jon_kalmanEr ég á móti ríkisstjórninni, stend ég hér á Austurvelli, á þessum laugardegi, og ávarpa ykkur vegna þess að ég sé á móti ríkisstjórninni?

Ágæta fólk, ég stend hérna vegna þess að ég get ekki annað. Vegna þess að ég trúði að það væri, þrátt fyrir allt, hægt að taka mark á ítrekuðum loforðum stjórnmálamanna.

Sigmundur Davíð sagði nýverið í Kastljósi að ríkisstjórn, sem væri andsnúin inngöngu í ESB, gæti ekki haldið áfram viðræðum við sambandið, slíkt væri einfaldlega óheiðarlegt, ekki síst gagnvart Evrópusambandinu.

Gott og vel, það er skiljanlegt; en málið snýst einfaldlega ekki um þessa eða einhverja aðra ríkisstjórn, heldur um þá staðreynd, að ríflega 80 prósent þjóðarinnar vilja fá að greiða atkvæði um, hvort það eigi að halda viðræðunum áfram eða ekki. Og í lýðræðisríki á vilji þjóðarinnar að ráða för. Í lýðræðisríki er litið þannig á, að vilji þjóðarinnar sé stærri og mikilvægari en skoðun eða vilji þingmanna. Vilji íslensku þjóðarinnar er því rétthærri en skoðun Sigmundar Davíðs, eða Bjarna Benediktssonar.

Þetta ætti að vera augljóst; en í ljósi atburða síðustu vikna, þá er ég ekki viss um að þeir Sigmundur og Bjarni geri sér grein fyrir þeirri staðreynd, að ríkisstjórn Íslands er í þjónustu þjóðarinnar.

En þá vaknar spurningin: Ef ríkisstjórn er andsnúin vilja rúmlega 80 prósent þjóðarinnar, hundsar algjörlega 46 þúsund undirskriftir, og kokgleypir í viðbót margítrekuð loforð – fyrir hverja starfar hún þá?

Stjórnmálamenn verða að hafa sannfæringu, og fylgja henni; en þeir mega ekki ganga gegn þjóð sinni. Þá eru þeir að vinna gegn lýðræðinu. Hollusta þingmanna á fyrst og síðast að liggja hjá þjóðinni.

Og nú er sá tími runninn upp fyrir þingmenn stjórnarflokkana að sýna hvar hollusta þeirra liggur; hjá þjóðinni eða flokknum, hjá þjóðinni eða flokksforystunni? Ég spyr því ykkur stjórnarþingmenn, Einar K. Guðfinnsson, Unni Brá Konráðsdóttur, Harald Einarsson, Líneik Önnu Sævarsdóttur, og öll hin; hvar liggur ykkar hollusta? Hjá þjóðinni, og þar með lýðræðinu, eða hjá flokknum og forystu hans?

En ágæta fólk, hvað er það sem við viljum – erum við að fara fram á pólitískan ómöguleika, felur beiðni okkar í sér hættur fyrir þjóðina, þjóðarbúið, hagvöxtinn, atvinnulífið, skólakerfið? Nei, við viljum einfaldlega fá að kjósa um áframhald viðræðna. Persónulega tel ég nauðsynlegt að ljúka þeim. Þá fyrst verður hægt að ræða um ESB og Ísland af einhverju viti, með rökum, en ekki í upphrópunum, slagorðum, getgátum. Þannig umræða skilar engu; nema þá sundrungu, reiði og depurð. Eða er það kannski ætlun stjórnarflokkana, draumur þeirra, að halda ESB umræðunni í skotgröfunum, slagorðunum, útúrsnúningum, þar sem ekkert er í hendi, engrar niðurstöðu að vænta?

Það skyldi þó ekki vera.

Eða hvernig ber okkur að skilja atburði síðustu daga, og vikna.

Hvernig er hægt að skilja forstætisráðherra landsins, Sigmund Davíð, sem skrifaði undir jákvæða yfirlýsingu Framsóknarflokksins um ESB fyrir kosningarnar árið 2009, þrátt fyrir að hann væri alfarið andsnúinn innihaldi hennar.

Undirskrift er það sama og loforð. Undirskrift er staðfesting á því, að það sem á undan fer, sé skoðun manns og sannfæring. Er hægt að treysta manni sem skrifar undir bréf sem ganga þvert á sannfæringu hans? Og þá væntanlega eingöngu til að veiða fleiri atkvæði. Maður hlýtur því að spyrja: ef Sigmundi Davíð finnst sjálfsagt að ljúga með undirskrift sinni, hvenær segir hann þá satt? Er yfirleitt hægt að trúa því sem forsætisráðherra Íslands segir?

Ég lofa og ég lofa og ég lofa.

Þegar menntamálaráðherra landsins, Illugi Gunnarsson, var spurður út í loforð sín fyrir síðustu kosningar, um að þjóðin fengi að kjósa um áframhald viðræðanna, sagði hann:

„Augljóslega eru þessi ummæli til“.

Sumsé, ítrekuð loforð hafa á skömmum tíma breyst í ummæli. Getum við treyst manni sem breytir loforðum í ummæli?

Ég lýg og ég lýg og ég lýg.

Eigum við, rúm 80 prósent þjóðarinnar – við sem erum augljóslega til – að sætta okkur við svikin loforð, útúrsnúninga, jafnvel blákaldar lygar? Er það lýðræði þegar tæplega 40 þingmenn ganga augljóslega gegn vilja afgerandi meirihluta þjóðar?

Nei, það er eitthvað annað en lýðræði. Eitthvað allt annað.

Sigmundur Davíð segir að ríkisstjórn sem er andsnúin ESB geti ekki haldið viðræðunum áfram, slíkt væri einfaldlega óheiðarlegt, ekki síst gagnvart Evrópusambandinu. Pólitískur ómöguleiki. En það virðist pólitískur möguleiki að ganga gegn skýrum vilja þjóðar sinnar. Hans skoðun, hans sannfæring, er með öðrum orðum mikilvægari en vilji þjóðar.

Er ég á móti ríkisstjórninni?

Ágæta fólk, það er ekki rétta spurningin, heldur þessi hér: Er ríkisstjórn Íslands á móti þjóð sinni?

Upptaka af ræðu Jóns Kalmans