög þægileg út frá sjónarhóli stjórnmálamanna sem virðast kinnroðalaust hreykja sér á skuldabyrði almennra borgara þegar kemur að endurkjöri eða alvöru úrræðum. Og nú er svo komið að 90% af öllum deilum, ágreiningi, misklíð, málaferlum  og hatrömum pólitískum og hagsmunalegum slagsmálum þjóðarinnar eiga rætur í tveim þáttum.  Annars vegar verðtryggingunni og hins vegar gjaldmiðlinum.  Þetta á bæði við um stór og víðtæk mál  eins og lögmæti ákvæða í lánasamningum lánastofnana sem dómstólar landsins eru að útkljá þessi misserin, yfir í rétt til vörslusviptinga einstakra tækja og allt þar á milli.

Hvernig stjórnar maður landi?

Þegar við skoðum sögu efnahagsstjórnunar á Íslandi síðustu áratugina í samanburði við önnur vestræn ríki kemur í ljós að margt er öðruvísi hér.  Allan þennan tíma, jafnvel aftur til þriðja áratugar síðustu aldar, höfum við búið við sveiflukenndan gjaldmiðil, hærri vexti, meiri verðbólgu, hærra matarverð og hærra verð á neysluvöru. Mjög margt í þessum mismun má rekja til getu- og þekkingarleysis stjórnmálamanna til að taka á efnahagsmálum með ábyrgum og öflugum hætti út frá hagsmunum almennra borgara.  Sú staðreynd að við séum nánast eina ríkið í heiminum sem hefur búið við verðtryggingu fjárskuldbindinga um margra áratuga skeið segir töluverða sögu, eins óhagstæð og hún er fyrir almenna borgara og flest fyrirtæki landsins.  Og ekki síst í ljósi þess hversu lítillar virðingar slík efnahagsstjórn nýtur meðal annarra ríkja.  Miðað við hversu hagstæð verðtryggingin og gjaldmiðillinn hefur stundum verið fyrir ákveðinn hluta þjóðarinnar er ekki að undra að mörgum finnist samfélaginu stjórnað út frá sérhagsmunum en ekki hagsmunum hins almenna borgara, hagsmunum fjölskyldna og þeirra sem reka lítil og meðalstór fyrirtæki.

Þessu er t.d. alveg öfugt farið í mjög mörgum nágrannaríkjum okkar í Evrópu sem og öðrum vestrænum ríkjum sem við berum okkur saman við.  Þar hefur gjaldmiðillinn verið stöðugur, vextir eðlilegir og ásættanlegir, verðbólga minni, matarverð lægra og verð á almennum neysluvörum mun stöðugra og viðráðanlegra –áratugum saman.

Ein megin leiðin til að ná þessum markmiðum á rætur í virkri og árangursríkri efnahagsstjórn.  Efnahagsstjórn sem einkennist af aga en ekki agaleysi.  Þar hafa fimm atriði þótt skipta sköpum. Í fyrsta lagi að halli hins opinbera sé innan ákveðinna marka, í öðru lagi að skuldir hins opinbera séu ekki umfram ákveðið hlutfall af landsframleiðslu, í þriðja lagi að gengissveiflur gjaldmiðilsins séu óverulegar, í fjórða lagi að verðbólga sé langt innan við tveggja stafa tölu og í fimmta lagi að vextir séu eðlilegir eða í kringum 3 – 5%.  Þessi atriði þykja svo mikilvæg að þau eru sett sem skilyrði og viðmið sem ríki verða að uppfylla og fara eftir um ókomna framtíð ætli þau að gerast meðlimir í Evrópusambandinu. Skilyrði sem eru kennd við borgina Maastricht í Hollandi.  Þau þykja það árangursrík að jafnvel stjórnmálaflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem annars er á móti aðild að Evrópusambandinu og vill einnig slíta aðildarviðræðunum, tók öll þessi skilyrði upp sem sína stefnu á síðasta landsfundi með beinni tilvísun í Maastricht-skilyrði Evrópusambandsins.

Þetta eru semsagt þau fimm atriði sem stjórnmálaflokkar þurfa að útskýra fyrir þjóðinni hvernig þeir ætla að leysa núna þegar kosningar fara í hönd. Ekki bara með því að skreyta stefnuskrána með tilvísun í þessi atriði heldu hvernig þeir ætla að framkvæma þau. Hvernig þeir ætla að leggja grunn að stöðugleika fyrir almenna borgara. Hvernig þeir ætla síðan að tryggja þann stöðugleika um ókomna framtíð með því að sýna aga gagnvart stjórn efnahagsmála. Hvernig þeir ætla með trúverðugum hætti að rjúfa vítahring þeirrar eignaupptöku sem Ólafslögin hafa lagt eins og langvarandi áþján á fjölskyldurnar í landinu um margra áratuga skeið.

Ótvíræðir hagsmunir almennra borgara og eigenda lítilla og meðalstóra fyrirtækja að klára aðildarviðræðurnar.

Út frá umræðunni hér að framan er augljóst að almennir borgarar á Íslandi hafa mikla hagsmuni af því að stjórnmálamenn geri stjórn efnahagsmála og aga í ríkisfjármálum að forgangsatriði. Einn valkostur í þeirri viðleitni er að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið og skoða og meta hvort aðild henti okkur sem þjóð. Með því að gangast inn á Maastricht skilyrðin getum við í fyrsta skipti horft fram á veginn með nokkurri vissu um að hagsmunir almennra borgara séu settir í forgrunninn. Ef eitthvað er að marka nýlega skýrslu sérfræðingahóps Seðlabanka Íslands um valkosti okkar í gjaldmiðils- og gengismálum er þetta annar af tveim raunhæfum valkostum sem standa okkur til boða sem þjóð þegar kemur að úrlausn flestra þeirra mála sem plaga okkur þessi misserin. Úrlausn á vanda sem hefur þar að auki plagað fjölskyldur og heimili landsins um margra áratuga skeið. Þess vegna er mikilvægt að klára aðildarviðræðurnar. Með því að slíta þeim erum við að fækka valkostum okkar í afar þröngri stöðu úr tveim í einn.

Hin leiðin er að halda krónunni.  Miðað við stjórn efnahags- og peningamála undanfarna áratugi með allri þeirri eignaupptöku og öllum þeim deilum og félagslegu vandamálum sem því fylgdu er líka nauðsynlegt að stjórnmálamenn svari því hvernig þeir ætla að koma á efnahagslegum stöðugleika ef við höldum krónunni. Hvernig þeir ætla að skapa skilyrði til að hægt sé að afnema verðtrygginguna og hin hræðilegu ákvæði Ólafslaga?  Hvernig þeir ætla að tryggja stöðugleika í framtíðinni þegar fyrir liggur að efnahagsstjórn á þeim sömu forsendum hafi í meginatriðum mistekist um áratugaskeið í fortíðinni. Það er ekki boðlegt fyrir þjóð sem hefur búið við mistæka efnahagsstjórn og agaleysi stjórnmálamanna um áratugaseið að sjá ekki fram á úrlausn þessara mála með vissu í kosningunum sem fara í hönd. Að við þurfum að búa við mottóið „alltaf gera ekki neitt“ hjá stjórnmálamönnum á næsta kjörtímabili og hlusta á þá kveða „tjú tjú trallla la“ grínstefið áfram er algerlega óásættanlegt.  Við verðum að hafa báða valkostina vel skilgreinda fyrir framan okkur og hafa val. Leiðin sem þjóðin velur er leiðin sem stjórnmálamenn verða að far eftir á næsta kjörtímabili.  Annað hvort höldum við krónunni með gríðarlegum aga í stjórn efnahags- og peningamála eða við göngum í Evrópusambandið og göngumst undir Maastricth-skilyrðin sem hafa komið almennum borgurum vel í flestum ríkjum sambandsins til magra áratuga þrátt fyrir áföll og óásættanlega spillingu innan einstakra ríkja á undanförnum árum.

Þetta er valkostur sem við verðum að fá að skoða í samræmi við þann lýðræðislega feril sem aðildarviðræðurnar eru.  Við verðum að hugsa þetta út frá þeim hagsmunum sem við höfum sem þjóð, sem almennir borgarar, sem fjölskyldur og sem eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að hafa það sem stefnu að taka þennan lýðræðislega valkost frá okkur er gróf aðför að lýðræðinu og gróf aðför að efnahag heimila og fyrirtækja.