Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði á fjölmennum hádegisfundi hjá Sterkara Íslandi í dag,  að krefjist Vinstri grænir þess að viðræðum við Evrópusambandið verði slitið og umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka þýddi það að ríkisstjórnarsamstarfinu yrði slitið og boðað yrði tafarlaust til alþingiskosninga.

“En auðvitað er eðlilegt að eiga við VG samtal um þessa þætti eins og aðra,“ sagði Árni Páll í samtali við jaisland.is. „Ég óttast ekki að eiga við þá samtal um aðstæður í Evrópu og hvort þær hafi þau áhrif að það verði síður fýsilegt en ella að ganga inn í Evrópusambandið.”

Árni Páll sagði að það hefðu verið mistök af hálfu Samfylkingarinnar að binda ekki betur um hnúta í stjórnarsáttmálanum til að koma í veg fyrir að ráðherrar VG gætu tafið fyrir framgangi aðildarviðræðnanna í sínum ráðuneytum eins og raun hefði orðið.

Fundarefnið var staða umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Um sextíu manns sátu fundinn, hlýddu á erindi Árna og svör hans við fyrirspurnum að því loknu.

Árni Páll kallaði í erindi sínu eftir því að betur þyrfti að útskýra og rökstyðja aðildraumsókn Íslands út frá íslenskum hagsmunum í alþjóðlegu samhengi. „Þá þýðir ekki að ræða málin eingöngu út frá fiski og landbúnaði. Það eru miklu ríkari hagsmunir sem búa að baki þessari aðildarumsókn,“ sagði Árni Páll. „Hún snýst hvorki meira né minna um það hvernig Ísland geti verið hluti af hinu alþjoðlega hagkerfi.“

Ákvörðun um að draga umsóknina til baka núna á sama tíma og við getum ekki uppfyllt skyldur okkar gagnvart EES – þeim eina samningi sem við eigum aðild að um aðgang að hinu alþjóðlega hagkerfi – mundi fela í sér einangrun Íslands.

Árni Páll sagði að það vantaði sárlega að greina með réttum hætti hvað farið hefði úrskeiðis í aðdraganda hrunsins hér á landi og hver þróun mála í Evrópu hefði orðið og hvernig hún hefði efnislega áhröf á möguleika okkar til þess að forðast nýtt hrun.

„Allt tal um að þetta sé evrukreppa og leiði af evrunni er kolrangt. Þessi lönd eru að glíma við ójafnvægi, sem er samkynja því sem við erum að glíma við, en afleiðingarnar eru aðrar þegar fjárflæði fer milli ríkja um gjaldeyrismarkaði.“

Árni Páll sagði að í tilfelli Íslands hefði gjaldeyrismarkaðurinn hrunið skyndilega en í tilfelli Evrópuríkjanna Í okkar tilfelli hrynur gjaldeyrismarkaðurinn en í tilfelli hinna ríkjanna komi vandræðin meðal annars fram á skuldabréfamarkaði þar sem ójafnvægið, sem birtist skyndilega og olli hruni krónunnar á Íslandi birtast komi fram í því að áhættuálag á sum ríki hækkar en lækkar á önnur.

Árni Páll sagði:

„Ég held að við verðum fyrst og fremst að meta íslenska þjóðarhagsmuni rétt, hverjar eru okkar þarfir og með hvaða hætti getur þetta litla land látið frelsi í viðskiptum virka.“

Árni Páll sagði að menn eigi ekki að líta svo á að evrópusinnar þurfi að kyngja „algjörlega óhugsað evrópskum reglum og það er heldur ekkert teikn um það að vera góður evrópusinni að telja að Ísland hafi ekki rétt til að standa á íslenskum hagsmunum á Evrópuvettvangi eða í Icesave-málinu.“

„Þvert á móti er það að vera góður Evrópusinni að standa fast á íslenskum hagsmunum á alþjóðavettvangi, það að vera góður Evrópusinni getur ekki kallað á að þurfa að bera fyrir borð grundvallarhagsmuni Íslands.“

Hann sagði að í dag væri vandinn sá að hvorki stjórnarandstaðan né heldur forysta ríkisstjórnarinnar tali fyrir Evrópusambandsmálinu á grundvelli greiningar á grundvallarhagsmunum þjóðarinnar á sviði efnahagsmála.

„Hætturnar sem okkur eru búnar af frjálsu flæði fjármagns eru mjög miklar og ég er fullur efasemda um að við getum réttlætt frjálsa fjármagnsflutninga án einhverra hagvarna fyrir íslenskt samfélag. Verkefnið er að finna hvernig þeim hagvörnum verði best borgið.

Er það innan ESB, verður það hægt með EES? Það hefur ekki verið hægt innan EES hingað til.“

Árni Páll sagði aðalatriðið að nálgast verkefnið af þeirri alvöru sem það krefst og að Ísland verði áfram hluti af alþjóðlegu umhverfi. Ekki verði bundinn endi á þá tilraun í frjálsum viðskiptum sem staðið hefur yfir á Íslandi undanfarin tæp 20 ár.

Árni sagði að á tíma EES samningsins, hefði Ísland í fyrsta skipti kynnst samfélagi sem byggðist á frjálsum viðskiptum, lausum undan efnahaglegu haftaveldi og ofurvaldi framleiðendaklíkna.

Árni Páll sagðist eiga erfitt með að sjá hvernig EES samningurinn geti orðið grundvöllur að óheftum fjármagnsflutningum sem tryggi Íslendingum aðgang að frjálsum alþjóðaviðskiptum á sama tíma og hér sé sjálfstæður gjaldmiðill. Þar af leiðandi þurfi þeir sem vilja draga umsókn um aðild að ESB að útskýra í smáatriðum hvernig þeir ætli sér að draga úr höftum.

“Þeir hafa enga heimild til að vísa til óræðrar framtíðar. Ef þeir vilja loka eina glugganum að frjálsum viðskiptum við umheiminn þurfa þeir að sýna fram á í smáatriðum hvernig þeir telja sig geta komið í veg fyrir nýtt hrun á forsendum EES-samningsins.”

Árni Páll sagðist hafa verulegar efasemdir um að EES-samningurinn gæfi okkur í núverandi mynd nægilegar hagvarnir að þessu leyti. Ekki væri útilokað að hægt væri að útfæra hann nánar en þá þyrfti að hafa allar dyr opnar.

Árni Páll vék einnig að því að innan EES væru að óbreyttri stjórnarskrá ekki til staðar heimildir til að framselja það vald sem þyrfti til þess að innleiða ýmsar úrbætur sem ESB hefur verið að gera á eftirlits- og regluverki með sinni bankastarfsemi.

Þá vitnaði hann til ummæla sem Jacques Delors, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, lét falla þess efnis að hugsunin með frjálsum fjármagnsflutningum hefði aldrei verið sú að fjármagnsfrelsi væri markmið í sjálfu sér heldur væri það til þess að gera önnur viðskipti möguleg. Frjáls flutningur fjármagns væri því síðastur í röðinni af fjórfrelsinu svonefnda og óþarfur ef ekki væri vegna frjálsrar farar fólks og frjálsra flutinga vöru og þjónustu.

Árni Páll sagði að í þessum ummælum hefði það falist að regluverkið hefði aldrei verið hugsað fyrir umhverfi eins og það sem nú er uppi 20 árum síðar þar sem frjálsir fjármagnsflutningar hafa getið af sér umfangsmikil alþjóðlegviðskipti með flóknar fjármálaafurðir sem leitt hefur til þess að fjármagnsfrelsið er orðið sjálfstæð uppspretta efnahagslegs óstöðugleika.