viktor-orriKæru samborgarar,

Takk fyrir að standa hérna – dag eftir dag, laugardag eftir laugardag. Jafnvel ár eftir ár.

Við sem nennum því hljótum stundum að spyrja okkur til hvers, hvað hefur það eiginlega upp á sig að berja í óvenju þrautseiga girðingu í skítakulda tímunum saman aftur og aftur, hverju breytir það?

Hefur eitthvað breyst?

Ég var ekkert sérstaklega fullorðinn þegar ég byrjaði að standa hérna með ykkur fyrir rúmum fimm árum síðan. Í sjokki yfir því að samfélagið sem ég ólst upp í var hrunið.

Það voru ekki bara bankarnir, hagkerfið, krónan og stjórnmálin sem hrundu, heldur samfélagsmyndin sjálf. Sjokkið var ekki síst yfir því sem hrunið afhjúpaði; vanhæfnina, valdfíkninga og virðingarleysið; sjálfsblekkinguna, spillinguna, kæruleysið og klíkuvæðinguna sem hafði ráðið ríkjum í íslensku samfélagi.

Hvernig stofnanir, einstaklingar og stjórnmálin í heild höfðu brugðist. Að samfélagið var á sandi byggt.

Svo ég mætti hingað. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað þurfti að breytast, en eitthvað þurfti að breytast. Svo mikið vissi ég.

Fyrstu skrefin voru einföld; viljum við kosningar? Viljum við nýja ríkisstjórn? Hrópaði Hörður Torfason – Já! Svaraði ég. Nýja stjórn í Seðlabankann og FME? Örugglega / Án efa!

Og saman kyrjuðum við í takt, dag eftir dag, með sleif í annarri og pönnu í hinni – vanhæf ríkisstjórn – vanhæf ríkisstjórn – við þurftum ekki einu sinni girðinguna!

Þá breyttist vissulega eitthvað, við fengum kosningar og nýja ríkisstjórn sem gerði alveg hreint ýmislegt. En svo voru eitthvað skiptar skoðanir um það, þannig að hinir fengu bara að ráða aftur.

Hefur eitthvað breyst?

Við fengum líka nýja stjórn í Seðlabankann og FME – nú er búið að koma glaumgosanum úr gamla eftirlitinu fyrir í LÍN, þar sem hann skemmtir sér við að níðast á íslenskum námsmönnum, og setja áhættufjárfesti í hans stað.

Svo þarf víst að endurskoða þá ákvörðun að ráða seðlabankastjóra faglega, auglýsa starfið hans laust og koma tveimur flokkshestum aftur í bankann, alveg eins og í þá gömlu, góðu daga.

En þetta snýst ekki bara um það sem Hörður hrópaði; hvítir borðar lituðu líka borgina og báðu um nýja stjórnarskrá. Krafa sem varð háværari og háværari, leiddi af sér þjóðfundi, Stjórnlagaþing, stjórnlaganefnd, stjórnlagaráð og eftir ógeðslega mikla vinnu, umræður og aðkomu þúsunda Íslendinga studdi 2/3 þjóðarinnar nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nýjan grundvöll, í staðinn fyrir þann úrelta og úrsérgengna sem við áttum aldrei að sitja uppi með sem þjóð, þann sand sem samfélagið hafði byggt á. Við sömdum nýjan samfélagssáttmála íslensku þjóðarinnar, sem átti að tryggja lýðræði, mannréttindi, samráð, gegnsæi og faglega stjórnsýslu –tryggja að þetta gæti ekki gerst aftur.

Og hvar er samfélagssáttmáli íslensku þjóðarinnar í dag?

Ef Sigurður Líndal frændi minn er á svæðinu getur hann kannski sagt okkur það, en ég efa að nokkur annar viti það.

Þjóðfundurinn 2009 lagði síðan mesta áherslu á að gildin heiðarleiki, virðing og ábyrgð yrðu að leiðarljósi á nýju Íslandi – við hlógum nú soldið að því, hvað þetta væri allt saman almennt og sjálfsagt eitthvað.

Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst það ekkert svo fyndið lengur. Ímyndið ykkur ef einhver hefði hlustað.

Ef hæstvirtur forsætisráðherra sýndi bara nokkrum einasta manni virðingu, hvort sem er í fjölmiðlum, á fundum eða Alþingi. Að hann hætti að snúa út úr, ráðast á manninn og gera lítið úr kjósendum.

Svo ég tali nú ekki um hæstvirtan forseta, sem virðist ekki bera virðingu þjóðfundarins fyrir neinum öðrum en rússneskum mafíósum og mannréttindabrjótum. Um utanríkisráðherra, formann fjárlaganefndar og svona mætti telja – þar sem virðingin er engin.

Heiðarleiki og ábyrgð ættu síðan kannski að vera kjörorð þessa fundar.

Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður á kjörtímabilinu. Á fyrri hluta kjörtímabilsins, við munum standa við það – sagði Bjarni. Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það að þjóðin fær að ákveða það, sagði Hanna.

„Ég er bara að segja að almenningur eigi að ráða þessu“ sagði Sigmundur Davíð fyrir kosningar.

„Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu“ –  „Það hlýtur að vera“ sagði formaðurinn – og sama lofaði skrifstofa flokksins.

Nú eru þetta ekkert nema varnaglar og pólitískir ómöguleikar. ESB vildi það ekki, við hefðum hvorteðer ekki fengið sérlausnir, þetta var nú óheppilega orðað og leiður misskilningur og við meintum sko bara að við myndum halda þjóðaratkvæðagreiðslu EF við myndum sækja um sem við ætluðum auðvitað aldrei að gera.

Afsakanirnar eru hver annarri ómerkilegri og óheiðarlegri. Vanvirðing við vitsmuni okkar sem þau eiga að þjóna, hlægilegur dónaskapur og þau vita það sjálf. Þau hafa bara ekki sómakennd til að taka ábyrgð á eigin orðum.

Ég spyr ykkur eins og Hörður Torfason forðum, eru þetta boðlegar afsakanir?

Eigum við kannski að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu eins og okkur var lofað?

Já – þessu risastóra deilumáli á þjóðin að ráða og við þurfum að geta tekið upplýsta ákvörðun. Íslenskir stjórnmálamenn verða að virða vilja þjóðarinnar og eigin loforð.

Í mínum huga er krafa dagsins samt ekki bara krafa um eina þjóðaratkvæðagreiðslu sem kippir öllu í lag.

Krafan um betri vinnubrögð, heiðarleika og lýðræðislegri stjórnmál er krafa sem hefur verið uppi allan þennan tíma, endurspeglast í kröfu dagsins og við munum halda henni áfram.

Við eigum nýja stjórnarskrá, þau þurfa bara að samþykkja hana, við vitum að valdið er okkar, þau þurfa bara að viðurkenna það, við höldum áfram baráttunni því hún er langhlaup, ekki skammhlaup.

Því kæru Íslendingar,

Þegar allt kemur til alls er alltof margt eins og þegar ég stóð hér fyrir fimm árum en eitt hefur þó breyst.

Við höfum breyst. Við látum ekki bjóða okkur svona kjaftæði lengur. Við lærðum af hruninu, við mætum á Austurvöll dag eftir dag og krefjumst þess að þau hlusti á okkur, að þau standi við gefin loforð, sýni okkur virðingu og læri eitthvað af reynslunni.

Við erum kannski ekki þjóðin en við erum allavega betri fulltrúar hennar en fólkið þarna inni í dag – þjóðar sem krafðist breytinga; heiðarleika og ábyrgðar, gegnsæis, lýðræðis og málefnalegra stjórnmála, samdi nýja stjórnarskrá fyrir nýtt Ísland.

Sú þjóð hefur tekið breytingum sem þetta fólk mun ekki ná að stöðva. Þess vegna stöndum við hér.

Upptaka af ræðu Viktors Orra Valgarðssonar.