magga

RÍKISSTJÓRN  ÁN  VERKSVITS?

 Ágæta samkoma

Aðilar vinnumarkaðarins – Samtök atvinnulífsins og ASÍ standa að vissu leyti á krossgötum.   Eftir áralanga hrinu launahækkanna sem skiluðu svo til engu í vasa launamanna settust menn niður fyrir rúmu ári og endurmátu  stöðuna.  Var hægt að gera hlutina með öðrum hætti?  Var t.d hægt að ná þeim árangri sem nágrannar okkar á Norðurlöndunum hafa náð?

Og kjarasamningar fóru í hönd – erfið lota þar sem menn tókust harkalega á en sem lauk með samningi sem fólst í blandaðri leið.   Leið sem byggir í fyrsta lagi á hóflegum launahækkunum, en í öðru lagi á atriðum þar sem ná á auknum kaupmætti eftir fleiri leiðum.  Þar var ekki síst stefnt að lægri verðbólgu, verðaðhaldi, lækkun tolla og vörugjalda sem áratugum saman hafa keyrt upp  matar- og vöruverð til heimilanna og svo mætti áfram telja.

En þetta var ekkert auðveld leið – enda voru samningarnir felldir hjá tæplega helmingi félagsmanna ASÍ – en hafa nú verið samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim félögum sem felldu þá fyrr á árinu.  Því það var í raun vantrú á verkefnið – vantrú á stöðugleikann og hjöðnun verðbólgu sem felldi samningana.   Í millitíðinni sáu menn hins vegar að þessi leið var fær – sáu að þessi leið gat virkað ef allir stæðu saman.    Verðbólga komin niður í 2,1% og sjálfur Seðlabankinn farinn að sjá stýrivaxtalækkun í sjóndeildarhringnum.

Við þessar aðstæður þegar SA og ASÍ eru virkilega að reyna að brjóta upp úrelt kerfi – virkilega að reyna að vanda sig – þrátt fyrir ágjöf úr eigin röðum – þá hélt maður að ríkisstjórnin myndi standa þétt upp við bakið á aðilum vinnumarkaðarins.  Leggja sitt af mörkum – og skapa það umhverfi sem þarf til að vinna brýnum hagsmunamálum þjóðarinnar brautargengi þ.a. lífskjör okkar verði betri á morgun en þau eru í dag.

En nei – ríkisstjórnin ákveður með einhverjum óskiljanlegum hætti að setja í forgang að rjúfa friðinn í samfélaginu þ.a. hér hefur allt logað stafna á milli í tvær vikur.   Þetta er sama ríkisstjórnin og setti í öndvegi í sinni stefnuyfirlýsingu að „vinna gegn sundurlyndi og tortryggni ……í samfélaginu.“   Það var og.   Þetta er ríkisstjórn sem hefur séð til þess að öll orka samfélagsins undanfarna daga hefur farið í mál – sem við þurfum ekki að vera að eyða orku í í akkúrat núna.   Þetta heitir að hafa lítið verksvit.

Á meðan bíða brýn m

ál úrlausnar eins og uppgjör gömlu bankanna og losun hafta sem er hægt og bítandi að draga allan þrótt úr íslensku atvinnulífi.  Okkur vantar súrefni – við erum innilokuð í drullupolli sem sumir  eru reyndar farnir að sjá í skagfirskum ljóma  sem fallegasta drullupoll í heimi.  Í þessum polli velur ríkisstjórnin síðan að rugga bátnum án nokkurs tilefnis með því að henda einni árinni fyrir borð.

Er aðild að ESB eini möguleiki okkar – eða besti möguleiki okkar?  Ég veit það ekki – en hann er sá eini sem enn er upp á borðinu.   Og ef þú ert í vanda sem þú veist ekki hvernig þú ætlar að komast út úr – ef þú ert sjálfur ekki með neitt plan – þá útilokar þú ekki eina möguleikann sem þó er í stöðunni.  Það heitir að hafa ekkert verksvit.

Þegar við vöknum á morgnana þá bíða okkar fullt af verkefnum – og flest okkar forgangsraða þeim.  Tökum mikilvægasta málið fyrst og reynum að leysa það og síðan koll af kolli.  Þegar þú sérð ekki fram úr verkefnunum sem skipta velferð þíns fyrirtækis eða heimilis öllu – þá stendur þú ekki upp og ferð að þurrka af – enda er rykið ekkert að fara.  Það heitir enn og aftur að hafa ekkert verksvit.

Við erum með ríkisstjórn sem hefur sýnt að hún hefur ekki gott verksvit.  Það er bagaleg staða fyrir hverja þjóð.

Framkoma ríkisstjórnarinnar undanfarna daga vekur hins vegar upp meiri ugg  hjá mér en upphaflega tillaga hennar um viðræðuslit.   Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ítrekað orðið uppvís að því að ljúga að þjóðinni, orðið uppvís að því að svíkja bæði munnleg og skrifleg loforð og engar eftir-á-skýringar hennar haldi vatni – þá forherðast sumir ráðherrar í afstöðu sinni til viðræðuslita í stað þess að sjá að sér.

Og ég spyr mig hvers vegna?  Þegar um 82% þjóðarinnar vill fara aðra leið en ríkisstjórnin boðar og keyra á málið áfram án sýnilegrar ástæðu – þá fer að renna kalt vatn milli skinns og hörunds á mér.  Er til í dæminu að ríkisstjórn Íslands – ríkisstjórnin okkar sé ekki að vinna í okkar þágu – sé ekki að vinna í þjóðarhag?  Lúra einhverjir sérhagsmunir á bak við tjöldin sem skeyta lítt um okkur – svo lengi sem þeir skara eld að eigin köku?

Getur það verið að það séu til þau öfl í landinu sem vilja í raun loka á þann möguleika okkar að sjá fullmótaðan samning við ESB.   Og er það hugsanlega vegna þess að við Íslendingar gætum náð samningi sem eykur lífskjör okkar langflestra – en fámennir hópar gefi sér á sama tíma fyrirfram – að þeir gætu misst spón úr sínum aski?   Er vísvitandi verið að koma í veg fyrir að við getum tekið upplýsta ákvörðun hvar framtíðarhagsmunum okkar og barnanna okkar er best borgið.  Og ef þessi öfl eru í raun til – hafa þau það tangarhald á ríkisstjórn Íslands að hún leggi ekki í að spyrna við fótum?

Því mun ég fyrirfram aldrei trúa.   Enda hefur íslenska þjóðin sagt það skýrt undanfarna daga að hún mun aldrei sætta sig við slíkt.

Síðan segja gárungarnir að þetta sé einfaldlega allt á misskilningi byggt hjá forsætis- og fjármálaráðherra þjóðarinnar – enda flestar erlendar skammstafanir þeim þyrnir í augum.  Hins vegar hafi þeir misskilið frá upphafi hvað ESB standi í raun fyrir og því sé heiftin svo mikil.  Þeir halda einfaldlega að ESB standi fyrir:   „Ekki Sigmundur og Bjarni“.

En að lokum þetta:

Þessi ríkisstjórn var ekki kosin út af því að flokkarnir sem að henni standa voru á móti aðild að ESB.  Þessi ríkisstjórn náði meirihluta ekki síst út á það – að hún lofaði þjóðinni að hún fengi sjálf að ráða í því máli.

Ég spyr ríkisstjórn Íslands sem situr við völd og heldur vonandi sjálf um stýrið:  „Ætlar hún að stuðla að sátt og samstöðu  – eða ætlar hún að svíkja sína þjóð?   Já eða nei?“

Upptaka af ræðu Margrétar Kristmannsdóttur