svana-hÁgætu fundarmenn!

Þjóðskáldið og frumkvöðullinnEinar Benediktsson kvað Íslandsljóð sem hefst á þessari hendingu:

Þú fólk með eymd í arf!
Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,
litla þjóð, sem geldur stórra synda,
reistu í verki
viljans merki, – vilji er allt sem þarf.

Hefur þjóðin vilja? Já, hún hefur einbeittan vilja um það að fá að ráða sínum örlögum sjálf. Nú býr hún við stjórnvöld sem ganga gegn vilja hennar og hefta hann.

Þjóðin fól fulltrúum sínum fullveldi sitt í kosningum fyrir 11 mánuðum. Nú vill meirihluti þessara fulltrúa nýta fullveldi þjóðarinnar til þess að ganga gegn vilja hennar, til þess að brjóta niður það sem áður hafði verið byggt upp.

Þjóðin vill kjósa um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Hún vill kanna til hlítar kosti þess og galla að gerast aðili að Evrópusambandinu þar sem fyrir eru flestar vina- og samstarfsþjóðir okkar til áratuga og alda.

Með EES-samningnum njóta fyrirtækin á Íslandi aðgangs að innri markaði Evrópu. Þau geta selt flestar vörur sínar án hindrana á markaði sem telur um 500 milljónir manna. Einnig njóta þau rannsókna- og þróunarsamstarfs sem felur í sér yfirfærslu þekkingar til Íslands og er grunnur að stofnun nýrra fyrirtækja hér á landi.

Fólkið í landinu nýtur þess að geta farið til Evrópu til náms eða starfa án mikilla hindrana. Þetta hafa tugþúsundir Íslendinga nýtt sér síðan EES samningurinn gekk í gildi fyrir 20 árum.

Eru þessi gæði sjálfsögð? Því miður er svarið nei. Með því að skella hurðum í aðildarviðræðunum stofnar ríkisstjórnin EES-samningnum í hættu.

Við lifum í hörðum heimi alþjóðlegrar samkeppni á flestum sviðum. Til að bæta lífskjör okkar þurfum við aukinn hagvöxt, meiri framleiðni atvinnulífsins og enn meiri útflutningstekjur. Við þurfum innlendar og erlendar fjárfestingar, en til að svo megi verða þurfa stjórnvöld að vera trúverðug og sýna ábyrgð. Við höfum sem þjóð tapað trausti og það þarf að endurheimta. Það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér.

Hugvitið er hin vannýtta auðlind íslenskrar þjóðar. Uppskrift nýsköpunar er: hugvit og verkvit í bland við siðvit.

Ástandið á Íslandi er ekki gott um þessar mundir. Gjaldmiðillinn er í höftum og hvergi gjaldgengur í viðskiptum nema hér á landi.

Ísland er ekki lengur nægjanlega aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki.

Fólk og fyrirtæki flytja úr landi enda bjóðast víða betri skilyrði en hér. Með því að slíta viðræðunum festir ríkisstjórnin þetta ástand í sessi og býður ekki upp á nein úrræði í staðinn. Hún hefur ekkert plan og enga lausn og með þessu sleifarlagi verður aldrei hægt að aflétta höftunum.

Krónan var í höftum í rúma sex áratugi fram til 1995. Hvað verður haftatímabilið langt sem hófst árið 2008?

Er þetta vilji kraft- og dugmikillar þjóðar sem reis úr örbirgð til allsnægta á síðustu öld?

„Vilji er allt sem þarf“ sagði þjóðskáldið. Hafði það rétt fyrir sér? Er vilji þjóðarinnar allt sem þarf – eða eru sérhagsmunaöflin svo sterk að þau geti hindrað að vilji þjóðarinnar nái fram að ganga?

Áfram yrkir þjóðskáldið:

Trúðu á sjálfs þín hönd, en undur eigi.
Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.

Við viljum ekki að stjórnvöld séu „þúfa í vegi“ og hindrun fyrir starfi fólks og fyrirtækja.

Við krefjumst þess að stjórnvöld viðurkenni vilja þjóðarinnar og standi við gefin loforð. Þau loforð eru forsenda þess að við leyfum þeim að fara með fullveldi okkar.

Upptaka af ræðu Svönu Helenar.