Guðmundur Andri ThorssonÁgæta fólk. Ég er hér kominn til þess að koma orðum að því sem liggur okkur öllum á hjarta, alls konar fólki úr öllum áttum, og það er þetta hér: Auk þess legg ég til að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu um það hvort aðildarviðræðum að ESB skuli haldið áfram.

Við komum úr öllum áttum, alls konar fólk, og við höfum alls konar skoðanir á alls konar málefnum og kjósum alls konar flokka en við höfum sem sagt tekið að okkur að gera þetta því að einhver verður að gera það: að minna drengina í gullfiskastjórninni á loforð sín. Þess þarf. Við þurfum að standa hér í öllum veðrum, aftur og aftur, til þess að halda lífinu í mestu lágmarkskröfu sem hægt er að hugsa sér: að menn standi við orð sín.

Við erum alls konar fólk með alls konar hugmyndir um lífið og tilveruna en við sameinumst samt hér um þessa sáraeinföldu kröfu sem við megum ekki leyfa þeim að stofna eitthver orðavafningaeignarhaldsfélag um til að visna þar og deyja – kröfu sem jafnvel gleymnustu stjórnmálamenn í heimihljóta að skilja: að þjóðin fái þær kosningar sem henni var lofað – að þjóðin fái að kjósa um áframhald aðildarviðræðna við ESB. Og í framhaldinu: að tryggt sé að eftir niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu verði farið af þeim þjónum almennings sem hlotnast sá heiður að framfylgja þjóðarvilja með ríkisstjórnarsetu og eru kallaðir ráðherrar og halda þess vegna stundum að þeir séu herrar okkar og ráði yfir okkur. Það gera þeir ekki. Við ráðum yfir þeim. Við stöndum hér, alls konar fólk, vegna þess að annað er ekki þorandi: ef við mætum ekki hér reglulega og látum heyrast í okkur og sýnum vilja okkar svo að fari ekki milli mála verður gullfiskastjórnin búin að gleyma öllu eftir viku og farin að taka fyrir okkur afdrifaríkar ákvarðanir sem hún hefur ekkert umboð til að taka. Enn er það nefnilega svo hér á landi, þrátt fyrir allt, að stjórnmálamenn eru bundnir af eigin loforðum fyrir kosningar, hvernig sem þeir engjast og hlykkjast um á öngli eigin orða og reyna að sleppa með setningunni sem er staðlaðri en skrúfustærðartilmæli frá Brüssel: Við teljum að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Hagsmunir. Það er annað af þessum orðum sem þeim eru svo töm sem tala til þess að bæla umræðu. Er verið að tala um ykkar hagsmuni? Hverjir eru þeir? Snúast hagsmunir mínir um réttinn til að kaupa sem allra dýrastan ost frá Mjólkursamsölunni og að Samherji fái úthlutað öllum marhnútakvóta næsta árs? Kannski það. Við erum alls konar fólk úr ólíkum áttum og við höfum örugglega alls konar ólíka hagsmuni, þannig lagað, en ég held þó að við við höfum öll hagsmuni af því að sjálft lýðræðiskerfið virki og að þegar menn komast til valda í krafti tiltekinna loforða reyni þeir að efna þau en láti ekki eins og móðgaðir gullfiskar þegar þeir eru minntir á þau. Og þess vegna stöndum við hér í alls konar veðrum, alls konar fólk, í alls konar skapi og okkur finnst alls konar um alls konar – við stöndum hér og höldum þannig gullfiskunum við efnið. Og þetta mjakast, við finnum að það er vor í lofti. Við sjáum það á flóttalegu augnaráðinu og heyrðum það á orðavafningunum sem flæktir eru inn í sífellt tilkomumeiri vífilengjur. Þeir eru að hopa. Þeir fallast nú með semingi á einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og það vitni um sérstakt veglyndi þeirra að ljá máls á að standa við eigin loforð og ég held að þeir séu núna að ræða orðalagið á spurningunni: Viltu nokkuð halda áfram að láta innlima Ísland í hið gráðuga heimsveldi ESB sem stjórnað er af nazi zombies?

Það er þó í áttina. Þetta er allt að koma. Og með þolinmæði og kærleika tekst okkur þetta. Og með því að mæta hér aftur og aftur. Við erum alls konar fólk með alls konar sérviskuog jafnvel hagsmuni og við eigum alls konar langömmur úr alls konar sveitum og þorpum – og við viljum öll að Ísland sé gott land og verði gjöfult sínum börnum um ókomin ár. Við viljum varðveita víðáttuna. Við viljum að þjóðarkrílið okkar geti borið höfuðið hátt sem þjóð meðal þjóða og fólk hugsi um okkur að við séum kannski ekki mörg en þó til ágætisfólk sem virði mannréttindi, við viljum að lífskjör séu góð og að ungt fólk hafi góða möguleika til þess að þroska hæfileika sína og geti unnið við störf þar sem þeir hæfileikar njóta sín. Þetta er ósköp einfalt og þetta er alls ekki til of mikils mælst. Og hún er ósköp einföld sú lágmarkskrafa að við fáum að vita hvaða valkosti Íslendingar hafa, eigi byggð að haldast hér í öðru formi en sem verstöð í eigu auðmanna í London af íslenskum ættum.  Og fáum að velja milli þeirra valkosta og láta þar ráða hagsmuni okkar og barnanna okkar.

Og því erum við öll hér – aftur og aftur – og þess vegna stend ég hér og segi aftur: Auk þess legg ég til að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu um það hvort aðildarviðræðum að ESB skuli haldið áfram.

Upptaka af ræðu Guðmundar Andra.