svanur_kristjansson

Draumurinn um lýðveldi

17. júní 1944 var ekki dagur sólar og sumarhita á Þingvöllum.

Nei þvert á móti. Það rigndi, rigndi og rigndi allan daginn.

Þar að auki var hvassviðri og rok.

Um 25.000 manns – 20% Íslendinga -höfðu safnast saman utandyra til hátíðarhalda í þeirri bjartsýni og von – sem löngum hefur verið okkar gæfa.

Jafnvel hamslaus rigningin 17. júní 1944 hafði sína kosti að því er sagt var um þennan dag – því eins og sr. Sigurbjörn Einarsson benti á – þá ilmar birkið aldrei betur en eftir rigningu.

Fólkið á Þingvöllum fékk því ilm bjarkarinnar í morgungjöf þegar upp rann – bjartur og fagur – 18. júní 1944, fyrsti dagur eftir stofnun hins nýja lýðveldis .

Þannig var öllu snúið til betri vegar því að í huga þjóðarinnar var sólskin.

Í hjörtum fólksins var von.

Langþráður draumar þjóðarinnar um eigið lýðveldi var loksins að rætast.

Í þjóðaratkvæðagreiðslum höfðu Íslendingar kveðið upp sinn endanlega úrskurð.

Verið var að framfylgja vilja þjóðarinnar um nýtt lýðveldi og nýja stjórnarskrá.

Lýðveldisstjórnarskráin er merkileg, afar merkileg.

Í aðdraganda stofnunar lýðveldisins urðu mjög harðar deilur um hvers konar lýðveldi ætti að stofna, hvers konar lýðræði ætti að vera í hinu nýja Íslandi. Valdakarlarnir höfðu áformað að alvald Alþingis og ríkisstjórnar yrði tryggt með nýrri stjórnarskrá.

Alþingismenn treystu einungis sjálfum sér til að velja forseta Íslands.

Þeir treystu ekki þjóðinni til að kjósa forseta landsins.

Að þeirra mati áttu síðan Alþingismenn einir að hafa skilyrðislaust vald yfir forseta lýðveldisins og geta vikið honum frá völdum – hvenær sem þeim þóknaðist –af hvaða tilefni sem væri.

Alþingismenn gætu þannig umsvifalaust vikið þeim forseta frá völdum – sem vísaði til þjóðarinnar lagafrumvarpi sem Alþingi hefði samþykkt.

Forseti Íslands átti semsagt að vera undirgefinn þjónn Alþingis.

Áform ráðamanna um alvald – sér til handa- náðu ekki fram að ganga.

Í hörðum deilum og átökum í aðdraganda lýðveldisstofnunar bar þjóðarviljinn sigurorð af þingviljanum.

Fólkið vann en ráðastéttin tapaði.

Með stjórnarskrá lýðveldisins ætlaði nefnilega íslenska þjóðin að skapa skilyrði fyrir nýsköpun lýðræðis.

Forseti lýðveldisins skyldi valin af þjóðinni, kjörinn í beinni kosningu með landið allt sem eitt kjördæmi og öll atkvæði jafngild.

Forsetinn hefur sjálfstætt umboð frá þjóðinni, til hennar sækir hann sitt umboð – ekki til Alþingis, ekki til ríkisstjórnar.

Á þessum tíma var forseti Íslands eini forsetinn í lýðræðisríki – ég endurtek eini forsetinn í lýðræðisríki – sem kjörinn var beinni kosningu af þjóðinni.

Með þjóðkjöri forsetans kviknaði einnig til lífs stjórnarskrárvarin og sjálfstæður réttur forseta Íslands.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins hefur forseti Íslands skilyrðislausan rétt til að staðfesta ekki lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.

Slík frumvörp eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef að ágreiningur er á milli þings og þjóðar í mikilvægum málum skal þjóðin ráða.

Það er hin íslenska leið til lýðræðis.

Hin íslenska leið til lýðræðis er skráð skýrum stöfum í stjórnarskrá lýðveldisins.

Á árunum eftir lýðveldisstofnun var mikill og djúpstæður ágreiningur á milli meirihluta ráðahópsins annars vegar og þorra þjóðarinnar hins vegar. Ágreiningsmálin voru tvö:

Fyrra ágreiningsmálið milli þjóðarinnar og ráðamanna var að þjóðin vildi viðhalda hlutleysi Íslands.

Þjóðin vildi halda í heiðri yfirlýsingu sína frá 1918 um að Ísland skyldi vera ævarandi hlutlaust land.

Enginn her ætti að vera í landinu, ekki innlendur her – hvað þá heldur erlendur her.

Margir ráðamenn vildu hins vegar að Íslendingar gerðust sérstök bandalagsþjóð Bandaríkjanna og að bandarískum stjórnvöldum yrði leyft að hafa herstöð á Íslandi – jafnvel þó að heimsstyrjöldinni væri lokið.

Seinna ágreiningsmálið á milli þjóðarinnar og ráðahópsins var að þjóðin vildi að staðið væri við fyrirheit stjórnarskrárinnar um virkan fullveldisrétt þjóðarinnar.

Þjóðin vildi að haldnar yrðu þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál. Ráðamenn vildu hins vegar alvald stjórnmálaflokka, Alþingis og ríkisstjórnar.

Íslenska ráðastéttin sætti sig semsagt ekki við ósigur sinn við gerð stjórnarskrá lýðveldisins.

Í hugarheimi íslenskra ráðamanna fyrr og nú eru réttlátar leikreglur stjórnmálanna nefnilega bara tvær:

Regla nr. 1. hljóðar þannig: Ef þjóðin er sammála ríkisstjórninni þá á ríkisstjórnin að ráða.

Regla nr. 2. hljóðar þannig: Ef þjóðin er ósammála ríkisstjórninni þá á ríkisstjórnin að ráða.

Í október 1946 unnu íslenskir valdakarlar sigur – ef sigur skyldi kalla.

Þeir neituðu að halda þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykktu síðan þingsályktunartillögu sem heimilaði bandaríska herstöð í landinu.

Þar með var stefnunni um ævarandi hlutleysi Íslands hafnað í reynd.

Þjóðin fékk ekki að ákvarða framtíð sína sjálf eins og lofað hafði verið 17. júní 1944.

Um þessa atburði sagði Halldór Kiljan Laxness: „Hin frjóa gleði yfir því að vera sjálfstætt fólk hefur verið frá okkur tekin.“

Það reyndust – því miður – vera orð að sönnu.

Á 70 ára afmælisári íslenska lýðveldisins eru við hér á Austurvelli og ætlum enn og aftur að koma vitinu fyrir íslenska ráðamenn – og ekki veitir af.

Íslenskir ráðamenn reyna – enn og aftur – að taka frá okkur réttinn til að ákvarða sjálf okkar eigin framtíð.

Ráðamenn virðast nánast staðráðnir í að segja sig úr lögum við siðað samfélag.

Í siðuðu samfélagi svíkur fólk nefnilega ekki loforð sín.

Í þetta sinn mun íslenska þjóðin hins vegar sigra en ráðamennirnir munu hörfa.

Við vitum öll að án endurreisnar lýðveldisins verður annað Hrun.

Við vitum einnig að gott samfélag byggir á sameiginlegum draumum um betri framtíð – rétt eins og lýðveldið frá 17. Júní 1944 var byggt á draumum fólksins um nýsköpun lýðræðis.

Ég enduróma því raddir fólksins í landinu þegar ég segi hátt og skýrt:

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem enginn gengur svangur til hvílu.

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem fólkið í sjávarbyggðum landsins þarf ekki að óttast morgundaginn, þarf ekki að óttast að lénsherrarnir ákveði að svipta fólk atvinnu sinni og eignum.

Í því lýðveldi ákvarða lénsherrar ekki hvar á landinu fólk á sitt heimili og lífsviðurværi.

Í því lýðveldi eru engir hreppaflutningar á fólki.

Í því lýðveldi eru reyndar engir lénsherrar og undirsátar þeirra, heldur einungis jafningjar og samborgarar.

Í því lýðveldi er flóttafólk og hælisleitendur ekki lítilvirt og niðurlægt af valdhöfum.

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem fólkið í landinu á sjálfstæðan rétt á að taka ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu en þarf ekki að treysta á geðþóttaákvarðanir ráðamanna.

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem ríkir trúnaðarsamband á milli ráðamanna og fólksins í landinu.

Um lýðveldi þar sem orð skulu standa!

–       Ég á mér draum um lýðveldi þar sem ráðamenn hunsa ekki niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjan samfélagssáttmála og nýja stjórnarskrá.

Því við skulum muna að draumar eru ekki lúxus. Eins og þjóðskáldið Hannes Pétursson segir: „Við stóðumst ekki án drauma – neinn dag til kvölds …“

Munum öll. Ekkert lýðveldi fær staðist án drauma fólksins um lýðræði, réttlæti, frelsi og jafnrétti.

Munum öll. Okkur Íslendingum er það lífsnauðsynlegt að endurheimta þá frjóu gleði að eiga samfélag hvort við annað.

Munum öll. Sem þjóð er okkur Íslendingum það lífsnauðsynlegt að endurheimta sameiginlegan draum okkar, að endurheimta drauminn frá 17. júní 1944 um lýðveldi sem við eigum öll saman.

Lýðveldið er okkar dýrmætasta og viðkvæmasta þjóðareign.

Við skulum gæta vel fjöreggsins sem okkur er sameiginlega trúað fyrir.

Upptaka af ræðu Svans Kristjánssonar.