margret_gudmundsdottirÁgætu fundarmenn,

Það er ánægjulegt að sjá svona marga saman komna hér á Austurvelli í dag enda fullt tilefni til.

Í samstarfssáttmála núverandi ríkisstjórnar segir orðrétt:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.
Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins“.  Tilvitnun lýkur.

Miðað við þann fjölda sem hefur skrifað undir áskorun um að við fáum að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður og það ofurkapp sem ríkisstjórnin virðist leggja á það að slíta aðildarviðræðum þá er ekki hægt að segja að orð og athafnir ríkisstjórnarinnar fari saman miðað við þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar.  Og það er slæmt.  Það skapar glundroða og vantraust.

Ríkisstjórn Íslands er ríkisstjórn allra landsmanna.  Þannig verður hún að hefja sig upp yfir áherslur þröngra hagsmunahópa og ekki bara vinna fyrir þá sem kusu hana heldur líka fyrir hina.
Innganga í Evrópusambandið er stærra mál en afstaða einnar ríkisstjórnar á einu kjörtímabili.  Hún er ekki bara pólitísk hún er líka tilfinningaleg.  Þess vegna viljum við láta hlusta á okkur og þess vegna viljum við taka þátt.

Í gær bárust þær fréttir eftir að ljóst var að fylgi við ríkisstjórnarflokkana hefur hrunið að þeir teldu að þeim hafi ekki tekist að koma sínum skilaboðum til skila til kjósenda.
Það er mjög rangt,  það er einmitt þess vegna sem viðbrögðin svona sterk.  Atvinnulífið í landinu, verkalýðssamtök og almenningur, við erum samstillt í afstöðu okkar að reyna að ná athygli ríkistjórnarinnar og fá þá virðingu sem við teljum okkur eiga skilið.
Hlustið á okkur!

Skilaboð þjóðarinnar til ríkisstjórnarinnar í dag eru skýr.  Þið eruð ekki að vinna fyrir okkur.
Skv. skoðanakönnunum vilja yfir 80% þjóðarinnar fá að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður og yfir 40 þúsund hafa ritað nafn sitt á undirskriftarlista.

Þið eruð menn að meiri ef þið þorið að draga í land en það er það eina rétta í stöðunni.

——–

Ræða Margrétar Guðmundsdóttur