smari_carthyÞýski evrópuþingmaðurinn Willi Rothley talaði um þing sem pylsuvélar – das wurstmaschine. Hann sagði að pylsuvélin þyrfti alltaf að vera að framleiða eitthvað, hún verður alltaf að spila sitt hlutverk, alveg sama hvort það væri gagnlegt eða ekki.

Pylsuvélarnar okkar Íslendinga eru tvær. Annars vegar er pylsuvélin hér á Austurvelli, og hinsvegar er pylsuvélin á Luxemborgartorgi í Brussel. Önnur þeirra fær hráefnið sitt úr steinhúsi við Lækjargötu, og hin fær hráefnið sitt úr glerbyggingu á Schumanntorgi. En báðar búa til pylsur.

Þegar við tölum um Evrópusambandið gleymum við því stundum að þetta snýst bara um pylsur. Sumir vilja bara íslenskar pylsur, aðrir vilja fá útlenskar pylsur úr pylsuvélinni á Place de Luxembourg.

Evrópusambandsumræðan mun einhvern daginn snúast um það hverskonar pylsu eigi að búa til. Hún mun einhverntíman snúast um hvar eigi að framleiða pylsuna, og hvernig hún eigi að vera á bragðið. En ekki í dag.

Í dag erum við að heimta að við verðum spurð álits áður en viðskiptabann er sett á pylsur frá Place de Luxemborg. Ekki vegna þess að við viljum endilega pylsurnar þaðan, heldur vegna þess að við viljum kannski geta skoðað úrvalið.

Fólk hefur rosalega misjafnar skoðanir á Evrópusambandinu. Margir eru hlynntir inngöngu, margir vilja vera fyrir utan. Sumir eru eins og ég, og eru ekki alveg vissir. Ég sé margt jákvætt við Evrópusambandið, og margt neikvætt. Margt gott en margt gallað. En það skiptir ekki höfuðmáli í dag.

Það sem skiptir máli í dag er að almenningur fái að taka þátt í ferlinu. Þetta snýst allt um að ákveða. Þetta snýst allt um hvernig ákvarðanirnar eru teknar. Þetta snýst, í raun, um vald. Hver hefur valdið. Samkvæmt stjórnarskránni er það þingið. Fólkið skiptir minna máli. Það þarf að breytast. Fólkið á að ráða.

Ísland er ekki þingbundið lýðræðisríki, það er ríkisstjórnarbundið þingræðisríki, þar sem fólkið í pylsuvélinni hérna við Austurvöll getur ákveðið að gera nokkurn vegin hvað sem því sýnist. Við, sem einstaklingar, erum aukatriði. Okkar skoðanir skipta ekki máli.

Undanfarin ár hefur myndast sú hefð að almenningur sé spurður, svona kannski öðru hverju, hvað þeim finnst um allskonar mál. Fyrir rúmu ári síðan varð til ný hefð, þar sem þingið ákvað að það væri líka bara stundum allt í lagi að hundsa fólk ef svarið hentaði ekki. Nýja stjórnarskráin var drepin því hún hentaði ekki.

Hefðum við fengið nýja stjórnarskrá þá værum við ekki standandi hér í dag. Undirskriftirnar hefðu dugað til að koma okkar vilja í ferli. Ferli sem leyfir okkur að framleiða þá pylsu sem okkur langar í. En það fór sem fór og nú erum við hér.

Hefðin er orðin að hefð og nú heldur þingið að það komist upp með að spyrja okkur ekki álits.

Hvað tölum við um þegar við tölum um Evrópusambandið? Við tölum um vald og réttindi, um auðlindir og almannahag. Við tölum í rauninni um alla þá hluti sem við ættum alltaf að vera að tala um þegar við tölum um lýðræði. Þetta snýst ekki um Evrópusambandið frekar en þetta snýst um pylsugerð.

Þetta er voðalega einfalt mál: við erum að biðja um lýðræði. Rétt til að taka ákvarðanir fyrir okkur sjálf.

Lýðræðiskrafan á þessari öld er ekki bara að fá að kjósa á fjögurra ára fresti. Hún er að við getum fengið að hafa puttana í ferlinu, að við getum tekið þátt, og að ákvarðanir séu ekki teknar án þess að við séum spurð álits. Hún er að það sé ekki logið að okkur, að við séum ekki svikin. Krafan er einföld: meira lýðræði.

Hvað það þýðir fyrir deiluna um hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið er spurning fyrir annan dag. Í dag gerum við kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald á viðræðum. Niðurstaða almennings ráði ferðinni, en ekki dúttlungar ríkisstjórnarinnar.

En við ættum ekki að hætta þar. Við viljum aukið lýðræði í allri ákvarðanatöku og við viljum það strax.

Upptaka af ræðu Smára.