Í dag, þann 17. nóvember, birtist grein í Morgunblaðinu eftir Þórð Magnússon, stjórnarformann Eyris Invest, Marorku og fleiri fyrirtækja. Í grein sinni fjallar Þórður um erfiðasta viðfangsefni þeirra er standa að atvinnurekstri, en það eru að hans mati  „óvissa, stefnuleysi, hringlandaháttur og skammtímahugsun stjórnmálaflokka“. Þá bætir Þórður við að Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að vera gerandi í þáttum sem auka á þennan vanda.

Þórður fjallar um þær hugmyndir sem Sjálfstæðisflokkurinn er að ræða þessa dagana, um að hætta viðræðum við Evrópusambandið áður en fyrir liggur í hvað þeim samningi felst. Þórður telur þetta vera „merki um óábyrga nálgun og merki um að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki það afl sem þjóðin þarf nú til að styrkja framtíðarsýn þjóðarinnar“.

Þórður vill að Sjálfstæðisflokkurinn einbeiti sér að málum sem leiða til „aukinnar hagsældar, bættra skilyrða atvinnurekstrar og aukinnar atvinnuþátttöku og bættra kjara launþega“. Sjálfstæðisflokkurinn á að beina kröftum sínum að uppbyggingu til framtíðar, samkvæmt Þórði, til að hafa áhrif til góðs.

Loks nefnir Þórður að nauðsynlegt er að fá niðurstöður í þeim viðræðum við Evrópusambandið sem Alþingi samþykkti að fara í því tækifærin eru mikil.

Greinina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.