Árni Þór Sigurðsson þingmaður Vinstri grænna skrifaði grein í Fréttablaðið um helgina sem vakið hefur athygli, en í grein sinni hvetur hann til málefnalegrar umræðu um mögulega aðild Íslands að ESB í stað umræðu um að draga umsóknina til baka.  ,,Við Vinstri græn eigum að vera ódeig við að taka þátt í málefnalegri umræðu innan flokks og utan, beita rökum og afla sjónarmiðum okkar fylgis meðal þjóðarinnar, óháð því hvaða afstöðu hver og einn tekur þegar málið verður lagt fyrir þjóðina.“   Þá telur Árni Þór þá hugmynd um að draga umsóknina til baka slæma.  ,,Nú hafa komið fram hugmyndir um að rétt sé að draga ESB umsóknina til baka. Frá mínum bæjardyrum séð er það slæmur kostur. Það myndi að ég tel setja lok á frekari þjóðarumræðu um kosti og galla aðildar og koma í veg fyrir að þjóðin tæki ákvörðun á grundvelli upplýstrar umræðu og málefnalegra röksemda. Upplýst umræða og lýðræðisleg ákvörðun þjóðarinnar í kjölfarið er margfalt farsælli til lengri tíma litið en sú einfalda leið að ýta málinu út af borðinu. Slíkt á meira skylt við þöggun og það kemur ekki á óvart að harðlínuöfl í Sjálfstæðisflokknum vilji fara þá leið.“

Lesa greinina í heild sinni á Vísir.is.