Katrin_fjeldstedORÐ SKULU STANDA

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er eitt af stærstu pólitísku málum síðustu áratuga. Áhugi almennings á umræðunni fer vaxandi og fólk vill vita meira um hvað málið snýst. Evrópusambandið er nefnilega komið á dagskrá.

Ekki kusum við um það hvernig að umsókninni var staðið í júlí 2009, rétt er það. Við Íslendingar höfðum skömmu áður lent í mestu erfiðleikum og niðurlægingu seinni ára, hruninu mikla. Nú er sú umsókn komin á spjöld sögunnar, er staðreynd, þetta er búið og gert.

Einhliða ákvörðun um um að draga til baka svo mikilvæga umsókn má kalla misvitra atlögu að almenningi hér á landi og ber vott um að gjá sé enn milli þings og þjóðar.

Það liggur fyrir sá vilji kjósenda að láta ljúka viðræðum Íslands við ESB og yfir 50þús manns hafa undirritað áskorun þess efnis. Almenningur sér að Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og ASÍ eru sammála, aðilar vinnumarkaðarins eru sammála……óvenjulegt kannski, en segir sína sögu. Og eru þá stjórnvöld að leggja við hlustir? “Leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi og tortryggni”…..eins og segir í samstarfssamningi stjórnarflokkanna? Nú gefst einmitt kjörið tækifæri til þess. Sá samtakamáttur verður hins vegar ekki virkjaður nema stjórnvöld taki höndum saman við aðila vinnumarkaðarins og almenning í landinu. Við erum ekki alþingi götunnar heldur venjulegir kjósendur sem höfum myndað okkur ákveðna skoðun og látum hana í ljós saman: Við viljum þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðnanna í samræmi við almenna skynsemi og gefin kosingaloforð.

ORÐ SKULU STANDA

Í vinnu stjórnlagaráðs að gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir lýðveldið Ísland voru lagðar línur um aukin áhrif almennings á ákvarðanir stjórnvalda. Það að koma saman hér á Austurvelli laugardag eftir laugardag og krefjast þjóðaratkvæðis um hvort draga eigi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka er algjörlega í anda þeirrar vinnu sem lögð var í endurskoðun á stjórnarskránni. Stjórnvöld gátu ekki klárað það mál, því miður. Traust almennings til þingsins beið hnekki og ekki í sjónmáli að það batni, því miður.

Hér á landi hafa endalausar deilur einkennt síðustu ár. Þeim þarf að linna. Við verðum að komast að samkomulagi um framtíðina, um stjórnarskrá, um umhverfismál, um það líf sem við viljum eiga hér saman. Hvort við göngum í ESB eða ekki, hvort við tökum upp evru eða ekki. Um þau kjör og valkosti sem börnum okkar og barnabörnum bjóðast í námi og starfi. Við viljum allavega auka efnahagslegan stöðugleika, bæta lífskjör, lækka vexti.

Meirihluti landsmanna á að ráða því hvort við göngum í ESB, ekki meirihluti þingsins nema kosningar snúist beint um það mál og vilji kjósenda hafi þannig komið fram. Svo er ekki nú. Í kosningunum í fyrra ætluðu flokkarnir helst ekki að láta kjósa um Evrópumál, ekki setja þau á oddinn en svo fór samt að frambjóðendur urðu að svara spurningum um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Yfirlýsingar gefnar þá fóru ekkert á milli mála. Sjálfstæðismenn gáfu það út að kosið yrði um framhaldið. Þeir komast ekki frá því með sóma að svíkja það.

ORÐ SKULU STANDA

Í vinnu stjórnalagaráðs að nýrri stjórnarskrá voru lögð drög að leikreglum þar sem aðkoma almennings er tryggð á mun réttlátari hátt er nú er. Þar kemur fram viðurkenning á því að fólk eigi að geta haft áhrif á gang mála í þjóðfélaginu. Upplýstur almenningur á Íslandi vill ekki lengur láta deila og drottna heldur kynnir sér málin, tekur afstöðu og heldur stjórnvöldum við efnið svo þau stefni málefnum ekki í rangan farveg.

Þingsályktun um að draga aðildarumsókn Íslendinga til Evrópusambandsins til baka finnst mér misráðin og að hún hljóti að hafa verið gerð af fljótfærni. Ef ekki, var hún þá kannski einhvers konar yfirlýsing til þjóðarinnar um að ríkisstjórnin hafi kjark og þor í erfiðri stöðu? En staðan er alls ekkert erfið, þar liggur misskilningurinn. Og þetta er ekki einkamál stjórnmálaflokkanna heldur mál allrar þjóðarinnar. Það er alveg óhætt að treysta þjóðinni. Vönduð upplýsingagjöf til okkar, vönduð vinnubrögð valinkunnra sæmdarmanna við samningaborðið, þannig á að vinna þetta. Einhliða misráðin ákvörðun þingsins hugnast okkur ekki. Hver sem afstaða okkar er til endanlegrar aðildar kann að vera viljum við fá að láta skoðun okkar í ljós um stöðuna nú.

Það fyrirfinnast samt jákvæðar afleiðingar þessarrar þingsályktunar. Fleiri og fleiri kynna sér málið og taka afstöðu með okkur sem viljum að þjóðin hafi meira um mál af þessari stærðargráðu að segja en stjórnmálamenn vilja leyfa.

Fyrir ári síðan voru haldnar þingkosingar og þá lyftist brúnin á mörgum kjósandanum, því fyrirheit stjórnmálaflokkanna gáfu til kynna að birt gæti til í þjóðfélaginu þótt stjórnarskrármálinu væri klúðrað illilega undir lok síðasta kjörtímabils. Meðal annars var því lofað fyrir kosningar af Sjálfstæðismönnum að kosið yrði á kjörtímabilinu um það hvort halda ætti viðræðum við Evrópusambandið áfram. Jafnvel við fyrsta tækifæri. Þingsályktunartillaga sú sem lögð var fram á þinginu gengur beint gegn því loforði.

ORÐ SKULU STANDA

Hér á Íslandi er upp á svo margt að bjóða. Falleg náttúra, gott fólk. Hver og einn á að geta unað svo glaður við sitt, en til þess þarf samvinnu, traust. Samstarf og samvinnu, traust.

Ég var í pólitík meira og minna frá 1982 til 2007 en ekki lengur. Sit á friðarstóli eins og það er kallað og er að sinna öðrum verkefnum. Ég get bara ekki orða bundist við aðstæður sem þessar og hvet þingmenn til að hafa að leiðarljósi það að leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi og tortryggni.

Það er mun meira gaman saman og þjóðinni til heilla.

Ég vil hvetja til vitrænnar umræðu um Evrópusambandsaðild. Já eða nei, þjóðin á að ráða því. Það er engin ástæða til að draga umsóknina til baka þótt núverandi stjórnarmeirihluti hafi ekki áhuga á henni. Oft þarf að gera fleira en gott þykir.

Best væri að halda viðræðum áfram, fá niðurstöðu í þau atriði sem skipta okkur mestu og kjósa síðan um samningsdrögin.

Loksins eru málefni Evrópusambandsins komið á dagskrá í umræðunni hér á landi og kominn tími til.

Upptaka af ræðu Katrínar Fjeldsted.